Ný barnabrúður á 7 sekúndna fresti

Á hverjum sjö sekúndum er stúlka undir fimmtán ára aldri leidd í hjónaband samkvæmt nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children sem sýnir fram á umfang barnabrúðkaupa og alvarlegra afleiðinga þeirra á líf stúlkna.

Every Last GirlÁ hverjum sjö sekúndum er stúlka undir fimmtán ára aldri leidd í hjónaband samkvæmt nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children sem sýnir fram á umfang barnabrúðkaupa og alvarlegra afleiðinga þeirra á líf stúlkna.

Allt niður í 10 ára gamlar stúlkur eru þvingaðar í hjónabönd með mönnum sem oft eru mun eldri en þær. Þetta á sér stað í löndum á borð við Afghanistan, Yemen, Indland og Sómalíu.

Skýrslan Every Last Girl: Free to live, free to learn, free from harm, var gefin út í dag í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins. Skýrslan flokkar lönd eftir því hvar best eða verst er að vera stúlka og byggir á upplýsingum um barnabrúðir, menntun, þunganir unglingsstúlkna, mæðradauða og fjölda kvenkyns þingmanna. Ísland er ekki í úttektinni þar sem ekki fengust opinberar tölur um barnabrúðkaup hér á landi.

Löndin sem skipa neðstu sæti listans eru meðal annarra Níger, Chad, Mið-Afríkulýðveldið, Mali og Sómalía, lönd sem hafa háa tíðni barnabrúðkaupa. Löndin í efstu sætunum eru Svíþjóð, Finnland, Noregur, Holland og Belgía.

„Barnabrúðkaup svipta stúlkur grundvallarréttindum þeirra til náms, þroska og að fá að vera börn,” segir Helle Thorning-Schmidt, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children International; „Þegar stúlkur eru þvingaðar til að giftast of snemma þýðir það að þær hætta að geta sótt skóla og eru líklegri til að búa við heimilisofbeldi, misnotkun og nauðgun. Þær verða ófrískar og eiga á hættu að fá sýkingar sem berast með kynmökum á borð við HIV. Þær ganga einnig með börn áður en líkamar þeirra eru nægilega þroskaðir, sem getur haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir þær og börn þeirra.”

Alþjóðasamfélagið hefur lofað að útrýma barnahjónaböndum fyrir árið 2030, en ef sama þróun heldur áfram mun fjöldi kvenna sem gengu í hjónaband á barnsaldri hækka úr meira en 700 milljónum, eins og staðan er í dag, í um 950 milljónir árið 2030, og upp í 1.2 milljarða árið 2050.

Í skýrslunni kemur einnig fram að:

  • Stúlkur verða í meira mæli fyrir afleiðingum átaka þar sem margar flóttamannafjölskyldur gifta dætur sínar til að koma þeim í örygg