Ágrip Barnaheilla

BörnBarnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru hér á landi árið 1989. Barnaheill eiga aðild að alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru í Bretlandi árið 1919 og starfa nú í 120 löndum víðsvegar um heiminn. Stofnandi samtakanna, Eglantyne Jebb, hóf baráttu sína fyrir réttindum barna til að alast upp við öryggi og frið í kjölfarið á hörmungum sem dundu yfir við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hún átti hugmyndina að og skrifaði sáttmála um réttindi barna árið 1921 sem síðar varð grunnurinn að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Save the Children eru stærstu alþjóðlegu frjálsu félagasamtök sem starfa í þágu barna. Markmið samtakanna er að vekja heiminn til vitundar um stöðu barna og ná fram auknum réttindum og breytingum í lífi þeirra. Samtökin vinna að mannréttindum barna með því að vera málsvari þeirra, efla menntun og veita mannúðar- og neyðaraðstoð þegar hörmungar dynja yfir. Þau starfa eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að rétti sérhvers barns til lífs og þroska, verndar, þátttöku og aukins áhrifamáttar.

Undirbúningur að stofnun Barnaheilla hófst árið 1988. Sérfræðingar sem störfuðu á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans töldu tímabært að stofna félagsskap sem hefði það að meginmarkmiði að tryggja aukin réttindi barna í samfélaginu. Fyrirmyndin var að nokkru leyti sótt til sænsku samtakanna Rädda barnen. Á stofnfundi Barnaheilla þann 24. október 1989 var Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands meðal gesta en hún hafði tekið virkan þátt í undirbúningsferlinu. Að hennar ósk varð hún fyrsti stofnfélaginn og gerðist síðar opinber verndari Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá stofnun lagt megináherslu á starf innanlands. Með því að tryggja velferð barna aukast líkur á velfarnaði þeirra síðar á lífsleiðinni. Ýmislegt hefur áunnist í málefnum barna á þeim árum sem samtökin hafa starfað. Þar ber hæst lögfesting Barnasáttmálans hér á landi árið 2013. Barnaheill hafa á undanförnum árum hvatt stjórnvöld til að bæta hag barna á sviði heilbrigðismála, menntunar og velferðar. Þar má nefna áherslu á bætta tannheilsu fyrir börn og gjaldfrjálsan grunnskóla með áskorun um að tryggja jafnræði til náms með því að leggja af svokallaða innkaupalista við kaup á skólagögnum. Árið 2016 vöktu samtökin athygli á niðurstöðum skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla – Save the Children þar sem greint var frá því að um 14% barna hér á landi ættu á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun. Þetta eru meira en tíu þúsund börn.

Barnaheill eiga aðild að samstarfsverkefnum á ýmsum sviðum. Þar á meðal er SAFT-verkefnið um öryggi á netinu, verkefni um kynningu á Barnasáttmálanum meðal barna og fullorðinna á Alþjóðadegi barna, starfræksla ábendingalínu um óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu, hjólasöfnun Barnaheilla þar sem börn fá gefins uppgerð hjól og svo verkefni í tenglsum við Dag barnasáttmálans. Þá starfa samtökin í hópunum SAMAN og Náum áttum og eiga fulltrúa í Velferðarvaktinni. Barnaheill eru aðilar að Almannaheillum – samtökum þriðja geirans.

Barnaheill hafa staðið að útgáfu á forvarnarefni gegn kynferðisofbeldi á börnum. Má þar nefna bók fyrir ung börn til að aðstoða þau og fullorðna til að tala saman um ofbeldi á opinn hátt. Bókin heitir Þetta er líkami minn og er dreift á heilsugæslustöðvum. Þá gefa samtökin út kort til ferðalanga með ábendingu um að þeir sem uppvísir verða af kynferðislegu samneyti við barn á erlendri grundu geti verið sóttir til saka hér á landi, þótt slíkt sé ekki ólöglegt í landinu þar sem brotið er framið. Örugg börn er heiti á veggspjaldi sem Barnaheill gáfu fyrst úr 1991 og í endurskoðaðri útgáfu 2016. Þar er sjónum beint að slysavörnum barna og nýbakaðir foreldrar fá veggspjaldið afhent á heilsugæslustöðvum. Samtökin hafa einnig lagt áherslu á fræðslu og upplýsingar með það að markmiði að vernda börn gegn andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Árin 1997 og 1998 afhentu Barnaheill Barnaspítala Hringsins eina íbúð hvort ár til afnota fyrir fjölskyldur langveikra barna sem þurfa að dvelja fjarri heimilum vegna veikinda barns. Önnur íbúðin var seld árið 2014 og hafa samtökin því starfrækt eina íbúð frá þeim tíma.

RósinRósin er minnisvarði óþekkta barnsins og er til heiðurs börnum um allan heim sem hafa látist eða eiga um sárt að binda. Rósin var afhúpuð við gömlu þvottalaugarnar í Laugardal árið 2009. Þar er hægt að koma saman og heiðra minningu barna.

Eitt stærsta verkefni Barnaheilla á síðari árum er verkefnið Vinátta. Um er að ræða útgáfu á kennsluefni fyrir leik- og grunnskóla sem hefur það að markmiði að efla félags- og tilfinningaþroska barna í þeim tilgangi að fyrirbyggja einelti. Verkefninu var ýtt úr vör árið 2014 með útgáfu efnis fyrir leikskólastigið. En það ár var einmitt 25 ára afmæli Barnaheilla. Árið 2017 hófst svo tilraunaverkefni með efni fyrir grunnskóla. Vinátta á rætur að rekja til danska efnisins Fri for mobberi og eru það systursamtök Barnaheilla í Danmörku, Red barnet, ásamt Mary fonden sem gefa það út þar.

Frá árinu 2002 hafa Barnaheill veitt einstaklingum, félögum eða stofnunum árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Afhending viðurkenningarinnar fer fram í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember.

Innan Barnaheilla er starfrækt ungmennaráð – Ungheill. Ungmennaráðið er félagsskapur ungs fólks  sem hefur það hlutverk að hvetja ungt fólk til þátttöku, hafa áhrif á samfélagið og berjast fyrir mannréttindum barna.

Eins og áður segir er megináhersla í starfssemi Barnaheilla tengd verkefnum hér á landi. En samtökin taka engu að síður þátt í verkefnum á alþjóðavísu. Helstu áherslur Barnaheilla í erlendum verkefnum eru á grunnmenntun barna og vernd barna gegn ofbeldi.

Í framtíðarsýn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi til ársins 2030 er lögð áhersla á fjóra þætti:

Líf og þroska – að öll börn hafi jöfn tækifæri til lífs og þroska.
Menntun – að öll börn hafi jafnan aðgang að gæðamenntun.
Vernd gegn ofbeldi – að öll börn lifi öruggu lífi án ofbeldis og vanrækslu.
Þátttöku – að öll börn hafi tækifæri til að segja sína skoðun og hafa áhrif á mál sem þau varða.