Vináttufréttir

Nýtt og endurbætt efni fyrir grunnskóla gefið út

Í tilefni af Degi gegn einelti sem haldinn er árlega þann 8. nóvember kynntu Barnaheill – Save the Children á Íslandi Vináttu fyrir grunnskóla. Um er að ræða nýtt og endurbætt efni, en Vinátta hefur verið í tilraunakennslu í nokkrum grunnskólum frá árinu 2017. Nú býðst öllum grunnskólum landsins að vinna með Vináttu og þar með forvarnir gegn einelti. Með út gáfu efnisins bjóða Barnaheill öllum leik- og grunnskólum landsins, dagforeldrum og frístundaheimilum upp á forvarnaefni gegn einelti fyrir börn frá 0 -9 ára. Nú þegar eru yfir 60% leikskóla landsins og 25% grunnskóla Vináttuskólar.

Barnaheill færðu þeim grunnskólum sem tilraunakenndu Vináttu frá árinu 2017, nýja efnið að gjöf.

 

Vinátta barna
Frá unga aldri er vinátta og vinir mikilvægur þáttur í félagslegum þroska barna og líðan. Í samskiptum við aðra þroska börn með sér félagslega hæfni sem er mikilvæg í samskiptum og velferð þeirra til lengri tíma litið. Með vini hefur barnið einhvern sem það getur treyst á, speglað sjálfan sig og þroskast með.

Vellíðan og að eignast vini er gjarnan það sem foreldrar telja mikilvægast að börn þeirra upplifi í leik- og grunnskóla. Sumir telja jafnvel mikilvægt að barn þeirra eignist sem fyrst ákveðinn besta vin, sem gæti orðið vinur til lífstíðar. Það er þó ekki raunhæft að gera ráð fyrir því hjá mjög ungum börnum. Sumir vinir flytja í burtu og svo þroskast börn á misjafnan hátt og áhugamál eru misjöfn og geta breyst. Slíkt getur skapað óöryggi, jafnvel skort á sjálfstrausti nú eða útilokun annarra barna. Þó mikilvægt sé að börn læri að treysta á vini sína og tryggð við þá, á í raun enginn einkarétt á vini sínum. Fyrir þroska ungra barna er mikilvægt að eiga marga góða félaga og geta leikið við sem flesta. Þá læra þau á mismunandi einstalinga og kynnast margs konar aðferðum við leik og samskipti.

Ekki pláss í hópnum
Þegar ákveðin börn eru búin að mynda sterk tengsl og nánast lokaða vinahópa í barnahópnum getur verið erfitt fyrir önnur börn að komast í hópinn. Þau geta þá fundið fyrir útilokun og einsemd. Ekki sé pláss fyrir þau.

Börn eiga sjálf að fá að velja sér vini sjálf, en þurfa stundum aðstoð og hvatningu, þannig að þau bæði eigi góðan vin eða vini, en geti jafnframt leikið við sem flesta og tekið þátt í leikjum og verkefnum í öðrum vinahópum.

Stundum þurfa þau aðstoð við að komast inn í hópa og samfélög barna. Gefðu því gaum hvort eitthvað barn sé útilokað og hjálpaðu því inn í hóp eða hópa. Það er helst gert með því að skipuleggja leiki eða einhvers konar vinnu þar sem allir taka þátt og allir hafa hlutverk. Hægt er að búa til nýja hópa, s.s. þvert á kyn, eða áður þekkt áhugamál.

 

Fullorðnir sem fyrirmyndir
Kennarar gegna mikilvægu hlutverki við að styðja og styrkja vináttu barna og félagslega vellíðan í samfélagi barnanna. Fullorðnir - bæði kennarar og foreldrar – geta aðstoðað börn við að rækta vináttu sín á milli, treysta vinaböndin, að þau finni að þau eigi eitthvað sameiginlegt til að byggja vináttuna á og átti sig á hvað átt er við með því að vera traustur og tryggur vinur. Til þess þarf að skapa aðsæður fyrir leik, gleði og samveru. Gleði og grín er mikilvægur þáttur til að byggja upp samkennd og vináttu. Að samskipti hinna fullorðnu innbirðis og við börnin séu jákvæð, uppbyggjandi og með gleði að leiðarljósi skiptir höfuðmáli.

 

Þú getur smellt á þessa mynd og stækkað upp Fréttabréf Vináttu 

 

 

 

 

 

Næstu námskeið:

Grunnskóli: 5. og 6. janúar 2021 frá kl 13.30 – 17:00. Skráning er hér.

Leikskóli: 13. janúar frá kl 9:00-16:00. Skráning er hér.