Hlustum á börn og búum til betri heim

Harpa Rut Hilmarsdóttir formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Harpa Rut Hilmarsdóttir formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Í heiminum fæðast að meðaltali 353.000 börn á dag. Þetta er okkur Íslendingum kunnugleg tala og sýnir vel hversu fámenn þjóð við erum í raun. Ekkert þessara barna hefur val um hvar þau fæðast eða inn í hvaða aðstæður.

Þegar barn kemur í heiminn og dregur andann í fyrsta sinn er framtíð þess auð og óskrifuð bók. Barnsins bíða ýmis tækifæri og erfitt er að vita hvað á daga þess mun drífa. Ef allt gengur að óskum taka við ljúfir og áhyggjulausir æskudagar í faðmi fjölskyldu og vina. Verkefni æskunnar eru sum lítil og önnur stærri en öll eru þau þroskandi og smám saman lærir barnið að ganga, tala, syngja, klæða sig og lesa.

Framundan eru einnig vandamál og aðstæður sem erfitt er að hafa stjórn á. Aðeins lítill hluti barna fæðist inn í kjöraðstæður í friðsælu landi og í jafnvel ríkustu löndum þurfa flestar fjölskyldur að kljást við hindranir og erfiðleika í lífinu sem bitna að einhverju leyti á börnunum.

Það er skylda okkar sem samfélags að færa hverju einasta barni heilbrigt upphaf, umlykja það ást og umhyggju og skapa barninu tækifæri til að leika sér og læra. Við, sem eldri erum, eigum alltaf að taka ábyrgð og setja velferð barnanna í fyrsta sæti. Barnið skal ávallt njóta vafans og réttur barnsins skal vera æðri rétti þeirra eldri og valdameiri sem ósjaldan taka eigingjarnar ákvarðanir sem bitna á börnunum.

Við þurfum ekki að líta langt til að sjá börn í aðstæðum sem ekkert okkar myndi nokkurn tíma vilja stíga inn í. Vestanhafs læra þriggja ára börn ekki bara heiti litanna heldur læra þau líka að leggjast niður og þykjast vera dáin ef óður byssumaður birtist í leikskólanum. 50 milljónir barna eru á flótta undan stríði, ofbeldi, fátækt og mansali. Hatur og græðgi er allt of víða við stjórn og það er hlutverk okkar að vernda börnin og byggja upp öruggara umhverfi svo þau, og við, getum sofið rótt.

Til að setja börnin ávallt í fyrsta sæti er nauðsynlegt að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé grundvöllur allra ákvarðana sem okkur er treyst til að taka fyrir þeirra hönd. Við eigum að færa meira vald yfir til barna, bjóða þeim að borðinu þegar taka á ákvarðanir sem þau varða. Þau vita hvað þau vilja og við eigum að hlusta á þeirra raddir.

„Ég lít á skóna mína og sé að ég er ekki með fætur. En skrítið ég hef alltaf verið með fætur. Þá sé ég að ég er bók. Ég er í hillu og það er einhver annar ég. Ég er Aladín bókin, það er rosa skrítið. Ég hef aldrei viljað lesa þessa bók, kannski var Guð leiður af því að ég las hana aldrei.“

Þannig eru upphafslínur vinningssögu hins níu ára gamla Árna Hrafns Hallssonar. Saga Árna Hrafns kom út í rafbók Menntamálastofnunar; RISAstórar smáSÖGUR og var Árni verðlaunaður á Sögum, verðlaunahátíð barnanna sem fram fór á nýafstaðinni Barnamenningarhátíð. Í sögunni setur hinn ungi höfundur sig í spor bókar sem enginn vildi lesa og lýsir um leið hversu mikilvægt er að gefa öllum tækifæri og dæma ekki hugsunarlaust.

Börn eru nefnilega stórkostleg, hvar sem þau fæðast í heiminum. Þegar þau fá að ráða er töfrandi sköpunarkraftur við völd. Í augum barnanna er allt mögulegt og vel hægt að leysa flest heimsins vandamál. Þegar börn fá þau tækifæri, aðstæður, traust og stuðning sem þau eiga skilið geta þau gert ótrúlegustu hluti. Því hef ég orðið vitni að svo ótal mörgum sinnum í störfum mínum með börnum

Valdamiklir einstaklingar sitja inni á ríkulega innréttuðum skrifstofum og taka stórar ákvarðanir með litlum pennastrikum. Þá er mikilvægt að hafa börnin alltaf efst í huga. Þær ákvarðanir sem eru börnunum fyrir bestu eru heiminum fyrir bestu. Fyrst þegar við áttum okkur á þeim einfalda sannleika, getum við skapað friðsælan heim sem er ekki aðeins betri fyrir börn heimsins, heldur betri fyrir okkur öll.

Það er mikið tilhlökkunarefni fyrir mig að takast á við nýtt hlutverk sem formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Ég lít á það sem dýrmætt tækifæri til að leggja enn frekari lóð á vogarskálar í að búa börnum betri heim.

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2018.