Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa staðið fyrir hjólasöfnun síðan árið 2012 og hafa yfir 3000 börn fengið úthlutað hjól á Íslandi. Í mars ár hvert hefst hjólasöfnun þar sem hjólum er safnað á endurvinnslustöðvum Sorpu á Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnarseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar gera hjólin upp undir styrkri leiðsögn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða afhent. Hjólin eru gefin börnum og unglingum sem ekki hafa tök á að eignast reiðhjól með öðrum hætti. Hægt er að sækja um hjól í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Verkefnið hefur mjög breiða samfélagslega skírskotun þar sem það eflir þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu.
Hjólasöfnunin er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara.
Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook síðu söfnunarinnar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátttöku í sjálfboðaliðastarf fyrir hjólaviðgerðir.
Nánari upplýsingar veitir Matthías Freyr Matthíasson, verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, matti@barnaheill.is, í síma 866 9538.


