Tryggja verður öllum ungmennum framhaldsskólavist

Barnaheill - Save the Children á Íslandi lýsa yfir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði í skólakerfinu sem kominn er til framkvæmda. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að öllum ungmennum verði tryggð framhaldsskólavist haustið 2011, að námsframboð verði fjölbreytt og tryggt með sértækum úrræðum ef við á, og að sérhver nemandi hafi tök á að kaupa nauðsynleg skólagögn. Ályktun þessa efnis hefur verið send stjórnvöldum og alþingismönnum.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi lýsa yfir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði í skólakerfinu sem kominn er til framkvæmda. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að öllum ungmennum verði tryggð framhaldsskólavist haustið 2011, að námsframboð verði fjölbreytt og tryggt með sértækum úrræðum ef við á, og að sérhver nemandi hafi tök á að kaupa nauðsynleg skólagögn. Ályktun þessa efnis hefur verið send stjórnvöldum og alþingismönnum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir miklum niðurskurði í fjárveitingum til framhaldsskóla. Hætta er á það leiði til að námsframboð verði fábreyttara, brottfall muni aukast og synja þurfi fjölda nemenda um skólavist. Brottfall íslenskra nemenda úr framhaldskólum er nú þegar mikið áhyggjuefni, en í samanburði við nágrannalönd er  menntunarstig íslenskra ungmenna lágt hér á landi. Hlutfall þeirra, sem ljúka framhaldskólaprófi, hefur lítið breyst hér síðustu 10 árin en það var 34% árið 1998 en er nú 33% (OECD, 2010).

Í niðurstöðum rannsóknar Rannsókna og greiningar frá 2009, Ungt fólk utan skóla, kemur fram að ungmennum sem eru ekki í námi er mun hættara við að einangrast félagslega, þeir eru síður í íþrótta- eða tómstundastarfi, eru líklegri til að eiga við líkamlega- og andlega erfiðleika að stríða og eru líklegri til að neyta ýmiskonar vímugjafa en jafnaldrar sem ganga í skóla.

Þegar þrengir að í íslensku samfélagi er mjög mikilvægt að hlúa að menntun. Það hefur verið gert áður í þrengingum hér á landi og hefur gefist vel. Barnaheill - Save the Children á Íslandi benda á mikilvægi þess að íslenska ríkið læri af þeim þjóðum, sem hafa reynslu af því að ganga í gegnum efnahagsþrengingar, og geri ekki sömu mistök og þær. Í skýrslu nefndar á vegum heilbrigðisráðuneytis um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni, er vitnað í reynslu Finna um áhrif kreppu á börn þar í landi. Þar segir m.a. að ekki sé aðeins mannúðlegt að þétta sálfélagslegt net í kringum börn, unglinga og atvinnuleitendur á tímum kreppu og atvinnuleysis, heldur sé það einnig ódýrara.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hvetja ríkisstjórn til að forgangsraða upp á nýtt og setja öll börn þessa lands í fyrsta sæti.