Um Vináttu

Hugmyndafræði og gildi

Vinátta byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem mikilvægt er að séu samofin öðru starfi þeirra skóla sem vinna með efnið. Auk þess byggir Vinátta á raunhæfum verkefnum fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þátttaka allra í þessu forvarnarverkefni er grundvöllur þess að vel takist til. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum:

Gildi VináttuUmburðarlyndi 
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans  og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing 
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.

Umhyggja 
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki 
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti. 

Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Lögð er sérstök áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti og hvetja þau til að bregðast við því.

Námsefnið

Allt námsefnið sem notað er í Vináttu er að finna í sérstökum töskum. Þar eru verkefni og annað efni ætlað börnum, foreldrum, kennurum og öðru starfsfólki. Hver skóli getur útfært efnið út frá eigin stefnu og sérstöðu. Mikilvægt er að skólar noti sem fjölbreyttust verkefni og vinnubrögð svo að öll börn geti nýtt styrkleika sína og lagt sitt af mörkum til að vera góður félagi og sýna vináttu, umhyggju, virðingu og hugrekki.

Um er að ræða þrenns konar töskur:

Gul taska: Efni fyrir 0–3ja ára. Fyrir ungbarnadeildir leikskóla. Hentar einnig vel fyrir dagforeldra.      Skoða efni

Græn taska: Efni fyrir 3ja–6 ára börn í leikskólum.        Skoða efni

Blá taska: Efni fyrir nemendur í 1.–3. bekk grunnskóla. Verið er að tilraunakenna þetta efni.

Árangur af Vináttu

Vinátta – Fri for mobberi er þróuð og byggð á dönskum rannsóknum. Við Háskólann í Hróarskeldu hafa verið gerðar reglulegar mælingar á árangri  af notkun efnisins. Samkvæmt niðurstöðum þessara rannsókna er mikil ánægja með efnið á meðal kennara og foreldra og er árangur af notkun Vináttu mjög góður. Fram kemur að 98% foreldra barna í leikskólum sem vinna með Vináttu  telja að námsefnið hafi góð áhrif á börnin og þau hafi gagn af því. Foreldrarnir telja að börnin hafi öðlast meiri hæfni til að mynda tengsl og að eiga samskipti við önnur börn og fullorðna. Danskir kennarar eru einnig mjög ánægðir með Vináttu og telja 97,4% þeirra að efnið í töskunni sé mjög gott, aðgengilegt og auðvelt að vinna með það. Þá segja kennarar einnig að efnið hafi opnað augu þeirra fyrir nýjum aðferðum og nýrri sýn á samskipti í barnahópnum, nálgun sem byggist á gildum efnisins.

Börnum sem kynnast Vináttu líkar vel við verkefnin og efnið í töskunni. Þau eru hafa sýnt meiri hjálpsemi, samhygð og umhyggju. Eldri börn hjálpa þeim yngri og ný tengsl hafa myndast í leik. Börn úr leikskólum sem unnið hafa með verkefnið fá umsögn um hlýju, samkennd og góða framkomu, þar sem þau koma. Foreldrar barnanna úr leikskólum þrýsta gjarnan á grunnskólann sem þau fara í um að taka upp verkefnið í grunnskólanum og vinna þar áfram með þessa hugmyndafræði.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi  hafa staðið fyrir rannsóknum í þeim leikskólum sem fyrst tóku Vináttu í notkun á Íslandi. Rannsóknirnar voru voru unnar í samvinnu við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands. Alls gerði stofnunin þrjár rannsóknir og má skoða niðurstöðurnar hér fyrir neðan.
Fyrsta rannsókn.
Önnur rannsókn.
Þriðja rannsókn.

Hér má lesa nánar um rannsóknir á efninu í Danmörku.

Foreldrar

Veggspjald leikskóla
Veggspjald grunnskóla
Í Vináttu er lögð mikil áhersla á þátttöku foreldra, enda eru foreldrar mikilvægir samherjar skólanna. Í töskunum eru sérstök verkefni sem gert er ráð fyrir að  unnin séu með foreldrum, svo sem á foreldrafundum. Hverri tösku fylgir veggspjald sem mælt er með að hengt sé upp í anddyri skólans. Á veggspjaldinu eru ráð um góð samskipti milli starfsfólks, barna og foreldra þeirra.

Mikilvægt er að foreldrar þekki hugmyndafræði og gildi Vináttu og séu samstíga skólunum í aðgerðum til að fyrirbyggja einelti. Því er mikilvægt að foreldrahópurinn setji sér sameiginlegar reglur eða viðmið hvað varðar heimboð og afmæli. Það er ekki einungis mikilvægt til að koma í veg fyrir útilokun heldur einnig til að setja viðmið svo sem um æskilegan aldur hvað varðar afmælisboð og fleira sem snertir öryggi og velferð barnanna.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft og aðgát skal höfð í nærveru sálar eru orðatiltæki sem eru í góðu gildi. Því skiptir miklu máli að þeir fullorðnu séu fyrirmyndir barnanna í orði og verki og þeir gæti að því hvernig þeir tala um önnur börn og foreldra þeirra í návist barna sinna. Þá er mikilvægt að hafa í huga að börn bera ekki ábyrgð á þeim aðstæðum sem þau búa við og ekki á að mismuna þeim sökum þess.

Foreldrafélög geta tekið virkan þátt í Vináttu. Margir skólar leita til foreldrafélaga til að skipuleggja viðburði þegar Blær kemur í fyrsta skipti til barnahóps. Þá getur hugmyndaflug, reynsla eða starfsvettvangur foreldra komið að góðum notum. Fólk sem starfar við flug hefur fundið Blæ á flugvelli, bréfberar komið með Blæ af pósthúsinu og svo framvegis. Þegar foreldrafélög skipuleggja hátíðir í skólum er kjörið að nýta Vináttu. Gott er að eiga vin er tónlistardiskur og hefti með söngvum og leikjum, sem mörg börn í Vináttuskólum kunna að syngja og leika og geta flutt fyrir fjölskyldur á hátíðum.

Ráð og bréf til foreldra leikskólabarna á fleiri tungumálum, svo sem ensku og pósklu, má finna á vefsíðu Fri for mobberi.

Ráð og bréf til foreldra grunnskólabarna á fleiri tungumálum er einnig að finna á sömu vefsíðu.

 

Kynningarmyndband um Vináttu – mars 2018

Stutt kynningarmyndband um Vináttu       

Vinátta gegn einelti – kynningarmyndband