Kynferðisofbeldi gegn börnum

Líkaminn er okkar eign og við eigum hann ein. Það hefur enginn rétt á að snerta okkur á þann hátt sem okkur finnst óþægilegt. Ekki heldur fullorðið fólk.

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er eitt alvarlegasta ofbeldi sem til er. Þegar talað er um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og unglingum getur það verið allt frá því að börn eru látin horfa á myndir með klámi, það sé talað við þau á klámfenginn hátt, þau snert á kynfærum, eða látin snerta kynfæri annarra og allt til nauðgana.

Oftast er sá sem beitir ofbeldinu, einhver sem barnið treystir, einhver í fjölskyldunni eða sem tengist fjölskyldunni. Það getur verið faðir, móðir, stjúpfaðir, stjúpmóðir, frændi, bróðir, hálfbróðir, stjúpbróðir, afi svo eitthvað sé nefnt.

Stundum verða börn fyrir kynferðislegu ofbeldi í gegnum netið. Einhver fullorðinn kemur sér í samband við barn á spjallsíðum og fer smátt og smátt að fá barnið til að taka þátt í kynferðislegu tali og athöfnum. Myndbirtingar sem sýna börn eða unglinga á kynferðislegan eða klámfenginn hátt eru líka kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Hér getur þú tilkynnt óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu.

Hinn fullorðni getur ekki skýlt sér á bak við að barnið hafi samþykkt það sem gerðist. Barnið ber ALDREI ábyrgð á ofbeldinu.

Sá sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi finnur til mikillar vanlíðunar. Hann getur fundið fyrir hræðslu, vanmætti, á erfitt með svefn, dregur sig í hlé frá vinum og fjölskyldu og getur átt erfitt í skóla. Hann getur líka fundið fyrir sektarkennd og fundist hann bera ábyrgð á því sem gerst hefur.

Mundu samt alltaf að kynferðislegt ofbeldi er ALDREI börnum að kenna.

Börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi geta sýnt ýmis einkenni. Þar má nefna árásargirni, aukinn orðaforða um kynlíf, kynferðislega hegðun og áverka á kynfærum.

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi skiptir miklu máli að leita sér aðstoðar og fá hjálp.

Teiknimyndin Leyndarmálið er kennsluefni fyrir börn að læra muninn á góðum og slæmum leyndamálum.  Teiknimyndin gerir t.d. kennurum kleift að ræða við nemendur á opinn og frjálslegan hátt um hvað er rétt og hvað er rangt þegar kemur að einkastöðum barna. Það tekur u.þ.b. eina kennslustund að leggja efnið fyrir. Teiknimyndina má sjá hér að neðan.