Út að borða fyrir börnin hefst í dag

Aldrei hafa fleiri staðir tekið þátt í Út að borða fyrir börnin sem stendur yfir frá 15. febrúar til 15. mars. Alls taka 42 staðir þátt í átakinu á 111 staðsetningum, en þetta er í sjöunda sinn sem fjáröflunarátakið fer fram.

Út að borða - mynd - plakatÚt að borða fyrir börnin, fjáröflunarátak Barnaheilla og veitingastaða hefst í dag. Alls styðja 42 staðir átakið á 111 stöðum í öllum landsfjórðungum með því að láta hluta af verði valinna rétta renna til verkefna sem snúa að vernd barna gegn ofbeldi. Aldrei hafa fleiri staðir tekið þátt í átakinu sem nú fer fram í sjöunda sinn og stendur yfir í einn mánuð.

„Við erum himinlifandi með þennan fjölda veitingastaða sem eru tilbúnir að styðja málstaðinn á þennan hátt,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi; „Samtökin okkar eru háð velvilja og stuðningi bæði almennings og fyrirtækja og þetta hjálpar okkur að vinna enn betur að þeim frábæru og mikilvægu verkefnum sem heyra undir þennan málaflokk hjá okkur.”

Ísland festi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í lög árið 2013 og í honum er börnum tryggður réttur til verndar gegn ofbeldi. Það er hlutverk hinna fullorðnu að gæta þess að hvert og eitt barn njóti réttar síns.

Eitt stærsta verkefni Barnaheilla sem snýr að vernd barna gegn ofbeldi er Vinátta, forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum. Verkefnið er danskt að uppruna, byggt á nýjustu rannsóknum um einelti og hefur reynst sérstaklega vel. Nú er unnið að því að þýða og staðfæra efni fyrir fyrstu bekki grunnskóla.

„Þú getur slegið tvær flugur í einu höggi með því að fara út að borða með börnin. Bæði veitir þú börnunum gleði og átt með þeim samverustundir og styður í leiðinni mannréttindi barna og vernd þeirra gegn ofbeldi,” segir Erna.

Barnaheill gefa meðal annars út fræðsluefni um ofbeldi, vinna að vitundarvakningu, reka ábendingarhnapp um óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu í samvinnu við ríkislögreglustjóra, standa að gagnvirkum fræðsluvef um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og reka fræðslu- og upplýsingavefinn verndumborn.is þar sem finna má upplýsingar um einnkenni og afleiðingar ofbeldis gegn börnum og aðgerðir vakni grunur um slíkt. Þá veita samtökin ráðgjöf og vinna að fjölda lagaumsagna þar sem þrýst er á stjórnvöld að tryggja með lögum að börnum sé veitt vernd gegn hvers kyns ofbeldi.

Nánar má sjá upplýsingar um átakið hér, en þeir staðir sem styðja átakið eru:

900 GRILLHÚS - 50