Leikskólar – verkefni

LeikskólarÖll börn, óháð stöðu þeirra, skulu  njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna þeim hvað þessi réttindi varðar. Lög um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla og aðrar stefnur sem leikskólastarf byggist á er að hluta til byggt á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og eiga að tryggja leikskólabörnum þau réttindi sem þar er að finna. Því er gert ráð fyrir að strax í leikskóla sé unnið með þá grunnþætti sem mannréttindi barna byggjast á.

Mikilvægt er að þeir sem vinna með börnum þekki Barnasáttmálann og mannréttindi barna. Það er ekki síður mikilvægt að börnin sjálf þekki réttindi sín. Það styrkir þau og eflir sem einstaklinga sem og hópinn í heild.

Grunnþættir mannréttinda barna

Grunnþættirnir eins og þeir birtast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru vernd, umönnun og þátttaka:

Vernd: Í Barnasáttmálanum er kveðið á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem til lífs og þroska. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi; líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, gegn vanrækslu og einelti. Einelti getur átt rætur sínar að rekja allt niður í leikskóla. Birtingarmyndin getur verið að barn sé útilokað frá leik eða sett er út á útlit eða athafnir þess. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkt.

Umönnun: Öllum börnum á að tryggja velferð á sviði menntunar, heilbrigðis og félagsmála. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna en allir þeir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra bera einnig ábyrgð svo og stjórnvöld.

Þátttaka: Öll börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða og taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Jafnframt er mikilvægt að börnum sé leiðbeint við að setja sig í spor annarra, taka tillit og hlusta á aðra.

Hægt er að vinna með þessa þætti á einfaldan hátt strax í leikskóla. Hér fyrir neðan eru hugmyndir að viðfangsefnum sem tengjast þessum þáttum og í sviga fyrir aftan viðfangsefnin er getið þeirra þátta sem verið er að vinna með.

Hugmyndir að viðfangsefnum

1. Barnasáttmálinn 

Rætt við börnin um samninginn og þau réttindi sem öll börn eiga. Í mörgum leikskólum er veggspjald um Barnasáttmálann. Hér má finna veggspjald sem hentar til notkunar með börnum á leikskólaaldri. Veggspjaldið er samsett úr mörgum myndum og umræðupunktar eru fyrir hverja mynd.

Rúnar Góði, barnabók eftir Hönnu Borg Jónsdóttur (Salka – Reykjavík 2016) fjallar um  Barnasáttmálann og mannrétttindi barna. Tilvalið er að lesa bókina fyrir börnin, ræða hana og vinna verkefni út frá henni.  (Vernd, umönnun, þátttaka.)

2. Afmæli Barnasáttmálans

Barnasáttmálinn á afmæli 20. nóvember, hvað þýðir það og hvað er hann gamall? Hvenær eiga börnin afmæli, hvað merkir þeirra afmælisdagur og hvað eru þau gömul? Afmælisdagatal, afmælisveisla. (Þátttaka.)

3. Hverju á ég rétt á og hverju ekki? – réttindi og forréttindi 

Á námsvefnum barnasattmali.is eru upplýsingar um muninn á réttindum og forréttindum og verkefni með leiðbeiningum um hvernig er hægt að vinna með þessi hugtök. Hægt er að einfalda verkefnið fyrir leikskóla og taka einstaka þætti – og þá út frá rétti barna til verndar og umönnunar. Börn eiga rétt á umhyggju en þau eiga líka rétt á að segja nei ef þau vilja til dæmis ekki láta faðma sig eða snerta. Börn eiga rétt á mat og heimili, en þau eiga ekki rétt á að fá alla þá hluti og allan þann mat sem þau vilja. Börnin teikna það sem þau telja sig eiga rétt á og eru myndirnar svo ræddar. (Vernd, umönnun, þátttaka.)

4. Vinir á öllum aldri

Eldri og yngri börn tengd saman í leik þar sem þau eldri aðstoða þau yngri við ýmis verkefni, veita þeim leiðsögn og stuðning, úti sem inni. Hér þurfa einkunnarorðin að vera virðing, vinátta og umhyggja. (Vernd, umönnun, þátttaka.)

5. Verndarar mínir

Rætt er við börnin um að öll börn eigi rétt á að þau séu vernduð og þeim sýnd umhyggja. Hver verndar þig og fyrir hverju? Að loknum umræðum teikna börnin verndara sína og svo er rætt um myndirnar. Myndirnar gætu verið fjölbreyttar, á þeim eru líklega í flestum tilfellum foreldrar barnanna eða forsjáraðilar, en einnig afar, ömmur, stjúpforeldrar, systkini, starfsfólk leikskólanna og fleiri. Mikilvægt að umræðurnar taki mið af gildi margbreytileikans. Gott er að spyrja börnin af hverju eða hvernig þeir sem eru á myndunum eru verndarar þeirra. (Vernd, umönnun.)

6. Vinaganga

Vinaganga er farin um hverfið ef til vill í samstarfi við foreldrafélag skólans. Hægt er að nota margs konar aðferðir til að ákveða hvernig komið er í veg fyrir útilokun í göngu sem þessari og hvernig og hvort börnin eru pöruð; börnin dragi samstæðuspil og þau sem draga samstæður leiðast, yngri leiða eldri, strákur og stelpa leiðast o.s.frv. Í göngunni eru sungin vinalög. (Umönnun, þátttaka.)

7. Hrósum

Allir eru góðir í einhverju. Mikilvægt er að vinna með styrkleika barnanna og ræða þá. Börnin sitja í hring og segja í hverju þau eru góð og í hverju sá eða sú sem situr við hlið þeirra er góð/ur. Gott er að starfsfólk taki að fullu þátt með börnunum, hrósi börnum og samstarfsfólki. (Umönnun, þátttaka.)

8. Skoðanadagur

Samverustund þessa dags er helguð skoðunum. Börn eiga samkvæmt Barnasáttmálanum rétt á að láta skoðanir sínar í ljós um málefni er þau varða og taka á réttmætt tillit til skoðana þeirra. Mikilvægt er að segja börnunum að þau eigi rétt á að segja skoðanir sínar og að fullorðnir eigi að hlusta á börnin. Börnin segja skoðanir sínar á ákveðnum fyrirframgefnum málum, svo sem leiktækjunum á leikvellinum, samverustundinni eða öðru sem brennur á börnunum eða hefur verið á dagskrá á leikskólanum.  Mikilvægt er að stýra umræðum þannig að rætt sé um málefni en ekki um ákveðna einstaklinga. (Umönnun, þátttaka.)

9. Uppskeruhátíð og réttindaganga

Afrakstur vinnu undanfarinna daga er kynntur fyrir foreldrum og öðrum eftir því hvað hentar á hverjum stað. Tilvalið er að vinna í samstarfi við önnur skólastig. (Þátttaka.)

Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að Vináttuverkefninu, sem er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Vinátta byggist á fjórum gildum; umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki. Fjöldi leikskóla á Íslandi tekur þátt í verkefninu. Í verkefnatösku sem fylgir verkefninu er úrval verkefna sem þeir leikskólar geta nýtt sér í tengslum við Dag mannréttinda barna. Sjá nánar á barnaheill.is.