Vináttufréttir - Vor 2021

Vinátta að vori - Vinátta að sumri

Nú þegar vetri er lokið og vorið bankar á dyr og glugga breytist gjarnan starfsemi leik- og grunnskóla.

Útivera, útinám og útileikir verða meira áberandi í starfi skólanna og hefðbundin verkefni vetrarins eru jafnvel sett á hilluna. Þó sums staðar fari Blær bangsi í sumarfrí þá á Vinátta, hugmyndafræðin og gildin, alltaf við, bæði úti og inni, að vetri, sumri, vori og hausti. Góð samskipti eru gulls ígildi. Fjöldi verkefna Vináttu er jafnt hægt að vinna úti sem inni og sum þeirra eru einkum hugsuð utandyra. Þar má nefna verkefni og leiki í bókinni Vinátta í útivist- útinám og leikur.

Auk þess er í Vináttu gert ráð fyrir að hugmyndafræðin fléttist inn í allt skólastarf hvort sem það fer fram innan skólalóðarinnar eða utan hennar eins og í skólaferðum og gönguferðum. Góð samskipti, hjálpsemi, samkennd, umburðarlyndi, virðing, umhyggja og hugrekki falla aldrei úr gildi.

Nokkur ráð til að koma í veg fyrir ágreining og útilokun á meðal nemenda:

 • Skiptum sjálf börnunum í pör/hópa: Ef skipta á nemendum í pör eða hópa þegar farið er í gönguferð eða unnið að einhverjum útiverkefnum, er gott að láta þá draga sig saman í hópa með því að draga samstæðuspjöld eða spil. Þannig er komið í veg fyrir að börnin velji sig frá ákveðnum einstaklingum, flokkun í hópnum og upplifi höfnunartilfinningu.
 • Hugsum út fyrir hlutverkaboxið: Það eru engin skráð lög um að einungis megi vera ein mamma eða einn hundur í leik. Með því að allir nemendur fái að velja sér sín hlutverk reynir á lausnarleit umburðarlyndi og samvinnu. Sköpunargleðin fær að njóta sín.
 • Nýtum styrkleikana: Þegar leikur og verkefni eru færð út fyrir breytist sviðið. Úti er hátt til lofts og vítt til veggja. Hægt er að nýta aðra styrkleika og færni en inni. Margir nemendur njóta sín betur úti og sjálfsmynd þeirra styrkist.
 • Notum tónlist Vináttu: Leiki og verkefni sem fylgir tónlistinni Gott er að eiga vin er marga hægt að nýta utandyra.
 • Leikum okkur úti með börnunum:
  • Í verkefnahefti fyrir börn yngri en þriggja ára eru verkefni og leikir sem nýtast jafnt úti sem inni. Þar má nefna:
   • Speglaleikur og Skuggadans á bls. 59
   • Eldri og yngri vinir á bls. 60.
  • Í verkefnahefti fyrir grunnskóla er fjöldi leikja og verkefna fyrir útiveru. Þar má nefna:
   • Að Skipta í lið (bls. 14), aðferðir við að skipta í lið á jákvæðan hátt.
   • Að fanga eða faðma (bls 15), leikur sem stuðar að samvinnu.
   • Myndaskot af skó (bls 29).
  • Munum að öll börn eiga rétt á að tilheyra: Allir eiga rétt á að tilheyra, vera hluti af hópnum og vera virtir að eigin verðleikum. Ekkert barn á það skilið að vera útilokað.

Fullorðnir sem fyrirmyndir barnanna

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft er gamall og góður íslenskur málsháttur. Í Vináttu er lögð mikil áhersla á samskipti meðal starfsfólks, hvernig starfsfólk talar við og um börnin og hvernig foreldrar tala um önnur börn, fjölskyldur þeirra og starfsfólk. Það er okkur öllum hollt að horfa í eigin barm og skoða eigin viðhorf gagnvart samstarfsfólki, foreldrum og börnum þeirra. Hér eru nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga:

 • Beitum við skömmum, eða ræðum á uppbyggilegan hátt og hvetjandi?
 • Sýnum við öllu samstarfsfólki virðingu og metum að hópurinn er samsettur úr fjölbreyttum einstaklingum?
 • Eru gömul miður skemmtileg atvik sem kunna að hafa komið upp í samstarfshópnum eða meðal barnanna rifjuð reglulega upp eða lögð að baki?
 • Erum við hugrökk og bregðumst við órétti sem aðrir eru beittir eða illu umtali?
 • Gætum við þess að öll börnin i hópnum fái jákvæða athygli og umhyggju frá starfsfólki?

Höfum Vináttu sýnilega í skólanum

Við hvetjum alla til að hafa Vináttu sýnilega í skólanum. Gott er að hafa veggspjöldin á áberandi stað fyrir börn, foreldra og starfsfólk. Það minnir alla á að hafa gildi og hugmyndafræði Vináttu að leiðarljósi í daglegu skólastarfi.

Vefsíða skólanna er glugginn út í samfélagið. Því er mikilvægt að hafa lógó Vináttu, foreldraráðin og aðrar upplýsingar um Vináttu sýnilegar á vefsíðunni. Þannig vita foreldrar og aðrir sem skoða vefsíðuna að verið sé að vinna með Vináttu, félagsfærni barnanna og samskipti í skólanum. Það veitir foreldrum öryggi, hvetur þá til að kynna sér efnið og tileinka sér hugmyndafræðina heima við. Flestir skólar eru með eineltisáætlanir sem eru tilgreindar á vefsíðu skólans. Þar er kjörið að segja frá Vináttu sem er forvarnaáætlun gegn einelti.

Lógó og fleiri myndir til að setja á vefsíður má finna hér.

Næstu Vináttu námskeið

 

Leikskólar: 9. og 10. júní frá 13.30 – 17:00 báða dagana.

Skráning hér.

 

 

Námskeiðin eru fjarnámskeið.

Að lokum viljum við óska ykkur gleði og vináttu í sumar.