Sjálfstæður réttur barna til beggja foreldra

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er gengið út frá því að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt vera foreldrum efst í huga. Jafnframt er meginreglan sú að börn skuli ekki aðskilin frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema nauðsyn beri til, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt.

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er gengið út frá því að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt vera foreldrum efst í huga. Jafnframt er meginreglan sú að börn skuli ekki aðskilin frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema nauðsyn beri til, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt. Í formála Barnasáttmálans er því lýst að hvert barn eigi að alast upp í fjölskylduumhverfi þar sem ríkir hamingja, ást og skilningur. Sem betur fer býr meirihluti barna á Íslandi við slíkt nærandi og hvetjandi umhverfi.

Þegar foreldrar slíta samvistum, getur veröld barna og foreldra þeirra farið á hvolf og djúp sár geta myndast sem tekur tíma og vinnu að græða. Í flestum tilfellum ganga skilnaðir tiltölulega vel. Samkvæmt rannsóknum ná foreldrar í um 80% tilvika að semja um skilnaðarskilmála án sérstakrar aðstoðar. Í öðrum tilfellum ganga skilnaðir hins vegar ekki jafn vel. Þar ríkir jafnan mikil reiði á milli foreldra, særindi, ásakanir og spenna, og börnin líða þjáningar vegna þess. Þeim er jafnvel gert að taka afstöðu með öðru hvoru foreldrinu gegn hinu og þannig verða þau á milli sem eins konar vopn í valdabaráttu foreldra sinna.

Barnaheill telja að gefa þurfi stöðu og líðan barna sem verða á milli í átökum foreldra eftir skilnað meiri gaum. Sérstaklega af börnum sem missa tengsl við annað foreldri sitt vegna þessara aðstæðna. Börn bera ekki ábyrgð á vellíðan foreldra sinna og þeim má ekki beita sem vopni í baráttu þeirra um völd. Foreldrum ber skylda til að greiða úr samskiptaerfiðleikum án þess að leggja ábyrgð á börn sín í því verkefni. Börn eiga sjálfstæðan rétt á að umgangast og þekkja báða foreldra sína og báðum foreldrum ber að stuðla að því að umgengni gangi vel fyrir barnið, í undantekningartilfellum þarf þó stuðning eða eftirilit yfirvalda.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skora á foreldra, stjórnvöld og samfélagið allt að gæta þess að börn séu ekki látin bera ábyrgð í deilum foreldra og að börn séu ekki útilokuð frá samvistum við annað foreldri sitt nema að öryggi þeirra sé í raun ógnað. Samtökin biðla til foreldra að hafa hagsmuni barna sinna í forgrunni við allar ákvarðanir sem þau varða.

Öll börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi, vanrækslu og óæskilegum áhrifum, svo sem hatursorðræðu og ógnandi aðstæðum. Þau eiga rétt á að njóta sömu tækifæra til að lifa hamingjuríku lífi og okkur ber öllum skylda til að gæta sameiginlega að því að svo megi verða.

Barna