Ofbeldi

BæklingurMikilvægt er að öflug fræðsla og forvarnir gegn ofbeldi fari fram í samfélaginu, svo sem í skólum og á heilsugæslustöðvum. Allir einstaklingar samfélagsins þurfa að þekkja mannréttindi barna og rétt þeirra til verndar gegn ofbeldi. Hver og einn samfélagsþegn ætti að þekkja ábyrgð sína á því að koma fram af virðingu við börn, vera vakandi fyrir aðstæðum þeirra og tilkynna um grun um ofbeldi, vanrækslu eða aðrar slæmar aðstæður barns.

Ofbeldi gegn börnum á aldrei að líðast þar sem það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar  í för með sér fyrir þann sem fyrir því verður. Börn eiga samkvæmt 19. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum rétt á vernd gegn líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi og vanrækslu. Ofbeldi og vanræksla gagnvart börnum, í hvaða mynd sem er, er því brot á lögum og alvarlegt brot á réttindum barna. Samkvæmt Barnasáttmálanum og öðrum íslenskum lögum telst einstaklingur vera barn til 18 ára aldurs og foreldrum/forsjáraðilum ber skylda til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Ofbeldi gagnvart börnum er mjög alvarlegt hvort sem um er að ræða líkamlegtandlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Börn eru mjög varnarlaus og geta sjaldan borið hönd fyrir höfuð sér. Staða barna er oft sú að þau eiga erfitt með að komast út úr ofbeldisaðstæðum og fá oftar en ekki hjálp allt of seint. Ef ofbeldi, hvort sem um er að ræða andlegt eða líkamlegt, er síendurtekið gagnvart einstaklingi þá er einnig hægt að flokka það undir einelti.

Eftirtalin líðan og hegðunareinkenni geta verið vísbendingar um að barn hafi verið beitt ofbeldi:

  • Lítið sjálfsálit/sjálfstraust
  • Erfiðleikar með að treysta og elska aðra
  • Getur átt erfitt með líkamlega snertingu
  • Streita og óöryggi
  • Árásargirni, erfiðleikar með að hemja skap sitt
  • Reiði
  • Vandamál tengd svefni
  • Áfengis- og vímuefnanotkun
  • Endurupplifanir af ofbeldinu, til dæmis í draumum
  • Leiði, kvíði eða þunglyndi
  • Erfiðleikar í skóla
  • Aðgerðarleysi, hlédrægni/óframfærni eða ágengni
  • Sjálfskaðandi hegðun og jafnvel sjálfsvígshugsanir
  • Erfiðleikar með félagsleg samskipti við nýja hópa eða athafnir
  • Annars konar andlega vanlíðan
  • Líkamlegar umkvartanir sem eiga sér ekki læknisfræðilegar skýringar, svo sem höfuðverkir, magaverkir og að pissa á sig

Líkamlegt ofbeldi

Um líkamlegt ofbeldi er að ræða þegar einstaklingur er meiddur viljandi. Nokkrar birtingarmyndir eru á líkamlegu ofbeldi og því getur verið beint að barni á beinan eða óbeinan hátt. Ofbeldi á beinan hátt eru hvers kyns barsmíðar, bindingar og brunar meðan ofbeldi sem beitt er á óbeinan hátt er frekar duldara og getur til dæmis skaðað barn smátt og smátt. Dæmi um þetta er að gefa barni eitthvað sem því getur orðið meint af að innbyrða eins og lyf, matur eða annað slíkt. Líkamlegar refsingar, svo sem að flengja barn, eru líka ofbeldi og bannaðar samkvæmt lögum.

Afleiðingar ofbeldis geta verið sýnilegir eða ósýnilegir áverkar. Oftast er auðveldara að greina sýnilega heldur en ósýnilega áverka. Sýnilegir áverkar eru oft augljósir á líkama eins og marblettir, brunasár og ör. Oftar en ekki þarf sérfræðiþekkingu heilbrigðisstarfsfólks til að koma auga á ósýnilega áverka þar sem þeir geta verið innvortis eins og innvortis meiðsl, heilaskemmdir, tognanir og beinbrot.

Andlegt ofbeldi

Hægt er að skipta andlegu ofbeldi í fjóra flokka.

