Verðlaun fyrir besta barnaefnið á netinu

Evrópusamkeppni um besta barnaefnið á netinu er sameiginlegt átak fjórtán netöryggismiðstöðva í Evrópu og þeirra þjóða er starfa samkvæmt netöryggisáætlun Evrópusambandsins. SAFT – Safer Internet Center IS  hafði umsjón með keppninni hérlendis en aðrir bakhjarlar eru: Nýherji, Microsoft á Íslandi, Icelandic Gaming Industry og Samtök vefiðnaðarins.

Tilgangur samkeppninnar er að vekja athygli á gæðaefni fyrir 6 til 12 ára börn sem er nú þegar til staðar á netinu. Einnig er ætlunin að hvetja til framleiðslu á þess háttar efni. Markmiðið er að netefnið gagnist börnum á einn eða annan hátt svo sem við fræðslu og sköpun. Samkeppnin var opin fullorðnum og ungu fólki á aldrinum 12 til 17 ára.Helstu viðmið dómnefndar við val á verkefnum voru: Ávinningur fyrir viðmiðunarhóp - hversu aðlaðandi verkefnið er – áreiðanleiki – notkunarmöguleikar – markaðssetning.Í flokki fullorðinna bar vefur Námsgagnastofnunar sigur úr bítum.

Í umsögn dómnefndar segir að vefur Námsgagnastofnunar sé mjög ítarlegur með fjölbreyttu efni sem höfði vel til aldurshópsins 6 til 12 ára en gagnist einnig öðrum aldurshópum. Hann sé einfaldur í notkun og bjóði upp á skemmtilegt og fræðandi efni í formi leikja og verkefna með myndum, hljóði, myndskeiðum og texta sem gerir notandanum mögulegt að fræðast með fjölbreyttri skynjun. Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, veitti verðlaununum viðtöku.Í flokknum „Efni frá ungu fólki“ var mjótt á mununum og voru myndin „Tíminn“ og leikritið „Hugsaðu áður en þú sendir” jöfn að stigum.

Myndina „Tíminn“ gerðu þær Karítas Pálsdóttir og Sólrún Edda Hermannsdóttir og hlaut hún nýlega sigur í flokki heimildamynda í Kvikmyndasamkeppni grunnskólanna. Leikritið „Hugsaðu áður en þú sendir” samanstendur af fimm leikþáttum sem samdir voru af nemendum við Háteigsskóla. Leikþættirnir byggja á netorðunum 5 sem hvetja til ábyrgrar netnotkunar. Til að skera úr um sigur þurfti dómnefnd að varpa hlutkesti og kom sigurinn í hlut Háteigsskóla með „Hugsaðu áður en þú sendir”. Ásrún Mjöll Stefánsdóttir tók á móti verðlaunum fyrir hönd leikhópsins Elítunnar.Í dómnefnd sátu: Halldór Jörgensson (Microsoft Ísland), Einar Þór Gústafsson (SVEF), Ólafur Andri Ragnarsson (IGI),  Axel Jónsson (Hvíta húsið), Salvör Gissurardóttir (Menntavísindasvið HÍ), Anna Margrét Sigurðardóttir (PFS), Bragi Valdimarsson (Baggalútur) og Hildur Jóhannsdóttir menntaskólakennari.

SAFT – Safer Internet Center IS er hluti af aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af ESB. Samningsaðili við ESB eru Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sjá um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins og starfrækja vakningarátaksverkefni, hjálparlínu og ábendingalínu með Lýðheilsustöð og Barnaheill - Save the Children á Íslandi, í samstarfi við ráðuneyti mennta-, samgöngu- og dómsmála.

Netöryggismiðstöðin er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og hamlar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar.