Sex milljóna króna stuðningur við uppbyggingarstarf á Haítí

HAITI_TOMAS_034_minniBarnaheill – Save the Children á Íslandi hafa fengið sex milljóna króna stuðning frá utanríkisráðuneytinu við uppbyggingarstarf á Haíti. Sérstök áhersla er lögð á menntun, heilsu og vernd barna. Samtökin munu senda í allt 7,6 milljónir króna og verður féð einkum nýtt til  að bregðast við útbreiðslu kóleru.

HAITI_TOMAS_034_minniBarnaheill – Save the Children á Íslandi hafa fengið sex milljóna króna stuðning frá utanríkisráðuneytinu við uppbyggingarstarf á Haíti. Sérstök áhersla er lögð á menntun, heilsu og vernd barna. Samtökin munu senda í allt 7,6 milljónir króna og verður féð einkum nýtt til  að bregðast við útbreiðslu kóleru.

Ástandið á Haítí eftir jarðskjálftann í janúar á þessu ári er enn mjög alvarlegt. Útbreiðsla kóleru hefur ekki bætt stöðuna en ríflega 700 manns hafa þegar látist og 11 þúsund manns eru veikir af þessum sjúkdómi sem koma má í veg fyrir og veita meðferð við. Rúmlega ein milljón manna hefur búið við sóðalegar aðstæður í yfirfullum flóttamannabúðum frá því í janúar og milljónir til viðbótar búa í fátækrahverfum þar sem aðgangur að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu er nánast enginn. Börnin eru sérlega viðkvæm þar sem ónæmiskerfi þeirra þolir illa sjúkdóma eins og niðurgang og kóleru, sem geta dregið þau til dauða á nokkrum klukkutímum.

Stuðningur utanríkisráðuneytisins nú er því mjög mikilvægur fyrir uppbyggingarstarfið á Haítí. Barnaheill – Save the Children starfa nú eftir fimm  ára neyðar- og uppbyggingaráætlun sem beitt er á þeim svæðum sem urðu fyrir jarðskjálftanum. Áhersla er lögð á þau svið sem hafa mest áhrif á líf og velferð þúsunda barna; menntun, vernd, heilsu og næringu, vatn og hreinlæti, skjól, lífsviðurværi, mataröryggi og –dreifingu sem og birgðir af öðrum toga. Markmið uppbyggingarinnar er að tryggja betra líf en var fyrir jarðskjálftann. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa alls lagt 14 milljónir króna til starfsins á Haítí.

Eitt mikilvægasta verkefni samtakanna nú er að upplýsa íbúa Haítí um kóleru og hvernig hún smitast og dreifir sér. Ef takast á að stemma stigu við því að kóleran breiðist út um alla eyjuna með tilheyrandi lífshættu fyrir þúsundir manna, verður að hvetja samfélagið allt til að leita sér strax hjálpar ef grunur er um kóleru og bjóða íbúum upp á gagnlegar upplýsingar og birgðar til að bæta hreinlæti.

Hægt er að hringja í söfnunarsíma Barnaheilla –Save the Children á Íslandi, 904 1900 og 904 2900, til að leggja málefninu lið eða leggja inn frjáls framlög á 0327-26-001989, kt. 521089-1059.