Íslenskar athafnakonur leggja Barnaheillum lið

Barnaheill - Save the Children á Íslandi - efndu til vel heppnaðs fjáröflunarhádegisverðar í Iðnó á dögunum þar sem um 40 konur úr íslensku athafnalífi komu saman til að styðja við starfsemi samtakanna.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi - efndu til vel heppnaðs fjáröflunarhádegisverðar í Iðnó á dögunum þar sem um 40 konur úr íslensku athafnalífi komu saman til að styðja við starfsemi samtakanna.

Að sögn Petrínu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóri Barnaheilla, heppnaðist viðburðurinn einstaklega vel og fengu samtökin marga nýja og öfluga styrktarfélaga. Kona sem ekki vildi láta nafns síns getið gaf einnig 500.000 kr. til menntaverkefnis í Úganda eftir hádegisverðinn.

 „Þetta er í fyrsta sinn sem Barnaheill standa að fjáröflunarhádegisverði með þessu sniði og var sérstaklega ánægjulegt að fá stuðning kvenna sem eru í forystuhlutverki víða í þjóðfélaginu við starf og málefni Barnaheilla."

Meðal dagskrárliða á fjáröflunarhádegisverðinum var happdrætti fyrir nýskráða styrktarfélaga Barnaheilla og segir Petrína að það hafi vakið kátínu viðstaddra þegar í ljós kom að nýbakaður umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, var meðal vinningshafa.  „Ráðherra þurfti að yfirgefa samkvæmið vegna skyldustarfa áður en dregið var í happdrættinu og lét þá þau orð falla að hún ynni aldrei í happdrætti," segir Petrína sem tók við vinningnum, glæsilegu silfurhálsmeni frá skartgripaversluninni Carat, fyrir hönd ráðherra. Petrína afhenti ráðherra hálsmenið nokkrum dögum síðar.

Steinunn Þórarinsdóttir, myndlistakona afhenti verk eftir sig sem selt verður til fjáröflunar á Hátíð trjánna fjáröflunarviðburði Barnaheilla næstkomandi haust.

Barnaheill þakka kærlega öllum þeim sem tóku þátt í hádegisverðinum og studdu við þennan viðburð á annan hátt. Sérstakar þakkir fær Iðnó sem styrkti fjáröflunarhádegisverðinn. Einnig þökkum við Hótel Glym, versluninni Carat, Blue Lagoon húðvörum og Nordica Spa fyrir að leggja til happdrættisvinninga samtökunum til stuðnings.