Að aðstoða barn í mögulegri hættu

Hafa skal í huga, að tilkynna ber grun um vanrækslu eða ofbeldi og að sá sem tilkynnir þarf ekki og má ekki hefja sjálfstæða rannsókn eða aðrar aðgerðir vegna málsins. Leitið til 112, 1717 og  Barnarverndarstofu

Tilkynningarskylda gagnvart barnarverndarnefndum.

Samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við ofbeldi eða áreitni skylda til að tilkynna það barnaverndarnefnd. Í 17 gr. sömu laga er sérstök áhersla lögð á tilkynningarskyldu þeirra sem starfa með börnum. Nánari upplýsingar um tilkynningaskyldu og íslensk lög er að finna á www.bvs.is undir: lög og reglugerðir.

Hvert er hægt að leita?

Ef um börn undir lögaldri er að ræða, ber að tilkynna það til barnaverndarnefnda. Er þá fyrst og fremst leitað til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr. Barnaverndarnefndir starfa í öllum bæjarfélögum. Nánari upplýsingar um þær má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig beri að bregðast við, ef grunur leikur á að brotið hafið verið á barni. Barnaverndarnefndir hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki sem tekur við tilkynningum og gerir viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.

Ef þú vinnur með eða berð ábyrgð á barni sem þig grunar að sæti ofbeldi ber þér að tikynna það. Ef þú ert ekki viss, hringdu í Barnahús 530-2500. Þar getur þú talað við einstaklinga sem vinna með börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og geta aðstoðað þig við að greina merkin.

Neyðarlínan 112  veitir aðgang að öllum barnaverndarnefndum landsins. Þetta er gert til að auðvelda börnunum sjálfum auk allra annara að koma upplýsingum til barnaverndarnefnda. Þetta auðveldar börnum og aðstandendum þeirra að fá nauðsynlega aðstoð. Öll samskipti fara fram í fullum trúnaði.

Einnig er hægt að hafa samband við Hjálparsíma 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem hafa það á tilfinningunni að þeir séu komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.