Sárast að íslensk börn búi við fátækt

Vigdís Finnbogadóttir er verndari Barnaheilla – Save the Children á Ísland. Hún talaði um fátækt í viðtali í Blaði Barnaheilla sem kom út í byrjun sumars. Við birtum hér viðtalið við Vigdísi í heild sinni.

Vigdi´sVigdís Finnbogadóttir er verndari Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og stofnfélagi númer eitt. Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun samtakanna hefur ýmislegt áunnist í mannréttindabaráttu barna, bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Vigdísi hefur þó ávallt fundist mikilvægt að vinna að málefnum barna hér á landi.  
„Auðvitað eigum við líka að hugsa til barna sem eiga erfitt úti í heimi og ég styð fjölda barna þar. En mér er mjög umhugað um að sinna börnum sem eiga framtíð hér heima. Að þau fái alúð og atlæti til að vaxa upp sem góðir og gildir þjóðfélagsþegnar sem muna góða æsku.“

Það er mat Vigdísar að aldrei sé ofgert þegar komi að mannréttindum barna. Miklu frekar þurfi að horfast í augu við að ýmislegt sé vangert og hafi ekki náðst fram.

„Eins og til dæmis að enn skuli vera til börn sem búi við fátækt á Íslandi. Sú staða er uppimiklu víðar en okkur grunar. Þjóðfélagið hefur ekki haft tök á að skapa þá stöðu að öll börn fái jöfn tækifæri, til dæmis til námskeiða eða leikja, og geti þannig notið bernskunnar. Og sárast finnst mér þegar einstæðir foreldrar berjast með börn sem fá ekki að njóta sín vegna bágs efnahags.“

Málefni innflytjenda eru Vigdísi einnig hugleikin nú þegar þjóðfélagið er fjölmennara og fleiri börn af erlendum uppruna. „Það þarf að sinna þessum börnum mjög vel og fylgjast með hvernig þeim reiðir af. Það er afar mikilvægt að þau sem tala erlend tungumál fái hjálp með tungumálið okkar, því annars geta þau orðið afskipt. Félagsleg einangrun er eitthvað sem þarf að gæta sérstaklega að. Þetta er framtíðarmál fyrir okkur.“

Vigdís er fyrsti og eini talsmaður tungumála á heimsvísu í hlutverki sínu sem velgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna í tungumálun. Og hún vill veg íslenskrar tungu sem mestan. Nafn samtakanna, Barnaheill, er komið úr smiðju hennar, Höllu Þorbjörnsdóttur og Ernu Þorleifsdóttur. Hún segist hafa verið lengi að velta því fyrir sér í tengslum við nafn alþjóðasamtakanna Save the Children. Þýðingin, Björgum börnunum, hafi ekki gengið, því orðið björgun hafi aðra merkingu á íslensku; að bjarga einhverjum frá vá.  

„Ég var lengi að velta þessu fyrir mér, því það er ekki hægt að segja að bjarga börnunum. Nafnið Barnaheill nær hins vegar bæði yfir hamingju og heill og tekur þ