Dagur mannréttinda barna 2022

Fræðsla í leik-, grunn- og framhaldsskólum um réttindi barna

Árlega skora Barnaheill á skólastjórnendur og kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum til að stuðla að fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Degi mannréttinda barna sem haldinn er þann 20. nóvember ár hvert.  

Að þessu sinni er kynning send í alla skóla á lokaathugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðann í barnvænu formi en athugasemdirnar eru kynntar formlega mánudag, 21. nóvember á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytisins og Barnaheilla. Auk þess er eins og undanfarin ár send tillaga að framkvæmd nemendaþings í skólanum.

 

Lokaathugasemdir Barnaréttarnefndarinnar

NEMENDAÞING Í SKÓLUM           

Bréf til skóla 2022

1. Kynning á lokaathugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

 Kynningin á lokaathugasemdunum er í rafrænu formi og má nálgast hér. Þegar búið er að kynna athugasemdirnar og réttindi barna fyrir þeim hvetjum við kennara til að spyrja börnin eftirfarandi spurninga:

  • Hvað finnst þér/ykkur um þessar athugasemdir frá Barnaréttarnefndinni?
  • Hvað finnst þér/ykkur mikilvægast að laga strax?
  • Er eitthvað fleira sem þú/þið takið eftir sem þarf að laga til tryggja rétt barna sem kemur ekki fram? Ef svo er, hvað er það sem þarf að bæta?
  • Er eitthvað annað sem þú/þið viljið að komi fram? Ef svo er, hvað er það?

Gott getur verið að gefa nemendum tækifæri til að ræða sín á milli fyrst og senda okkur svör þeirra á netfangið barnaheill@barnaheill.is  Mennta- og barnamálaráðuneytið mun vinna úr þeim upplýsingum sem berast og munu þær einnig nýtast þegar barnaréttanefndin tekur aftur fyrir stöðu Íslands í að framfylgja mannréttindum barna.

 

2. Nemendaþing í skólum

Ein af mörgum leiðum til að stuðla að mannréttindum barna er að setja á fót svokölluð nemendaþing. Með þeim gefst börnum og ungmennum kostur á að koma hugmyndum sínum og tillögum á framfæri og hlusta á hvað aðrir hafa að segja, það er nefnilega líka mikilvægt að kunna að hlusta! Kennarar geta nýtt sér slík þing sem lið í að vinna með grunnþáttinn lýðræði- og mannréttindi. Við hvetjum ykkur því til að hafa nemendaþing í skólanum sem öll börn taka þátt í. Þið getið valið afmarkað þema eins og til dæmis jólin, símanotkun í skólum eða loftslagsbreytingar. Þið getið líka kallað eftir hugmyndum frá nemendunum sjálfum. Hér er að finna skjal sem þið getið notað til hliðsjónar við skipulagningu nemendaþings og að sjálfsögðu takið þið mið af þeim aðstæðum sem eru í ykkar skóla.

 Leyfið okkur að frétta hvernig tekst til með nemendaþingið og sendið okkur á barnaheill@barnaheill.is