Barnasáttmálinn

barnasáttmálinnEglantyne Jebb er upphafsmaður að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hún ritaði fyrstu drög að réttindum barna árið 1923 sem voru samþykkt af Bandalagi þjóðanna (League of Nations) í Genf sama ár. Þann 20. nóvember árið 1959 innleiddu Sameinuðu þjóðirnar mun nákvæmari og ítarlegri sáttmála. Dagurinn hefur síðan verið tileinkaður málefninu ár hvert og er alþjóðlegur dagur barna.

Barnasáttmálinn var formlega samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1989. Hann var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Í lögfestingu felst að hægt er að beita ákvæðum sáttmálans fyrir dómstólum sem settum lögum og er því um að ræða mikla réttarbót fyrir íslensk börn.

Allar aðildarþjóðir SÞ hafa staðfest sáttmálann nema Bandaríkin og Suður-Súdan. Staðfestingin felur í sér að lög og reglur eigi að vera í samræmi við sáttmálann og aðildarríkin geri það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja lögunum.

Megin inntak Barnasáttmálans er að tryggja börnum vernd gegn alls kyns ofbeldi, veita þeim tækifæri og áhrifamátt. Um er að ræða alþjóðlega viðurkenningu á því að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram fullorðna, þeim séu tryggð full mannréttindi og eigi rétt á að alast upp við öryggi og í friði óháð búsetu, kynferði, kynþætti, trú eða félagslegum aðstæðum. Sáttmálinn fjallar ítarlega um rétt barna, meðal annars til menntunar og heilbrigðis, rétt þeirra sem einstaklinga og til aðstæðna sem leyfa þeim að þroskast andlega, líkamlega og félagslega þar sem þau eru vernduð gegn vanrækslu og grimmd. Aðildarríkjum sáttmálans er gert að stuðla að sérstakri þjónustu, menntun og aðhlynningu barna sem búa við fötlun sem og að auka skilning á aðstæðum þeirra. Samningurinn leggur áherslu á rétt barna til friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, tjáningarfrelsis sem og frelsis til skoðana og trúar. Þá eru ákvæði gegn því að börn fái að vinna fyrir ákveðinn lágmarksaldur og að þau fái ekki að taka þátt í störfum sem leggi heilsu þeirra eða menntun í hættu. Börnum sé einnig forðað frá aðstæðum sem leiði til mismununar og séu alin upp við skilning, umburðarlyndi, vináttu og frið.

Auk ítarlegs inngangs er sáttmálinn í þremur hlutum og inniheldur 54 greinar.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að fræðsluvefnum, barnasattmáli.is og útgáfu fræðsluefnis ásamt umboðsmanni barna, Unicef á Íslandi og Námsgagnastofnun/Menntamálastofnun. Á vefnum er hægt að lesa sér til um Barnasáttmálann og mannréttindi barna. Vefurinn er ætlaður til notkunar í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum en hentar einnig öllum almenningi, bæði börnum og fullorðnum. Verkefnið var styrkt af forsætisráðuneytinu.

Hægt er að panta fræðsluefni, þ.e. bækling, og veggspjöld fyrir eldri og yngri á vefsíðu samtakanna.

Panta efni