Síerra Leóne

Síerra Leóne er staðsett í Vestur-Afríku og er meðal fátækustu ríkja heimsins. Þar búa 7,9 milljón manns og er landið í 181. sæti af 187 þjóðum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Helmingur íbúa þjóðarinnar eru börn og er staða þeirra í landinu ein versta í heiminum. Fjöldi barna glímir við ýmisleg félagsleg og efnahagsleg vandamál og eru berskjölduð fyrir ofbeldi og vanrækslu. Það ríkir mikið kynjaójafnrétti og árið 2019 hafnaði Síerra Leóne í sæti 155 af 162 á mælikvarða yfir kynjaójafnrétti (Gender Inequality Index).

Stúlkur og konur eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi en tíðni þess í landinu er með því mesta sem gerist á heimsvísu. Kynlífsþrælkun, mansal og kynferðisofbeldi er gríðarlega stórt samfélagslegt vandamál í landinu en í febrúar 2019 lýsti forseti landsins yfir neyðarástandi vegna kynferðisofbeldis. Árið áður hafði kynferðisofbeldi nærri því tvöfaldast og var þriðjungur kynferðisbrotamála sem komu inn á borð lögreglu brot gegn ungum stúlkum. Ótímabærar þunganir eru einn af fylgifiskum nauðgana en hlutfall þungana hjá ungum stúlkum í Síerra Leóne er með því hæsta sem þekkist. Í Síerra Leóne eru stúlkur oft hnepptar ungar í hjónaband en 13% kvenna ganga í hjónaband fyrir 15 ára aldur og 39% áður en þær verða 18 ára. Um 64% kvenna á aldrinum 15-49 eru beittar ofbeldi af hendi maka.

Annað algengt vandamál í landinu er skert aðgengi að menntun, en 38,7 % íbúa hafa aldrei gengið í skóla. Þar að auki ríkir mikið kynjamisrétti innan allra stiga skólakerfisins þar sem fáir skólar hafa tök á því að veita stúlkum öruggt umhverfi. Einungis 16% kennara eru konur og mjög fáir skólar hafa kynjaskipta salernisaðstöðu sem allir nemendur hafa aðgang að. Það ríkir mikið ofbeldi innan skóla en gerendur eru ýmist kennarar, eldri nemendur eða annað skólastarfsfólk. Líkamlegar refsingar þykja viðeigandi bæði í skólanum og innan veggja heimilisins, en 86,5 % 1-14 ára barna eru beitt líkamlegum refsingum heima hjá sér. Flengingar eru tíðar í skólum, en þar að auki er kynferðisofbeldi algengt. Árið 2020 höfðu 2 af hverjum 3 stúlkum verið beittar einhverskonar kynferðisofbeldi í skólanum og 18% þeirra hafði verið nauðgað. Covid-19 faraldur hefur aukið tíðni barnaofbeldis. Á tímabilinu mars til október 2020 var skólum í landinu lokað og þar af leiðandi voru 3,5 milljónir barna í Síerra Leóne sett í hættulega stöðu þar sem mörg þeirra hafa orðið fyrir einhverskonar ofbeldi.

Það er áríðandi að huga að réttindum barna í Síerra Leóne og sjá til þess að þau geti lifað öruggu lífi bæði innan skólakerfisins og utan þess.