Slökkvistarf eða forvarnir gegn einelti?

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, fjallar um forvarnir gegn einelti og greinir frá áherslum í Vináttu – forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti fyrir leik- og grunnskóla. Þar er sjónum beint að því að efla samskiptahæfni og tilfinningaþroska nemenda.

Reglulega koma fram fréttir í fjölmiðlum um skelfilegt einelti. Hjá standa foreldrar algjörlega ráðalausir og niðurbrotin börn – börn sem eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Einelti er vissulega ofbeldi. Hjá standa einnig börn, sem af ótta við að hljóta sömu örlög, þora ekki að bregaðst við og önnur sem taka virkan þátt í eineltinu. Allt eru þetta börn, sem eru að fóta sig í flóknum heimi samskipta og við sem erum fullorðin berum ábyrgð á að búa börnunum umhverfi þar sem einelti nær ekki að þrífast. Við þurfum jafnframt að leiðbeina þeim og aðstoða við að leysa ágreining og þá er mikilvægt að allir komi með reisn úr aðstæðum. Það er vænlegra til að stuðla að góðum samskiptum og sterkri sjálfsmynd allra barnanna sem um ræðir.

Á þessu byggist Vinátta – forvarnaverkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gegn einelti og er fyrir börn 0–9 ára í leik- og grunnskólum.

Áætlanir gegn einelti

 „En ef við lítum til síðustu 12 ára þá sjáum við hins vegar að tíðni eineltis hefur hægt og sígandi verið að aukast hér á landi. Það er erfitt að segja til um það hverjar ástæður þess eru en það verður þó ekki skýrt með auknu neteinelti því hefðbundið einelti hefur verið að aukast …“ segir Ársæll M. Árnason prófessor í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 22. nóvember sl. Hér er vitnað í niðurstöður aljóðlegrar rannsóknar, Health Behaviours in School-Aged Children, sem gerð er á fjögurra ára fresti. Samkvæmt rannsókninni hefur einelti aukist  þrátt fyrir að skólar landsins hafi í áratugi sett fram áætlanir gegn einelti.

Í mörgum tilfellum eru slíkar áætlanir um hvernig bregðast skuli við einelti, sem þegar hefur fest rætur og hvernig eigi að vinna með svokallaða gerendur og þolendur, enda er mikilvægt að koma þeim til aðstoðar. Þar sem einelti getur haft mjög alvarlegar afleiðingar hlýtur að vera mikilvægast að koma í veg fyrir einelti, að búa börnum umhverfi þar sem einelti nær ekki að þrífast. Að leggja áherslu á forvarnir, svo ekki þurfi að slökkva elda.

Rannsóknir sýna að einelti er algengast á miðstigi grunnskóla. Það sprettur ekki upp þá fyrirvaralaust heldur hefur fengið að þróast yfir lengri tíma, jafnvel frá leikskóla. Með hliðsjón af þessu er áherslan í Vináttu á að koma í veg fyrir einelti. Verkefnið er danskt að uppruna, nefnist Fri for Mobberi og byggist á nýjustu rannsóknum á einelti, ákveðinni hugmyndafræði og gildum gildum sem skulu vera samofin öllu skólastarfi. Þau eru umburðarlyndi fyrir margbreytileikanum, virðing, umhyggja og hugrekki til að bregðast við órétti og setja sér mörk.

Litið er á að einelti sem félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vanda. Því er sjónum beint að umhverfi barnanna, hópnum í heild og samskiptahæfni, en ekki að ákveðnum einstaklingum sem gerendum eða þolendum, þar sem sami einstaklingur getur verið í mismunandi hlutverki í mismunandi aðstæðum. Sú staðalímynd að gerendur séu árásargjarnir einstaklingar með jákvæða afstöðu til ofbeldis, þörf fyrir að stjórna og með litla samúð með fórnarlömbum sínum og þolendur séu aðgerðarlausir, undirgefnir, kvíðnir, óöruggir og veikburða einstaklingar á ekki við. Engin staðalímynd er til. Hver sem er getur lent í einelti og hvað sem er getur verið notað sem fóður í einelti og fer það eftir umhverfi og aðstæðum hverju sinni.

Hvar þrífst einelti?

Samkvæmt þeim rannsóknum sem Vinátta byggist á þróast einelti í aðstæðum og umhverfi  þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum. Þar eru ákveðin viðmið um hvað sé rétt eða rangt, hvað má og hvað ekki. Viðmiðin eiga þó bara við um suma og er jafnvel breytt eftir hentugleika. Skortur er á samhygð og góðum félagsanda. Sumir fá að vera hluti hópsins en aðrir eru óæskilegir eða útilokaðir.

Vinátta er í raun námsefni í félagsfærni  þar sem börn læra samskipti og samhygð og að þekkja tilfinningar sínar. Lögð er áhersla á að fyrirbyggja neikvæða félagslega hegðun en einnig að hjálpa börnum að leysa ágreining. Það skiptir miklu máli því þá eru meiri líkur á áframhaldandi farsælum samskiptum og börnin geta haldið áfram að vera góðir félagar og vinir.

Vináttu hefur verið afar vel tekið í leikskólum landsins. Góð reynsa og árangur af efninu hefur spurst frá skóla til skóla. Sá árangur er fyrst og fremst að þakka því góða fólki sem glæðir efnið lífí í skólunum í samstarfi við foreldra. Við hjá Barnaheillum erum þakklát fyrir þessar góðu viðtökur og einlægan vilja skóla til að leggja lóð á vogarskálarnar við að koma í veg fyrir einelti og efla samskiptahæfni barna.

Greining birtist fyrst í Fréttablaðinu og á frettabladid.is 14. desemeber 2018.