1. Foreldri eða aðrir fullorðnir sýna barni viðvarandi neikvæð viðhorf og tilfinningar.

  • Setur sífellt út á barnið eins og útlit eða skap.
  • Setur sífellt út á athafnir barnsins eins og heimalærdóm og heimilisstörf.
  • Notar neikvæð og niðrandi orð við barnið.
  • Notar SMS skilaboð eða aðra rafrænar leiðir til að beita barn andlegri- eða kynferðislegri áreitni.

2. Foreldri gerir óraunhæfar kröfur til barns miðað við þroska þess og aldur.

  • Foreldri ætlast til þess að barnið geti verið eitt heima, fyrr en eðlilegt getur talist.

3. Foreldri sér ekki barn sem sjálfstæðan einstakling eða fær barn til að sinna sínum sálrænu, tilfinningalegu eða líkamlegu þörfum.

  • Foreldrið sér barnið sem framlengingu á sjálfu sér, til dæmis þegar barnið sinnir sálrænum eða tilfinningalegum þörfum foreldris síns í stað þess að foreldrið sinni þessum þörfum barnsins.

4. Barn verður vitni að ofbeldi á heimilinu.

  • Líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi milli foreldra, foreldra gagnvart systkini, milli systkina barnsins eða barni/unglingi gagnvart foreldri.

Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðisofbeldi gegn börnum er hvers kyns kynferðisathöfn milli fullorðins einstaklings og ólögráða einstaklings eða milli tveggja ólögráða einstaklinga þar sem annar aðilinn hefur vald yfir hinum. Þegar fullorðinn einstaklingur eða eldra barn, neyðir, þvingar, sannfærir eða hvetur barn til að taka þátt í hvers kyns kynferðislegri snertingu eða án snertingar í gegnum netið – þá er það kynferðisleg misnotkun.

Kynferðisofbeldi getur verið einn einstakur atburður eða viðvarandi ástand sem varir í mánuði eða ár. Til eru dæmi í ákveðnum menningarsamfélögum þar sem kynferðisleg misnotkun á börnum á sér stað og felast m.a. í nauðgun, líkamsárásum eða limlestingum. Vitanlega bregðast ekki öll börn eins við kynferðislegri misnotkun – og ekki eru öll tilvik kynferðislegrar misnotkunar nákvæmlega eins. Það breytir því ekki að kynferðisleg misnotkun á börnum hefur skelfilegar afleiðingar og öll kynferðisleg misnotkun á börnum er refsiverður glæpur samkvæmt lögum.

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og unglingum er eitt alvarlegasta ofbeldi sem til er. Gerendur í þessum brotum brjóta oftast gegn þeim börnum/unglingum sem eru tengd þeim á einhvern hátt með skyldleika eða eru í nánasta umhverfi þess. Vegna þess verða börn oft fyrir broti af hálfu einhvers sem þau eiga og hafa getað treyst. Gerendur í kynferðisbrotamálum bera alltaf alla ábyrgð á brotinu.

Kynferðislegt ofbeldi getur verið allt frá orðum, myndbirtingum, snertingum til nauðgunar. Þó allt kynferðislegt ofbeldi sé alvarlegt er alvarleiki þess oft metinn mismikill eftir tegund brots, tengsla geranda við þolanda og fjölda brota.

Afleiðingar kynferðisofbeldis

Kynferðisofbeldi veldur áfalli og getur haft víðtækar afleiðingar fyrir þann sem fyrir ofbeldinu verður.

Kynferðisofbeldi í æsku getur haft alvarlegar og langvarandi líkamlegar, sálfræðilegar og félagslegar afleiðingar. Þær geta verið mjög mismunandi og eftir aldri þess sem fyrir kynferðisofbeldinu verður, viðbrögð einstaklingsins við áfallinu og þeim stuðningi sem hann fær eftir áfallið.

Kynferðisofbeldi í æsku er ógn við persónuleg mörk og tilveru barna og geta viðbrögð barna einkennst af miklum ótta og hjálparleysi. Að geta sagt einhverjum frá og fengið stuðning er því eitt af lykilatriðum í að geta lifað slíkt ofbeldi af. Meirihluti barna (90%) segja aldrei öðrum frá á meðan þau eru enn börn, að þau hafi verið beitt kynferðisofbeldi.

