Vinátta formlega tekin til notkunar

Vináttuverkefni Barnaheilla var formlega tekið til notkunar í dag með athöfn á leikskólanum Kópahvoli í Kópavogi. Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir 3-8 ára börn. Verkefnið er nú tilbúið til notkunar fyrir alla leikskóla á Íslandi eftir eins árs þróunarvinnu í sex leikskólum.

IMG_5767Vináttuverkefni Barnaheilla var formlega tekið til notkunar í dag með athöfn á leikskólanum Kópahvoli í Kópavogi. Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir 3-8 ára börn. Verkefnið er nú tilbúið til notkunar fyrir alla leikskóla á Íslandi eftir eins árs þróunarvinnu í sex leikskólum.

Meðal efnisins sem kom út í dag er tónlistardiskur sem Ragnheiður Gröndal og Stefán Örn Gunnlaugsson syngja inn á.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, var meðal þeirra sem komu fram af þessu tilefni og ræddi hann um mikilvægi vináttunnar. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði frá þátttöku Kópavogs í verkefninu og börnin á Kópahvoli sungu Vináttulög með Ragnheiði og Stefáni. Þá kynnti Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum verkefnið stuttlega og kynningarmyndband um Vináttu var frumsýnt. Myndbandið má finna hér: https://www.youtube.com/watch?v=QcLzSVzvyJs

Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin skólastarfinu. Verkefnið er danskt að uppruna, frá systursamtökum Barnaheilla í Danmörku, Red Barnet og Mary Fonden samtökunum.

Leikskólar sem vilja nota efnið þurfa að senda starfsfólk á námskeið til að fá leyfi fyrir notkun þess.

Alls taka nú 30 leikskólar þátt í Vináttu verkefninu og hafa hátt í 200 starfsmenn leikskóla sótt Vináttunámskeið.

Nánari upplýsingar er að finna hér og myndir frá viðburðinum má skoða á Facebook síðu Barnaheilla.