Lína Langsokkur fagnar 75 ára afmæli sínu

Í dag eru 75 ár frá því að sterkasta stelpa í heimi – Lína Langsokkur – mætti einsömul í nýjan bæ þar sem hún settist að og kynntist sínum bestu vinum, Tomma og Önnu. 

Í dag standa milljónir stúlkna í sömu sporum þar sem þær hafa neyðst til þess að yfirgefa heimili sín og flytjast í nýjar borgir eða ný lönd þar sem þær þekkja ekkert og engan. Nú þegar kórónaveirufaraldurinn breiðist hratt út í þróunarlöndum þurfa stúlkur á flótta á enn meiri styrk, hugrekki og von að halda til þess að takast á við þær áskoranir sem verða á vegi þeirra að bjartari framtíð.

Covid-19 ógnar réttindum barna úti um allan heim og er óhætt að segja að stúlkur á flótta séu sérstaklega viðkvæmar fyrir ástandinu. Þær standa m.a. frammi fyrir ýmsum birtingarmyndum af kynbundnu ofbeldi og auknu misrétti milli kynjanna. Þær hafa takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og skert aðgengi að menntun svo eitthvað sé nefnt.

Það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú að styðja við stúlkur á flótta.