 

Andleg áhrif kynferðislegs ofbeldis á börn. Nokkur atriði sem geta gefið vísbendingar um að barn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi:

  • Árásargjörn hegðun, á erfitt með að hemja skap sitt.
  • Dregur sig í hlé frá vinum og fjölskyldu.
  • Svefnvandamál og martraðir.
  • Aukinn orðaforði um kynfæri.
  • Kvartar yfir sársauka, pirringi og/eða sýkingar eru á eða við kynfæri.
  • Áverkar eru sýnilegir á kynfærum.
  • Barnið vill ekki vera skilið eitt eftir með ákveðnum einstaklingum.
  • Barnið sýnir kynferðislega hegðun gagnvart leikföngum, öðrum börnum eða í teikningum.
  • Barnið er farið að gera aftur hluti sem það er vaxið upp úr eins og að pissa á sig, gráta, eða vera mjög háð þeim sem þau treysta.

ATH: Ekki þarf endilega að vera um kynferðislegt ofbeldi að ræða þó barn sýni eitthvað af þessari hegðun. Enn fremur getur verið að barn sem orðið hefur fyrir kynferðislegu ofbeldi sýni ekki breytta hegðun.

Hegðunarörðugleikar sem geta komið fram hjá unglingum sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi:

  • Erfiðleikar í skóla og vinnu.
  • Ótímabær þungun.
  • Afbrot og andfélagsleg hegðun.
  • Áfengis- og vímuefnanotkun.
  • Erfiðleikar með persónulegar skuldbindingar eins og ástarsambönd.
  • Sjálfsvígshugsanir.
  • Ofbeldi gegn ástvini.

Hvernig á að bregðast við gagnvart barni ef það gefur eitthvað í skyn sem gæti tengst kynferðislegu ofbeldi?

  • Hlustaðu, ekki yfirheyra barnið.
  • Sýndu stillingu og yfirvegun.
  • Sýndu að þú skiljir hvað barnið er að meina og taktu það alvarlega sem það segir. Þetta skiptir miklu máli fyrir möguleika barnsins á að vinna úr áfallinu sem hlaust af ofbeldinu.
  • Fullvissaðu barnið um að það hafi verið rétt hjá því að segja frá vegna þess að barn sem er beitt kynferðislegu ofbeldi af einhverjum nátengdum gæti fundið fyrir sektarkennd af því að hafa uppljóstrað leyndarmálinu. Barnið gæti verið hrætt við þann sem braut gegn því vegna þess að barninu eða einhverjum nákomnum því hafði verið hótað illu ef það segði frá.
  • Segðu barninu að það sé ekki því að kenna að það hafi verið misnotað. Þetta skiptir máli þar sem mörg börn hafa fengið þau skilaboð frá brotamanni að þau eigi þetta skilið vegna einhvers sem þau gerðu.
  • Segðu barninu að þú munir vernda það og reyna að hindra að áframhaldandi ofbeldi geti átt sér stað.
  • Leyfðu barninu að tala um reynslu sína hvenær sem það vill, það hjálpar því.

Viðurkenndu það sem barnið segir.

  • Ekki grípa fram í fyrir barninu og spyrja leiðandi spurninga.
  • Ekki ýta á barnið að halda áfram að segja frá eða reyna að fá fram nákvæmari upplýsingar ef barnið er ekki viljugt til að segja frá því.
  • Ekki nota orð sem eru vanalega ekki í orðaforða barns þegar þú ræðir við það um upplifun þess.
  • Ekki „leiðrétta“ eða bregðast við með setningum eins og „af hverju sagðir þú mér þetta ekki fyrr“ eða „af hverju leyfðir þú viðkomandi að gera þetta við þig“.
  • Ekki gagnrýna frásögn barnsins eða draga hana í efa þó hún hljómi fjarstæðukennd eða þú takir eftir augljósum staðreyndarvillum í frásögn.
  • Reyndu að koma því til skila til barnsins að því sé óhætt að ræða þessa hluti. Ef barnið nefnir þetta ekki oftar er rétt að ítreka það við barnið að því sé óhætt að tala um það ef þú telur það þurfa þess.

