Málþing um börn og samskipti á internetinu fór fram í dag

Málþing um börn og samskipti á internetinu var haldið í dag og tókst með ágætum. Fred Langford, forseti Inhope, alþjóðlegra regnhlífasamtaka ábendingalína, og aðstoðarframkvæmdastjóri Internet Watch Foundation var aðalfyrirlesari. Í erindi sínu fjallaði Langford um alþjóðlegt samstarf til að útrýma kynferðislegu ofbeldi gegn börnum á netinu og um helstu áskoranir sem foreldrar, fagaðilar og opinberir stefnumótunaraðilar standa frammi fyrir til að tryggja öryggi barna á netinu.

Meðal þess sem Fred fjallaði um voru þessi ráð um hvernig hægt er að verja sig í netheimum:

 • Leiddu hugann að þessu áður en þú póstar, setur inn athugasemd eða gerir annað á netinu:
  • Hverjir eru viðtakendur (allir eða persónulegir)?
  • Hvejir aðrir hafa aðgang að þínum upplýsingum (þriðji aðili)?
  • Er hægt að sjá staðsetningu þína gegnum netið?
  • Er eitthvað á mynd sem þú deilir sem gefur upplýsingar um þig (staðsetning, klæðnaður o.s.frv.)?
 • Verðu þig (lykilorð, stillingar, samfélagsmiðlar)
 • Vertu með það á hreinu hvernig þú getur tilkynnt ólöglegt efni eða annað óæskilegt

Málþingið var haldið í samstarfi nefndar stjórnvalda um mótun stefnu í forvörnum og fræðslu með það að markmiði að útrýma kynferðislegu ofbeldi og áreitni, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Lögreglunnar á Suðurnesjum, ábendingalínu Barnaheilla og SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, sem er samstarfsverkefni Heimilis og skóla, Rauða krossins, Ríkislögreglustjóra og Barnaheilla.

Dagskrá málþingsins

 • 14:00 Setning
 • 14:05 Internetið og mótun stefnu í forvörnum gegn kynferðislegu ofbeldi. Halla Gunnarsdóttir, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og formaður nefndar um mótun stefnu í forvörnum og fræðslu með það að markmiði að útrýma kynferðislegu ofbeldi og áreitni
 • 14:15 „Online safety and future technology” Fred Langford, forseti INHOPE, alþjóðlegra regnhlífasamtaka ábendingalína og aðstoðarframkvæmdastjóri Internet Watch Foundation
 • 15:00 Pallborðsumræður: „Meðvitund um öryggi barna á internetinu“

Þátttakendur:

Sólveig Jakobsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra Sjúkást hjá Stígamótum
Eiríkur Guðni Ásgeirsson, rannsóknarlögreglumaður, Lögreglan á Suðurnesjum
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri Lögreglunnar á Suðurnesjum
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla
Andrea Marel, deildarstjóri unglingastarfs, Tjörnin frístundamiðstöð
Þóra Jónsdóttir, verkefnastjóri ábendingalínu Barnaheilla
Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi
Embla Rún Pétursdóttir og Birna Guðlaugsdóttir, Ungmennaráði SAFT
Anna Kristín Newton, sálfræðingur

 • 15:40 Kynning á nýrri tilkynningasíðu Barnaheilla og SAFT, Þóra Jónsdóttir og Aldís Yngavdóttir
 • 15:50 Trigger warning, Sólborg Guðbrandsdóttir, athafnakona
 • 16:00 Málþingi slitið

Málþingsstjóri var Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.

Upplýsingaefni Persónuverndar

Hver eru þín einkamál? - Til upplýsinga fyrir 13-17 ára

Persónuvernd barna - Upplýsingar til foreldra, forráðamanna og þeirra sem vinna með börnum