Myndbirtingar af börnum

Leiðbeinandi reglur um notkun ljósmynda af börnum

fyrir Barnaheill – Save the Children á Íslandi

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Samkvæmt 12. grein sáttmálans skal gera börnum kleift að láta skoðun sína í ljós í málum er þau varða.

Því er leitast við að fá samþykki barna fyrir notkun mynda sem teknar hafa verið af þeim af samtökunum og þar sem þau þekkjast, og sem fyrirhugað er að nota í tengslum við verkefni samtakanna, í kynningarefni eða einstök verkefni önnur.

Það er jafnframt viðmiðunarregla Barnaheilla að upplýsa foreldra og leitast eftir að fá samþykki þeirra fyrir notkun mynda af börnum þeirra í ofangreindum tilgangi.

Ef upp kemur sú staða að barn og foreldri eru ósammála um notkun mynda, þá gildir eftirfarandi:

Ef barn neitar um birtingu og notkun myndar skal alltaf fara að vilja barns.

Ef barn yngra en 12 ára samþykkir birtingu en foreldri neitar ræður sjónarmið foreldris.

Ef barn 12 ára eða eldra samþykkir birtingu en foreldri neitar ræður sjónarmið barns.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi leitast við að birta ekki myndir af börnum klæðalitlum og leggja áherslu á virðingu gagnvart börnum og mannlega reisn þeirra.

 

Reykjavík, 5. febrúar 2015