Af hverju á að tilkynna til barnaverndar, 112 eða lögreglu?

  • Börn eru hrædd um að þeim verði ekki trúað ef þau taka af skarið og segja frá.
  • Börn eru hrædd um að verða tekin af heimilum sínum ef þau segja frá.
  • Þegar börn eru misnotuð eru þau oftast of hrædd til að segja einhverjum frá. Þau geta sjaldnast leitað hjálpar sjálf og oft er ofbeldismaðurinn einhver nákominn barninu, einhver sem barnið ætti að geta treyst.
  • Mikilvægt er að tilkynna allar grunsemdir um kynferðislegt ofbeldi. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að líklegt er að ofbeldið haldi áfram þangað til gripið er inn í. Einnig þar sem nánustu aðstandendur barnsins eru oft á tíðum í skömm yfir málinu eða of stressaðir til að tilkynna og leita hjálpar.
  • Spurðu sjálfa(n) þig að því hvort þú haldir að barninu sé óhætt miðað við það sem þú veist. Ef svarið er nei skaltu tilkynna það án tafar. Ef svarið er já en þú heldur samt áfram að hafa áhyggjur þá skaltu tilkynna það án tafar. Ef þú ert í vafa og veist ekki hvað skal gera hafðu þá samband við barnavernd og fáðu ráðleggingar.

Nokkur ráð sem má reyna að nota til að sporna við því að barn verði beitt kynferðislegu ofbeldi:

  • Kenndu barninu þínu réttu nöfnin á kynfærum sínum.
  • Forðastu að einblína bara á hættuna af ókunnugum vegna þess að oftast eru börn misnotuð af einhverjum sem þau þekkja og treysta.
  • Kenndu barninu hvað er heilbrigt og öruggt varðandi líkamann og byrjaðu eins snemma og mögulegt er eða um leikskólaaldur.
  • Komdu því vel til skila hjá barninu að það hafi ákvörðunarrétt um hvað gert er við líkama þeirra.
  • Kenndu barninu að segja nei þegar það vill ekki vera snert hvort sem um er að ræða kynfæri eða aðra hluta líkamans.
  • Segðu barninu að það hafi rétt á að neita að snerta annað fólk ef það vill það ekki.
  • Kenndu barninu þínu muninn á góðum leyndarmálum eins og óvæntum afmælum og þess háttar og vondum leyndarmálum eins og þegar barnið á að geyma leyndarmál fyrir fullt og allt.
  • Kenndu barninu þínu að fara aldrei neitt með ókunnugum til dæmis ekki í bíl eða inn í hús.
  • Treystu innsæi þínu, ef þú hefur vonda eða skrítna tilfinningu fyrir því að skilja barnið þitt eftir hjá einhverjum, þá skaltu sleppa því.
  • Vertu vakandi fyrir því ef barninu er sýndur óvenjulega mikill áhugi af einhverjum.
  • Foreldrar/forsjáraðilar eiga að vita hvar barnið er á öllum tímum sólarhringsins.
  • Nauðsynlegt er fyrir foreldra að þekkja vini barna sinna og þær aðstæður sem þau búa við.
HVER BRÝTUR Á BARNI?

Aðilar sem brjóta kynferðislega gegn börnum geta verið einstaklingar af báðum kynjum og á öllum aldri.

  • Ofbeldismenn eru að stærstum hluta karlar (80%) og meðalaldur þeirra um 40 ára (Anna Kristín Newton og Þórarinn Viðar Hjaltason, 2011).
  • Staðalímynd ofbeldismanna í kynferðisbrotamálum hefur verið að mesta hættan stafi af ókunnugum. Veruleikinn er sá að á bilinu 60%-70% þeirra sem beita börn kynferðislegu ofbeldi eru tengdir þeim fjölskylduböndum eða eru vinir og kunningjar þeirra (Abel og Harlow, 2001).
  • Á Íslandi er um 5-10% ungra gerenda (<18 ára) kvenkyns (Sigurðsson, Guðjónsson, Ásgeirsdóttir og Sigfúsdóttir, 2010).
  • Erlendar rannsóknir hafa sýnt að um 30-50% kynferðisbrota gegn börnum eru framin af einstaklingum yngri en 18 ára (Barbaree og Marshall, 2008).
  • 56% af þeim karlkyns ofbeldismönnum og 87% af þeim kvenkyns ofbeldismönnum sem höfðu beitt þau börn sem leituðu til Barnahúss á árunum 2006-2011 kynferðisofbeldi voru yngri en 15 ára (Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir, 2013).

