Við erum Barnaheill

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 1989 með því markmiði að vinna að mannréttindum barna. Samtökin eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919. Save the Children starfa í yfir 120 löndum með 25.000 starfsmenn og vinna samtökin að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Samtökin snerta líf um 329 milljóna manna á hverju ári, þar af 117 miljón börn.

Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru rekin af frjálsum framlögum fyrir tilstuðlan Heillavina, mánaðarlegra styrktaraðila. Barnaheill eru Heillavinum ævinlega þakklát fyrir stuðninginn. Auk þess sækja samtökin um fjárhagslega styrki í gegnum ráðuneyti og ýmsa samfélagssjóði.

Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi eru 7 talsins. Í stjórn samtakanna sitja sjö fulltrúar og þrír eru til vara. Ungmennaráð Barnaheilla er skipað sjö einstaklingum úr hópi ungs fólks. Verndari Barnaheilla er Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands sem jafnframt átti hugmyndina af nafninu Barnaheill.

Starfsemi Barnaheilla

Frá upphafi hefur áhersla samtakanna verið á innlenda starfsemi en síðustu misserin hafa erlend verkefni bæst við. Tvö af stærstu innlendu verkefnum Barnaheilla snúa að vernd barna gegn ofbeldi. Annars vegar, er Vinátta, forvarnaverkefni gegn einelti í leik- og grunnskólum. Verkefnið er danskt að uppruna, byggt á nýjustu rannsóknum á einelti og er mjög mikil ánægja á meðal fagfólks, barna og foreldra varðandi námsefnið. Hins vegar er námsefnið Verndarar barna sem er forvarnaverkefni gegn kynferðisofbeldi á börnum. Markmið Verndara barna er að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðisofbeldi af festu og ábyrgð.

Barnaheill gefa einnig út fræðsluefni um ofbeldi og vinna að vitundarvakningu. Samtökin reka ábendingarlínu um óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Einnig standa Barnaheill að gagnvirkum fræðsluvef um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sinna fræðslu- og upplýsingagjöf um einkenni og afleiðingar ofbeldis gegn börnum og aðgerðir vakni grunur um slíkt. Þá veita samtökin ráðgjöf og vinna að fjölda lagaumsagna þar sem þrýst er á stjórnvöld að tryggja með lögum að börnum sé veitt vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Þá standa Barnaheill fyrir ýmsum samstarfsverkefnum á borð við Hjólasöfnun Barnaheilla og Degi mannréttinda barna.

Mannúðar- og þróunaraðstoð er ein af meginstoðum alþjóðlegs starfs Barnaheilla – Save the Children. Í hjálparstarfinu gæta Barnaheill – Save the Children sérstaklega að velferð barna en börn þurfa sérstaka vernd á tímum hamfara og átaka. Samtökin leggja áherslu á að grunnmenntun barna verði hluti af mannúðar- og þróunaraðstoð, ekki síst á átakasvæðum þar sem neyðarástand hefur ríkt um langt skeið. Samtökin hafa veitt mannúðaraðstoð til fjölda landa þar á meðal til Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, Sýrlands, Jemen, Afganistan og fleiri landa. Einnig hafa samtökin sinnt þróunarsamvinnu í Úganda, Síerra Leóne og Líberíu.