Nýjar gervihnattamyndir sýna umfang eyðileggingar í Sýrlandi

Gífurlegur fjöldi barna og fjölskyldur þeirra hafast við í flóttamannabúðunum í Idlib í Sýrlandi.
Gífurlegur fjöldi barna og fjölskyldur þeirra hafast við í flóttamannabúðunum í Idlib í Sýrlandi.

Nú, 15. mars næstkomandi, eru 9 ár liðin síðan stríðið í Sýrlandi hófst. Margar milljónir flóttafólks hafa neyðst til þess að flýja heimili sín í stríðinu, og þar af helmingur börn, til yfirfullra flóttamannabúða þar sem það býr við ómannúðlegar aðstæður. Börn skortir grunnstoðir í flóttamannabúðum þar sem skortur er á hreinu vatni, næringarríkum mat og menntun. Eins er kalt í búðunum þar sem oftast er ekki hægt að hita upp tjöldin.

Nú þegar átökin eru að hefja sitt tíunda ár hafa Barnaheilla - Save the Children ásamt Harvard Humanitarian Initiative og World Vision gefið út nýja skýrslu sem greiningu á stríðinu, Displacement & Destruction: Analysis of Idlib, Syria 2017-2020, og samkvæmt henni hefur nærri því ein milljón manns neyðst til að flýja heimili sín í Sýrlandi frá því í byrjun desember 2019. Einnig sýnir niðurstaða skýrslunnar að ástandið í Norðvestur Sýrlandi hefur aldrei verið verra en nú. Börn eru helstu fórnarlömb átakanna og greina Sameinuðu þjóðirnar frá því að að minnsta kosti 77 börn hafi verið drepin fyrstu tvo mánuði ársins í Norðvestur Sýrlandi.

Nýjar gervihnattamyndir, sem teknar voru af Harvard Humanitarian Initiative, sýna að nokkur svæði í suður- og austurhluta Idlib hafa orðið fyrir gríðarlega miklum skemmdum, en höfundar skýrslunnar telja að um þriðjungur húsa á svæðinu séu verulega skemmd eða eyðilögð. Íbúar þessara svæða hafa flúið heimili sín en óvíst er hvort að hægt verði að flytja þá aftur til baka.

Aðrar gervihnattamyndir sem teknar hafa verið í Norður-Idlib sýna flóttamannabúðir sem hafa stækkað gífurlega á undanförnum árum og teygja sig yfir svæði sem áður var ríkt landbúnaðarsvæði. Talið er að fjöldi flóttamanna í búðunum hafi meira en tvöfaldast frá árinu 2017.

Caitlin Howarth frá Harvard Humanitarian Initiative segir að hægt sé að meta ýmislegt út frá gervihnattamyndunum:

Þessar gervihnattamyndir sem við höfum eru frá árinu 2017 fram til 26. febrúar 2020 og notum við myndirnar til þess að meta breytingar á svæðum þar sem átök eru og einnig til þess að skoða svæði þar sem flóttamenn eru að setjast að. Enn eru meira en 3 milljónir flóttafólks, sem ekki hafa getað snúið aftur heim, í landinu en þriðjungur þessa fólks hefur þurft að flýja á s.l. þremur mánuðum.

Othman, 9 ára, er einn af þeim fjölmörgu börnum sem eru á flótta í Sýrlandi:

Við flúðum vegna árásanna og skyldum allt eftir. Við vissum ekki hvert við áttum að fara en fyrst fundum við skjól í mosku. Síðan komu þeir með okkur hingað. Allir vinir mínir eru horfnir og það er enginn eftir í bænum mínum. Þeir eru búnir að drepa þá alla.

Fadi, 15 ára unglingur, þurfti einnig að flýja heimili sitt en hann missti annan handlegginn í loftárás sem dundi á þorpið hans:

Árásirnar voru grimmar. Við flúðum og gátum ekki tekið neitt með okkur. Þegar ég missti hendina leið mér eins og ég væri dáin en nú nota ég aðeins aðra hendina til þess að sjá fyrir fjölskyldunni minni.

Save the Children og World Vision hvetja alla málsaðila að átökunum til að virða alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög. Nauðsynlegt er að vernda skóla, sjúkrahús og aðra innviði frá árásunum. Sérstaklega þarf að vernda börn sem eru afar viðkvæm gagnvart árásum en átökin hafa gríðarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu barna. Milljónir barna í Sýrlandi þekkja ekkert annað en stríðsástand og þær ómannúðlegu aðstæður sem því fylgja, það brýtur gegn Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.

 

Þú getur lagt þitt af mörkum með því að styðja verkefni Barnaheilla:

Gerast heillavinur                          Stakur styrkur/Frjáls framlög