Þegar rætt er um unga aðila er talað um börn og ungmenni sem sýna af sér óæskilega kynferðislega hegðun. Áhersla er lögð á óæskilegu hegðunina, skortur er á innsæi og samkennd þar sem þau gera sér ekki grein fyrir afleiðingum hennar.

Með auknu aðgengi að tölvum og snjallsímum reynist auðvelt að nálgast klámefni á veraldarvefnum. Börn hafa lítinn þroska til að átta sig á áhrifum og afleiðingum slíks efnis.

  • Klám getur haft áhrif á viðhorf unglinga, sérstaklega hvað varðar kynferðislegar venjur og klám áhorf, og getur haft veruleg áhrif á kynhegðun þeirra.

Í rannsókn á ungu fólki sem nota á netið daglega viðurkenna:

  • 1163 (77,9%) einstaklingar að hafa horft á klám.
  • 93 (8%) af þeim hafa horft á klám daglega.
  • Strákar 686 (59%) sem hafa aðgang að klámsíðum notfæra sér slíkt sem örvun.
  • 255 (21,9%) aðilar skilgreina notkun sem vana.
  • 116 (10%) greina frá því að klám áhorf dragi úr kynferðislegum áhuga á að tengjast öðrum aðila.
  • 106 (9,1%) aðilar telja sig vera orðin háðan efninu, einhverskonar fíkn (Damiano Pizzol, Alessandro Bertoldo og Carlo Foresta, 2015).

Ef barn eða unglingur sýnir óæskilega kynferðishegðun

Ef þú hefur áhyggjur af óæskilegri kynferðislegri hegðun barns eða unglings og óviss um hvað sé best að gera, hafðu samband við Barnaverndarnefnd, Barnahús eða getur fengið nánari upplýsingar hjá blattafram@blattafram.is

Hér er bæklingur frá Barnahúsi um eðlilega eða óeðliega kynferðislega hegðun barna. Bæklingur

Ef þú hefur áhyggjur af þinni hegðun

Ef þú ert að misnota barn kynferðislega – eða leggja drög að því að búa barn undir misnotkun. Þá hvetjum við þig til að endurskoða það og leita þér aðstoðar. Með því að beita barn kynferðisofbeldi ertu að skaða æsku þess og heilsu. Það er hægt að fá hjálp. Hér á landi eru sálfræðingar sem bjóða uppá þjónustu varðandi meðferð, greiningu og áhættumat á einstaklingum sem framið hafa kynferðisbrot. Nánari upplýsingar hjá blattafram@blattafram.is

Myndbönd

Leiðin áfram

Á síðunni leidinafram.is er að finna myndbönd sem veita börnum, unglingum, foreldrum og forsjáraðilum innsýn og upplýsingar um ferli kynferðisbrotamála í réttarvörslukerfinu. Myndböndin geta auðveldað þau skref sem þarf að taka verði barn eða unglingur fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Fáðu já!

Fáðu já! er 20 mínútna stuttmynd sem ætlað er að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum. Þar er einnig sjálfspróf og ýmis konar fróðleikur um kynlíf og kynheilbrigði. Hér má horfa á myndina.
Rafrænt kynferðisofbeldi

Rafrænt kynferðisofbeldi gegn börnum felst í því að börn eru birt á kynferðislegan hátt og látin taka þátt í kynferðislegum athöfnum á myndum eða í myndböndum sem sett eru á netið. Slíkt efni er ólöglegt og er hægt að tilkynna til Ábendingalínu Barnaheilla sem rekin er í samstarfi við lögreglu. Skoðun og dreifing á kynferðislegum myndum af börnum er einnig ólögleg og refsiverð. Afar mikilvægt er að vitundarvakning fari fram í samfélaginu um alvarleika þess að brjóta ítrekað gegn börnum með dreifingu mynda sem sýna þau á kynferðislegan hátt.