Einelti

Hvað er einelti?

EineltiUm einelti er að ræða þegar einstaklingur eða hópur einstaklinga beinir endurtekið hvers kyns niðurlægjandi áreitni eða útskúfun að ákveðnum einstaklingi eða hópi einstaklinga. Í einelti felst valdbeiting og geta birtingarmyndir eineltis verið margs konar, bæði líkamlegar og andlegar. Þar má nefna endurtekna stríðni, ýmiss konar látbragð, niðrandi ummæli, sögusagnir, andlega kúgun, hótanir, líkamlegt ofbeldi, einangrun eða útskúfun.
Mikilvægt er að þeir sem vinna með börnum þekki einkenni eineltis og að í skólum og tómstundastarfi með börnum séu til áætlanir til að koma í veg fyrir og bregðast við einelti. Sá sem verður fyrir einelti ber aldrei ábyrgð á því. Mikilvægt er að hvetja börn til að segja frá órétti sem þau eða félagar þeirra eru beitt og að þau fái stuðning.

Einstaka stríðni eða árekstrar teljast ekki einelti, en getur samt verið meiðandi og þess eðlis að nauðsynlegt er að takast á við tilfellin og aðstoða börn við að leysa þau.

Einkenni eineltis

Einelti hefur ýmsar birtingarmyndir sem allar fela í sér einhvers konar niðurlægingu fyrir þann sem fyrir því verður. Birtingarmyndir eineltis geta verið eftirfarandi:

  • Niðurlægjandi athugasemdir, t.d hvað varðar útlit, klæðnað eða athafnir, uppnefni, fliss eða augngotur.
  • Útskúfun og afskiptaleysi. Barn má ekki vera með í leik eða er ekki boðið með á atburði, s.s. í afmæli. Það er ekki látið vita þegar eitthvað stendur til. Ekki er tekið tillit til skoðana og tillagna einstaklings, þær eru virtar að vettugi.
  • Eigum er stolið, þær vanvirtar eða eyðilagðar.
  • Einstaklingur er þvingaður til að gera eitthvað sem brýtur niður sjálfsvirðingu hans og stríðir gegn réttlætiskennd.
  • Líkamlegt ofbeldi.
  • Sögusagnir og lygi eru bornar út um einstakling eða fjölskyldu hans.

Eins og sést hér að ofan er nánast hvað sem er notað sem fóður í einelti, hvort sem um er að ræða útlit, framkomu, skoðanir, hæfileika, veikleika eða styrkleika. Öfund getur einnig verið orsök eineltis. Því getur hver sem er lent í einelti. Eitthvað ákveðið útlit eða eiginleikar eru viðurkenndir sem þeir „réttu“ í hópnum og annað er ekki viðurkennt.  
Mikilvægt er að þegar tekið er á einelti sé ekki gert ráð fyrir að sá sem lendir í einelti þurfi að breyta klæðnaði eða öðru til að þóknast hópnum, heldur sé unnið með samskiptin í hópnum og virðingu fyrir margbreytileikanum.

Hvar þrífst einelti og hvað er til ráða?

Einelti getur þrifist nánast hvar sem er, á heimilum, í skóla, í félagsstarfi, í tómstundum og á vinnustöðum.

Einelti í barnahópum er oft dulið og á sér gjarnan stað þar sem enginn fullorðinn verður vitni að því, á skólalóðinni, á göngum, í kennslustofunni, í búningsklefum, á salernum og á leið í og úr skóla. Mikilvægt er að hvetja börn til að segja frá og til að styðja félaga sína og verja.

Samkvæmt rannsóknum er einelti algengast á miðstigi grunnskóla, en rætur eineltis má gjarnan rekja allt niður í leikskóla.

Blær bangsiBarnaheill – Save the Children á Íslandi standa að útgáfu námsefnis sem heitir Vinátta og er ætlað leikskólabörnum og nemendum í fyrstu bekkum grunnskóla. Í efninu er áhersla á forvarnir gegn einelti. Efnið  er þýtt og staðfært úr danska efninu Fri for mobberi og byggist á nýjustu rannsóknum á einelti.

Áður fyrr var einelti gjarnan skoðað út frá gerendum, þolendum og svo hinum þögla áhorfanda. Komið hefur í ljós að þetta er ekki svona einfalt því sami einstaklingurinn getur verið í öllum hlutverkunum, bara í mismunandi aðstæðum. Því er horfið frá þeirri hugsun að skoða einelti út frá hinum „vonda geranda“ og hinum „viðkvæma þolanda“ yfir í að skoða umhverfið, samskiptamynstur og skólabrag. Einelti þrífst í umhverfi þar sem barn hefur ekkert val um að vera í, s.s. í skóla, og þar sem lítið umburðarlyndi er fyrir því að fólk er mismunandi. Í umhverfi þar sem einelti fær að þrífast er gjarnan ein hegðun eða útlit álitið rétt en annað rangt. Því er lítið svigrúm fyrir fjölbreytileika og mismunandi styrkleika einstaklinga.

