Sjálfbærni

Framtíð barna jarðarinnar og velferð er undir því komin að alþjóðasamfélaginu takist að snúa vörn í sókn í umhverfismálum sem allra fyrst og þá helst hvað varðar loftslagsbreytingar. Án þess getum við ekki tryggt að börn heimsins í nútíð og framtíð geti notið þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Með því að tryggja börnum byggilegan heim þar sem jafnrétti er á milli heimshluta og hverju barni er tryggður rétturinn til lífs og þroska og bestu mögulegu lífsskilyrði í heilnæmu umhverfi er unnið að sjálfbærri þróun. Með sjálfbærri þróun er átt við að núlifandi kynslóðir skili jörðinni til komandi kynslóða í því ástandi að möguleikar þeirra til að fullnægja sínum þörfum sé ekki minni en núlifandi kynslóða. Í öllum verkefnum þar sem unnið er að sjálfbærri þróun þarf jafnt að huga að umhverfisþáttum, félagslegu réttlæti og efnahagslegri velferð.

Save the Children International hafa nú ákveðið að gera baráttuna gegn loftslagsbreytingum að áhersluatriði þar sem talið er að ekki takist að ná settum núverandi markmiðum samtakanna vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Lögð er áhersla á að loftslagsváin snúist um mannréttindi barna. Loftslagsbreytingar ógna rétti barna til lífs, náms og verndar. Ef ekki er gripið fast í taumana og vörn snúið í sókn mun vannærðum börnum mun fjölga um 25,2 milljónir fyrir árið og 142 milljónir manna sem búa fyrir sunnan Sahara og í Suður – Asíu og öðrum lágtekju ríkjum (low income countries) neyðast til að leggja á flótta fyrir árið 2050. 99% af þeim dauðsföllum sem rekja má til loftslagsbreytinga eru í þróunarríkjum og þar af eru 80% börn. Frá árinu 2020 hafa Save the Children International skráð kolefnisspor samtakanna með þáttöku allra aðildafélaga þar með talið Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Þar sem áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta, ekki síst hjá fátækari þjóðum heims, þarf að huga að mótvægisaðgerðum og aðlögun að breyttum heimi. Það er gert með því að auka seiglu samfélaga og loftslagsvænni þróun. 

Barnaheill vilja leggja sitt lóð á vogaskálarnar og hafa um árabil samþætt vinnu að umhverfismálum í starf sitt. Samtökin hafa jafnframt kortlagt öll verkefni samtakanna með tilliti til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Árið 2017 var samþykkt umhverfisstefna Barnheilla. Þar var tilgreint að við allar ákvarðanatökur, framkvæmdir, rekstur, innkaup og aðra starfsemi á vegum Barnaheilla skulil leitast við að neikvæð áhrif á fólk, umhverfi og náttúru séu í lágmarki. Samtökin vilja með starfi sínu auðvelda þróun í átt að hringrásarhagkerfi og sýna samfélagslega ábyrgð. Stofnað hefur verið sjálfbærniteymi Barnaheilla með fulltrúum starfsfólks, stjórnar og ungmennaráðs sem á að tryggja það að öll starfsemi samtakanna vinni að þremur stöplum sjálfbærninnar. Markmið eru sett eru til þriggja ára í senn.

Hér má sjá hvaða markmiðum hefur verið náð:

Innkaup

  • Reynt er að lágmarka innkaup og ávallt valdar vörur sem hafa hve minnst áhrif á umhverfið af þeim vörum sem eru í boði.
  • Við ræstingar eru eingöngu notuð efni sem lágmarka áhrif á umhverfið og hafa jafnframt efnanotkun í lágmarki. Einungis eru notaðar umhverfisvænar og Svansvottaðar vörur.
  • Eingöngu er verslað við fyrirtæki sem hafa umhverfisvottun, þegar mögulegt er, s.s. þegar um er að ræða prentun.

Samgöngur

  • Barnheill vilja stuðla að að notkun vistvænna samgangna og að lágmarka áhrif samgangna á umhverfi og loftslag.
  • Sett hafa verið upp skilti á bílastæði þar sem ökumenn eru hvattir til að drepa á bílum sínum.
  • Starfsfólk er meðvitað um umhverfisvænar samgöngur og notar þær eins og kostur er, svo sem almenningssamgöngur og rafbíla. Jafnframt er reynt að takmarka ferðir m.a með því að vinna heima að hluta til.

Hér má sjá sjálfbærnisstefnu Barnaheilla frá árinu 2017 í heild sinni.