Sýrland: 10 ár síðan stríðið hófst

Í næstu viku eru tíu ár liðin síðan að stríðið í Sýrlandi hófst. Stríðið hófst með mótmælum serm brutust út um land allt og nú hafa hundruð þúsundir fólks látið lífið og milljónir barna hafa þurft að flýja heimili sín. Efnahagur og innviðir landsins eru að rústum kominn og enn 10 árum síðar virðist ekkert lát vera á átökunum.

Sýrlensk börn yngri en 10 ára þekkja ekki lífið án átaka og hefur líf þeirra svo sannarlega litast af ótta og óöryggi. Milljónir barna hafa flúið landið á undanförnum árum ásamt fjölskyldum sínum og samkvæmt nýrri skýrslu alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children Anywhere but Syria telja sýrlensk börn utan Sýrlands sig ekki eiga framtíð í heimalandi sínu. Skýrslan er byggð á viðtölum við 1.900 sýrlensk börn á aldrinum 13-17 ára, sem bæði eru á flótta innan landamæra Sýrlands og einnig sem hafa sest að í Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi og Hollandi. Þriðjungur barna á flótta innan landamæra Sýrlands óskar þess að búa í öðru landi en heimalandinu en 86% sýrlenskra barna sem hafa flúið til áðurnefndra landa vilja ekki snúa aftur til baka til heimalands síns.

Heilt á litið er andleg heilsa barna í Sýrlandi áhyggjuefni en rannsóknir Barnaheilla - Save the Children hafa sýnt fram á gífurleg álagseinkenni og andlega vanlíðan meðal barna innan landamæra Sýrlands. Átök og loftárásir hafa vissulega mikil áhrif á andlega líðan barna, en ekki má vanmeta efnahagsleg áhrif. Fyrir heimsfaraldur bjó um 80% þjóðarinnar í Sýrlandi undir fátæktarmörkum en nú eftir að heimsfaraldur skall á hefur verðbólgan vaxið gífurlega í landinu og bilið á milli ríkra og fátækra hefur breikkað enn meira. Um 6,2 milljónir barna í Sýrlandi búa við mikið hungur og vita ekki hvenær þau fá næstu máltíð. Einnig eru aðstæður í flóttamannabúðum í Sýrlandi ekki viðunandi en mikill kuldi er á veturna þar sem fjölskyldur búa í óupphituðum tjöldum.

Lara*, 7 ára frá Sýrlandi býr í flóttamannabúðum í Idlib, en hún þurfti að flýja heimili sitt fyrir þremur árum ásamt sex systkinum og foreldrum sínum. Hún er af þeirri kynslóð sem hefur aldrei þekkt neitt annað en átök í heimalandi sínu og er flóttinn orðin hluti af hennar lífi.

Heimilið okkar var sprengt upp og við þurftum að flýja. Við búum núna í tjaldi, sem er ekki öruggt. Framtíð okkar snýst um stríðið og ég óska þess að geta búið í öðru landi. Ég vil vera örugg og mig langar að vera í skóla og geta leikið mér.

Stór hluti barnanna sem tóku þátt í rannsókninni fannst þau hafa misst tengingu við samfélagið sitt. Þeim fannst félagsleg staða þeirra veikari en áður og að jafnaði fundu þau fyrir mikilli félagslegri mismunun.

Nada* 17 ára, frá Sýrlandi var sjö ára þegar stríðið hófst. Hún fæddist með fötlun sem hefur áhrif á taugakerfið hennar. Nú býr hún í Líbanon, en samkvæmt Barnaheillum - Save the Children er staða sýrlenskra flóttamanna ekki góð þar í landi og búa um 90% Sýrlendinga við mikla fátækt í Líbanon.

Ég á mér draum að verða læknir. En ég hef enga menntun. Ég vildi óska þess að ég gæti farið í skóla eins og systkini mín en ég get það ekki hér. Systkini mín verða fyrir miklu aðkasti í skólanum hér í Líbanon vegna þess hvaðan við komum og þau segja að þau vilji ekki hafa okkur hér. Ég vil ekki fara aftur til baka til Sýrlands en ég vil ekki heldur búa hér.

Í könnuninni sem lögð var fyrir börnin lögðu þau flest áherslu á mikilvægi menntunar og hvaða áhrif það hefði á líðan þeirra að geta ekki menntað sig. Sýrlensk flóttabörn í Hollandi voru meðal þeirra barna sem svöruðu könuninni og svöruðu 80% barnanna þar í landi að þau vildu ekki snúa aftur til Sýrlands. Þau nefndu menntun, tungumál, efnahagsleg tækifæri og frelsi vera meginástæður þess að þau vildu búa áfram í Hollandi.

Svæðistjóri Barnaheilla - Save the Children í Miðausturlöndum og austur Evrópu, Jeremy Stoner, segir nauðsynlegt að börn geti fundið fyrir öryggi á nýjum stað og að þau eigi möguleika á að verða hluti af nýju samfélaginu.

Það er eðlilegt að börn á flótta eigi erfitt með að finna fótfestu og geti skilgreint hvað er ,,heima”. Þetta eru börn sem hafa orðið fyrir barðinu á átökum og hafa verið rænd sinni barnæsku. En þó að fortíð þessara barna hafi verið tekin af þeim ættum við öll að hjálpast að með að veita þeim bjarta framtíð. Bjóða þau velkomin og aðstoða þau við að líða vel og finnast þau tilheyra nýju samfélagi.

Sonia Kush, viðbragðsstjóri Barnaheilla – Save the Children í Sýrlandi minnir á sameiginlega ábyrgð okkar allra.

Við erum stanslaust minnt á mikilvægi mannúðar og sameiginlegrar ábyrgðar þvert á landamæri. Ef ekki er gripið til aðgerða núna er hætta á önnur kynslóð sýrlenskra barna verði rænd tækifærum til þess að byggja upp farsæla framtíð.

Barnaheill hvetja ríki og ríkisstjórnir til þess að vernda sýrlensk börn gegn líkamlegu og andlegu ofbeldi sem hefur haft áhrif líf þeirra síðustu 10 ár. Sýrlensk börn eiga rétt á því að alast upp í farsælu og velmegnandi umhverfi þar sem þau eru laus við stöðugan ótta um öryggi sitt. Þau eiga rétt á því að vera ekki mismunað í nýjum samfélögum, einfaldlega vegna þess hvaðan þau koma.

Hér má finna upplýsingar um neyðaraðstoð Barnaheilla til Sýrlands

 

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.