Vinátta byggist á fjórum gildum sem skulu vera samofin öllu skólastarfi. Þau eru:

  • Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla af virðingu.
  • Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra.
  • Umhyggja: Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
  • Hugrekki: Að þora að láta í sér heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Vinátta snýst ekki síst um að virkja alla til þátttöku og samábyrgðar á góðum skólabrag og velferð allra nemenda. Samstarf allra aðila skólasamfélagsins, nemenda, starfsfólks skóla og foreldra, er grundvöllur þess að vel takist til. Ábyrgðin er þó alltaf hinna fullorðnu, ekki barnanna. Þátttaka foreldra og hlutverk þeirra og starfsfólks sem fyrirmynda er lykilatriði. Foreldrar og þeir sem vinna með börnum og unglingum þurfa að vita hvað einelti er og vera meðvitaðir um einkenni þess. Þó mikilvægast sé að fyrirbyggja einelti þarf jafnframt að tryggja að ef upp koma eineltismál í skóla eða félagsstarfi með börnum sé til staðar áætlun um hvernig sé tekið á málum. Einnig er mikilvægt að allir aðilar málsins fái aðstoð og stuðning.

Afleiðingar eineltis

Því lengur sem einelti fær að þrífast því alvarlegri áhrif getur það haft á þolanda þess þar sem sjálfsmynd viðkomandi er markvisst brotin niður. Sá sem lendir í einelti segir oft ekki frá því. Hann fer jafnvel að trúa því að hann eigi eineltið skilið og sé lítils virði. Við langvarandi einelti getur hegðun og framkoma breyst hjá þeim sem fyrir verður og hann verður ýmist hlédrægur og lætur fara lítið fyrir sér, eða jafnvel ágengur við aðra til að reyna að öðlast viðurkenningu. Hann missir trúna á sjálfum sér og missir traust til annarra. Hann vill oft ekki fara í skólann og ber fyrir sig vanlíðan. Einelti getur líka valdið líkamlegum kvillum, svo sem verkjum í höfði og maga auk streitu.

Þeir sem hafa lent í langvarandi einelti geta átt erfitt með að tengjast öðrum tilfinningaböndum og/eða að trúa því að þeir séu metnir að verðleikum. Höfnunartilfinningin er sterk. Til lengri tíma getur einelti valdið kvíða og þunglyndi. Því er mikilvægt að þeir fái aðstoð við að byggja upp sjálfstraust og efla sjálfsmynd sína. Nauðsynlegt er að þeir fái trúna á sjálfa sig og séu metnir að verðleikum því sá sem lendir í einelti ber ekki ábyrgð á því.

Eins og fram er komið hér að framan eru hlutverkaskipti ekki alltaf skýr í eineltismálum. Því er mikilvægt að vinna með hópinn í heild sinni en jafnframt veita þeim einstaklingum stuðning sem hafa orðið fyrir einelti eða tekið þátt í því.

Rafrænt einelti

Mikil aukning hefur orðið á svokölluðu rafrænu einelti á undanförnum árum. Rafrænt einelti er notað yfir þá tegund eineltis þegar internetið og/eða snjallsímar eru notaðir til að koma niðrandi og yfirleitt meiðandi upplýsingum um einstakling á framfæri. Auðveldara getur verið að leyna athæfi sínu á netinu en augliti til auglitis. Þetta veldur því að oft er erfitt að verjast þessari tegund eineltis. Einelti eða útlokun á samfélagsmiðlum er eitt helsta áhyggjuefni margra ungmenna, þ.e. hvernig athugasemdir eru gerðar við myndir sem þeir setja inn, hve mörgum líkar við myndirnar og hve marga vini hver á. Hópeðli ungmenna getur svo orðið að keðjuverkun eineltis eða útilokun á samfélagsmiðlum; ungmenni vill ekki vera vinur einhvers sem einhver annar vill ekki vingast við. Sama á líka við um myndir.

Áður voru heimilin gjarnan griðastaðir þeirra sem lentu í einelti en nú er einstaklingurinn hvergi óhultur því nettengdir símar, sem stöðugt gefa til kynna færslur á samfélagsmiðlum eða sms, eru í vösum flestra ungmenna. Mikilvægt er að foreldrar fylgist með notkun barna sinna á samfélagsmiðlum, ræði þessa þætti við þau og hvetji þau til að vera hugrökk og sjálfstæð og útiloka ekki ákveðna bekkjarfélaga á samfélagsmiðlum. Þess má geta að á Facebook, Instagram og Snapchat er 13 ára aldurstakmark.

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og ábyrga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. SAFT vill jafnframt stemma stigu við því að hin rafræna tækni sé notuð á neikvæðan hátt, svo sem til að leggja einstaklinga í einelti. Mikilvægt er að átta sig á því að sömu reglur gilda um samskipti og framkomu á netinu og í gegnum síma og í daglegu lífi. Ábyrgðin er sú sama. Sjá nánar á saft.is.

Tilkynna má einelti á neti í gegnum ábendingalínu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.