Skemmtilegt og gefandi að vera í ungmennaráðinu

Að vera meðlimur í ungmennaráði Barnaheilla er eitt af því skemmtilegasta og mest gefandi sem ég hef gert um ævina. Oft hef ég komið heim af fundum með hugann á fleygiferð eftir umræðurnar og liðið eins og ég gæti bætt hag barna í samfélaginu. Og hlutverk ungmennaráðsins er einmitt það; að vinna að bættum hag barna, að hafa áhrif á viðhorf til barna í samfélaginu og að virkja börn og unglinga til þátttöku um að móta það samfélag sem þau eiga aðild að.

IngibjörgAð vera meðlimur í ungmennaráði Barnaheilla er eitt af því skemmtilegasta og mest gefandi sem ég hef gert um ævina. Oft hef ég komið heim af fundum með hugann á fleygiferð eftir umræðurnar og liðið eins og ég gæti bætt hag barna í samfélaginu. Og hlutverk ungmennaráðsins er einmitt það; að vinna að bættum hag barna, að hafa áhrif á viðhorf til barna í samfélaginu og að virkja börn og unglinga til þátttöku um að móta það samfélag sem þau eiga aðild að.

Auk þess að vinna gott starf í þágu barna hef ég kynnst fullt af flottum og klárum krökkum sem hafa öll sömu markmið varðandi velferð barna.

Á síðasta ári starfaði ungmennaráð Barnaheilla mikið með ungmennaráði Unicef og ráðgjafarhópi umboðsmanns barna. Við höfum meðal annars unnið að gerð stuttmyndar sem sýnd verður á RÚV í haust. Stuttmyndin er gerð í tilefni af afmæli Barnasáttmálans. Ívar Kristján Ívarsson leikstýrir myndinni og nemendur Borgarholtsskóla vinna að gerð hennar. Ungmennaráðin sömdu handritið og tökur hófust í lok maí. Í þessari mynd verða aðstæður barna á Íslandi sýndar og ýmis annar fróðleikur um stöðu barna. Það verður skemmtilegt að fylgjast með og taka þátt í þessu spennandi verkefni. 

UngmennaráðUngmennaráðið hefur reynst mér eins og skóli. Skóli sem kennir manni að vinna með öðrum, líta gagnrýnum augum á samfélagið, að koma fram og að vera betri manneskja. Ég hlakka til að taka þátt í fleiri verkefnum innan ungmennaráðsins og halda áfram að reyna að breyta heiminum, þótt ekki sé nema pínulítið.

Ingibjörg Ragnheiður Linnet.

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2015.

 

Ungmennaráð Barnaheilla – Save the Children á Íslandi er félagsskapur ungs fólks á aldrinum 13-25 ára sem vill stuðla að réttlæti í heiminum og vekja athygli á málefnum er varða réttindi og stöðu barna. Markmiðið er annars vegar að stuðla að bættum hag barna og hafa áhrif á viðhorf til barna í samfélaginu og hins vegar að virkja börn og unglinga til þátttöku í að móta samfélagið sem þau eru hluti af. Fulltrúar ungmennaráðsins sitja ráðstefnur og taka þátt í málþingum samtakanna, skrifa greinar í blöð og taka þátt í opinberri umræðu er varðar málefni barna, eins og þurfa þykir.