Líbería

Um Líberíu

Líbería er lítið land staðsett á vesturströnd Afríku og hefur landamæri að Síerra Leóne, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Líbería var fyrsta Afríkuríkið til þess að lýsa yfir sjálfstæði árið 1847 og er þar með elsta nútímalýðveldið í álfunni. Í dag búa um 5 milljónir íbúa í Líberíu en landið er eitt af fátækustu ríkjum heims. Líbería er í 175. sæti af 189 löndum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna og eru lífslíkur við fæðingu 64,1 ár. 43% íbúa landsins eru undir 14 ára aldri. Líbería er með eina hæstu tíðni barnadauða í heiminum þar sem 84,6 af hverjum 1000 börnum deyja fyrir 5 ára afmælið sitt. Það gera 11.000 barnadauða á hverju ári.

More workshops about the Global Encounter in Liberia | The Rooftop

Aðstæður barna í Líberíu eru erfiðar en 90% barna á aldrinum 1-14 ára búa við líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi af hálfu foreldra eða forráðamanna. 14% barna í landinu eru hneppt í barnaþrælkun og 36% stúlkna eru giftar fyrir 18 ára aldur. 43% kvenna búa við heimilisofbeldi af hálfu maka og 44% stúlkna og kvenna á aldrinum 15 til 49 ára eru umskornar.

Menntakerfi í Líberíu er slakt og stenst ekki samanburð við nágrannaríki. Um 40% nemenda eru að minnsta kosti þremur árum á eftir í námi. Fyrir kórónuveirufaraldurinn voru 16% barna á skólaaldri ekki í skóla, en vegna Covid-19 þurftu 1,4 milljón börn til viðbótar að hætta námi. Meira en helmingur skólabarna lýkur ekki námi, þar af fleiri stúlkur en drengir.