Barnaheill - Save the Children á Íslandi hefja þróunarverkefni í Goma

Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla, heimsótti Goma á dögunum og vann a…
Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla, heimsótti Goma á dögunum og vann að undirbúningi verkefnis Barnaheilla á svæðinu.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, hafa hafið þróunarverkefni í Goma í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó til að styðja við og vernda börn er búa á götunni. Mörg börn hafa ekki í nein hús að venda og búa á götunni í Goma. Börnin hafa orðið aðskila við fjölskyldur sínar af margvíslegum ástæðum, eins og vegna vanrækslu og fátæktar. Eins hafa börn orðið viðskila við fjölskyldur sínar sem eru á vergangi vegna átaka sem varað hafa í áratugi, tíðra eldgosa frá Nyiragongo eldfjallinu og mikilla flóða.

Þar sem Goma er staðsett á átakasvæði er mikill viðbúnaður lögreglu og hers í borginni. Götubörn eru útsett fyrir margvíslegu ofbeldi af þeirra hendi, svo sem barsmíðum og nauðgunum. Eins þekkjast svokallaðar hreinsanir, þar sem götubörn eru myrt í skjóli nætur. Börn sem búa á götunni eiga á hættu að smitast af kynsjúkdómum, verða fórnarlömb glæpa og taka eigið líf. Til að deyfa sársaukann leiðast mörg barnanna út í neyslu eiturlyfja og eiturefna. Til að mynda að sniffa bensín, lím, hamp og neyta áfengis.

Á dögunum heimsótti Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla, Goma og vann að undirbúningi verkefnis Barnaheilla á svæðinu. Verkefnið sem er til þriggja ára miðar að því að styðja við og vernda börn er búa á götunni í Goma og veita þeim möguleika á menntun. Barnaheill munu vinna með kongólsku frjálsu félagasamtökunum CAJED og Gingando auk DIVAS félagsmálayfirvöldum í Goma að því að vernda og valdefla götubörn í borginni. Börnunum verður boðið að snúa aftur til náms, hvort heldur sem er bóklegs eða verklegs. Auk þess verður börnunum boðin sálfræðiaðstoð og valdefling í gegnum Capoeira dans. Verkefnið beitir heildrænni nálgun og veitir börnum, foreldrum og samfélaginu forvarnafræðslu til að stuðla að því að koma í veg fyrir að börn lendi á götunni og dregur þannig úr líkum á því hörmulega ofbeldi sem götubörn eru útsett fyrir.

Smíðasmiðja fyrir stúlkur og drengi sem áður bjuggu á götunni

Hægt er að styðja við götubörn í Góma með kaupum á Heillagjöfum.