APRÍL - Vitundarvakningar um kynferðisofbeldi gegn börnum

Öll getum við tekið þátt í að auka góð samskipti við börn

Í apríl hvetja Barnaheill – Save the Children á Íslandi til vitundarvakningar á kynferðisofbeldi gegn börnum. Vissir þú að börn verða fyrir kynferðisofbeldi? Mörgum finnst erfitt að horfast í augu við þá staðreynd að börn verði fyrir kynferðisofbeldi.

Kynferðisofbeldi gegn börnum er algengara en marga grunar. Hér að neðan eru nokkrar staðreyndir.

Vissir þú að:

  • meirihluti barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi eru yngri en 12 ára?
  • börn þekkja þann sem beitir þau kynferðisofbeldi í um 90% tilvika?
  • ein af hverjum þremur stúlkum verða fyrir kynferðisofbeldi fyrir átján ára aldur?
  • einn af hverjum fimm drengjum verða fyrir kynferðisofbeldi fyrir átján ára aldur?
  • sjö af hverjum tíu unglingsstúlkum hafa fengið nektarmyndir sendar frá ókunnugum?
  • börn allt niður í sjö ára aldur hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi?

Kynferðisofbeldi gegn börnum getur haft miklar afleiðingar í för með sér hjá þeim sem fyrir því verða. Það getur verið erfitt að stíga fram og segja frá kynferðisofbeldi og í sumum tilfellum þurfa þeir sem fyrir því verða að segja oft frá áður en þeim er trúað. Vissir þú að börn segja sjaldan frá kynferðisofbeldi sem þau verða fyrir?

Það skiptir gífurlega miklu máli að börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi geti sagt einhverjum frá því. Vissir þú að börn sem fá aðstoð í kjölfar kynferðisofbeldis geta lifað góðu lífi og það er hægt að fá hjálp ef manni líður illa?

Margir sem heyra að börn verði fyrir kynferðisofbeldi verða bjargarlausir og vita jafnvel ekki hvernig bregðast eigi við slíkum upplýsingum. Sumum finnst jafnvel erfitt að tilkynna um grun á kynferðisofbeldi. Vissir þú að með því að tilkynna grun um kynferðisofbeldi getur þú verið að hjálpa mörgum börnum?

Forvarnir byggja á að fólk hafi þekkingu og bjargir til að vernda börn í samfélaginu. Það er því mikilvægt að fullorðnir aðilar sem eiga að vernda börn gegn kynferðisofbeldi fái viðeigandi fræðslu og upplýsingar um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir, þekkja einkenni og vísbendingar og bregðast við ef grunur um kynferðisofbeldi vaknar eða ef barn segir frá kynferðisofbeldi.

Barnaheill bjóða upp á námskeiðið Verndarar barna sem leið í forvörnum gegn kynferðisofbeldi. Þar er meðal annars rætt um 5 skref til verndar börnum sem gerir öllum kleift að hjálpast að og vernda börn gegn kynferðisofbeldi.