Ungmennaráð Barnaheilla segja frá ferð sinni til Noregs

Ungmennarad Miðvikudaginn 26.ágúst héldur fulltrúar ungmennaráðs Barnaheilla, þær Eva Brá Axelsdóttir, Ingibjörg Ásta Tómasdóttir, Kristbjörg Sigurgeirsdóttir og Særún Erla Baldursdóttir, kynningu á ferð sem þær fóru fyrir hönd hópsins til Noregs fyrr í mánuðinum. Á kynninguna voru boðnir, auk meðlima ungmennaráðsins, foreldrar, stjórn Barnaheilla og starfsfólk skrifstofu.

 

Miðvikudaginn 26.ágúst héldur fulltrúar ungmennaráðs Barnaheilla, þær Eva Brá Axelsdóttir, Ingibjörg Ásta Tómasdóttir, Kristbjörg Sigurgeirsdóttir og Særún Erla Baldursdóttir, kynningu á ferð sem þær fóru fyrir hönd hópsins til Noregs fyrr í mánuðinum. Á kynninguna voru boðnir, auk meðlima ungmennaráðsins, foreldrar, stjórn Barnaheilla og starfsfólk skrifstofu.

Tilgangur ferðarinnar var ráðstefna sem PRESS (ungmennaráð Save the Children í Noregi) hélt dagana 3.-8.ágúst og voru þar samankomin ungmenni frá Noregi, Svíðþjóð, Finnlandi, Rúmeníu, Kóreu og Íslandi. Á ráðstefnunni var mikill fjöldi fyrirlestra um hin ýmsu mál er snerta tilveru barna í heiminum í dag. Stúlkurnar sem sóttu ráðstefnuna voru sammála um hve áhugaverð og fræðandi þessi erindi voru og á kynningu þeirra kom vel í ljós hve óskaplega miklar upplýsingar og mikilvæga þekkingu þær komu með til baka.

Ráðstefnunni var skipt niður í einskonar þemadaga þar sem eitt málefni var tekið fyrir á hverjum degi. Þar var meðal annars fjallað um réttindi barna og Barnasáttmála SÞ, viðskiptahætti í heiminum í dag og áhrif þeirra á börn, málefni flóttamanna, hernað og áhrif auglýsinga á börn og unglinga. Auk fyrirlestranna var farið í leiki þar sem þátttakendur gátu fundið á eigin skinni hvernig t.d. viðskipti fara fram í heiminum eða hve misskipting auðs í heiminum er mikil. Einnig var lögð áhersla á að ræða málefnin í hópum og vinna með þau á skapandi hátt. Allt varð þetta til þess að enn meira sat eftir af upplýsingum sem þær gátu miðlað til þeirra er kynninguna sóttu.

Félagslegi þátturinn var ekki síður mikilvægur og eignuðust þær marga góða vini frá öllum löndunum. Það að styrkja sambönd milli landanna gefur möguleika á góðri samvinnu ungmennaráðanna auk þess að veita hvert öðru hvatningu og stuðning. Frítíminn sem fór í skemmtilegar vinnustofur, leiki eða tónleika var vel nýttur til þessa.

Það var mál manna að stúlkurnar væru einstaklega vel máli farnar og greinilegt að þessi ferð hafði mikil áhrif á þær. Hún var stúlkunum mikil hvatning í að vinna áfram að velferð barna og gaf þar að auki margar hugmyndir að verkefnum og úrlausnum. Það ætla þær að nýta sér og stefna að því að sækja þessa ráðstefnu að ári liðnu eftir kröftugt starf í þágu barna þangað til.