Útgáfugleði Vináttu fyrir börn þriggja ára og yngri

Börn í leikskólanum Fífuborg syngja fyrir gesti á útgáfugleði vegna útgáfu á Vináttu fyrir börn þrig…
Börn í leikskólanum Fífuborg syngja fyrir gesti á útgáfugleði vegna útgáfu á Vináttu fyrir börn þriggja ára og yngri.

Í dag var kátt á hjalla í leiskólanum Fífuborg þar sem Barnaheill kynntu nýtt efni í Vináttu, forvarnaverkefni gegn einelti fyrir leik- og grunnskóla. Nýja efnið er ætlað börnum þriggja ára og yngri. Um er að ræða tímamótaefni, þar sem unnið er með félags- og tilfinningaþroska barna og samkennd barnahópsins. 

Margir góðir gestir komu á útgáfugleðina. Þeirra á meðal var forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, sem er verndari Vináttu, og félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason. Fluttu þeir báðir ávörp. Dagskráin hófst á því að börn í leikskólanum tóku nokkur af þeim lögum sem fylgja Vináttuefninu. Með þeim sungu Ragnheiður Gröndal og Stefán Örn Gunnlaugsson. Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnisstjóri Vináttu hjá Barnaheillum, kynnti Vináttuverkefnið stuttlega og Halla Kjartansdóttir, sem þýddi efnið úr dönsku, las úr annarri af tveimur barnabókum sem eru hluti efnisins.

Árið 2014 hófu Barnaheill – Save the Children á Íslandi samstarf við systursamtökin Red barnet í Danmörku og Mary Fonden um útgáfu á Vináttu – forvarnaverkefni gegn einelti fyrir leik- og grunnskóla. Námsefni fyrir þriggja til sex ára börn kom út 2016 og er það notað í um helmingi allra leikskóla hér á landi. Mikil ánægja er með efnið og ber það mikinn árangur. Vegna eftirspurnar var svo þróað efni fyrir yngri börn sem nú kemur út á Íslandi. Efni fyrir 1. til 4. bekk grunnskóla verður svo tilbúið til notkunar á haustdögum en tilraunakennsla stendur yfir á efninu  í 19 grunnskólum.

Rannsóknir benda til þess að einelti meðal grunnskólanemenda hafi aukist hér á landi á undanförnum árum. Brýnt er að hefja forvarnastarf sem fyrst því oft má rekja rætur eineltis allt til leikskóla þótt það sé  algengast á miðstigi grunnskóla. Í Vináttu er lögð áhersla á að efla samskiptahæfni og félags- og tilfinningþroska barna með því að vinna með góðan skólabrag, jákvæð samskipti, vinsemd og virðingu fyrir margbreytileikanum í nemendahópnum. Notast er við fjölbreyttar aðferðir við kennsluna, svo sem hlustun, umræður, tjáningu í leik, tónlist og hreyfingu, bæði úti og inni. Hugmyndafræði Vináttu byggist á nýjustu rannsóknum og þeirri nálgun að einelti sé félagslegt og samskiptalegt vandamál en ekki bundið við tiltekna einstaklinga eða persónueinkenni. Rannsóknir á árangri af notkun efnisins í Danmörku sýna m.a. að það eflir samskiptahæfni barna, þau verða hjálpsamari og umhyggjusamari hvert við annað. Íslenskir leikskólakennarar hafa lýst svipuðum áhrifum af notkun efnisins. Í Vináttu er einnig áhersla á að vinna með foreldrum og starfsfólki og er sérstakt efni ætlað í þá þætti verkefnisins. Starfsfólk fær fræðslu og þjálfun í notkun efnisins á eins dags námskeiðum.