Barnaheill fordæma brottfluttning barns á flótta

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vilja koma á framfæri alvarlegum athugasemdum vegna brottflutnings flóttafólks frá Íslandi til Grikklands í liðinni viku. Samtökin leituðu upplýsinga um það í kjölfar hins umdeilda brottflutnings hvort í hópnum hafi verið börn og voru þær upplýsingar gefnar að engin börn hefðu verið í hópnum. Á föstudag bárust samtökunum hins vegar þær fregnir að í hópnum var drengur, sem nú er 18 ára að aldri, en hafði flúið til landsins í desember 2021, þá 17 ára að aldri og án fylgdar. Við komu hans til landsins var aldur hans dreginn í efa og íslensk stjórnvöld ákváðu að framkvæma sjálfstæða aldursgreiningu á honum þrátt fyrir að fyrir lægi aldursgreining frá grískum stjórnvöldum. Þar hafði hann fengið alþjóðlega vernd, en aðstæður flóttafólks í Grikklandi eru slæmar og hafa Barnaheill ítrekað hvatt íslensk stjórnvöld til að láta alfarið af brottflutningi flóttabarna til Grikklands.

Barnaheill fordæma að drengnum hafi verið vísað á brott og að hann hafi ekki strax við komuna til Íslands fengið viðeigandi þjónustu barnaverndar og stuðning við afgreiðslu umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi.

Barnaheill minna á að útlendingayfirvöldum ber alltaf að taka ákvarðanir með það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi og hraða málsmeðferð eins og frekast þau geta til að barn geti notið sinna réttinda í samræmi við Barnasáttmálann og önnur íslensk lög.

Samtökin hvetja yfirvöld til að tryggja börnum alltaf réttláta málsmeðferð og aðgengi að réttarúrræðum á barnvænan hátt. Að mati Barnaheilla var ranglega staðið að málsmeðferð drengsins og hann fluttur úr landi með ólögmætum hætti. Við því þurfa stjórnvöld að bregðast hið snarasta og bæta drengnum þann skaða sem þau hafa valdið honum.