Vinátta - tónlist getur haft mikil áhrif

Ragnheiður Gröndal og Stefán Örn Gunnlaugsson sungu og hljóðrituðu lög á disk fyrir Vináttuverkefni Barnaheilla, sem er forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum. Um er að ræða tónlistardisk og hefti, sem inniheldur nótur, texta og leiki. 

Tónlistin, Ragga og StefánRagnheiður Gröndal og Stefán Örn Gunnlaugsson sungu og hljóðrituðu lög á disk fyrir Vináttuverkefni Barnaheilla, sem er forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum. Um er að ræða tónlistardisk og hefti, sem inniheldur nótur, texta og leiki. Tónlistarefnið, eins og annað efni Vináttu er með gildi og hugmyndafræði verkefnisins að leiðarljósi. Anders Bøgelund er höfundur tónlistar og texta. Gísli Ástgeirsson þýddi textana á íslensku og þau Ragnheiður og Stefán Örn sungu lögin og fluttu þau svo í opnunarteiti Vináttu að leikskólanum Kópahvoli ásamt börnum á leikskólanum.

Hvorugt þeirra hafði heyrt af Vináttuverkefninu þegar þau voru beðin um að taka verkefnið að sér. Sem foreldrar séu þau þó meðvituð um mikilvægi slíkra verkefna. „Ég held að það sé klárlega mikilvægt að hafa jákvæðan og uppbyggilegan boðskap í tónlist fyrir börn, þau eru jú svo miklir svampar og eru að læra af öllu sem að þeim er rétt,” segir Ragnheiður. Stefán tekur undir það; „Tónlist er svo gríðarlega stór þáttur í lífi manna. Tónlist sem geymir gott inntak og fallegan boðskap getur haft gríðarleg áhrif.”

„Það er auðvelt að læra þessa tónlist og börnin grípa þetta. Þau lifa sig inn í boðskapinn og hafa mjög gaman af þessu,” segir Stefán og bætir við að eigin upplifun af verkefninu hafi verið mjög góð og skilaboðin komi vel í gegnum textana; „Það var líka ákaflega skemmtilegt að finna svona barnshjartað í sér og að fá að syngja efni sem snýst um jákvæðni og umburðarlyndi. Vinátta er frábært verkefni sem á erindi við öll börn,” segir Stefán Örn. Sem foreldrar segja bæði Ragnheiður og Stefán að þau myndu vilja sjá Vináttu í öllum leikskólum landsins. Ragnheiður telur að mannkynið í heild þurfi á meiri samhygð, skilningi og virðingu gagnvart fjölbreytileikanum að halda og því geti Vináttuverkefnið miðlað til þeirra; „Og það þarf meiri væntumþykju í garð hins mannlega. Og hvar er betra að byrja en með börnunum sem erfa jörðina?”

Viðtal: Sigríður Guðlaugsdóttir

Greinin birtist fyrst í blaði Barnaheilla 2016 sem finna má í heild sinni hér.