Barnaheill – Save the Children hafa sett upp Barnvæn svæði á átaka- og hamfarasvæðum víða um heim. Tilgangur Barnvænna svæða er að skapa umhverfi þar sem börn geta komið saman til að leika sér og tekið þátt í starfsemi sem er fræðandi og þau hafa tækifæri til þess að efla félags- og tilfinningalega færni. Á Barnvænum svæðum er lögð áhersla á valdeflingu barna og er þeim kennt hvert skuli leita þegar þau þurfa á aðstoð að halda.

Barnvæn svæði eru eitt af lykilverkefnum Barnaheilla sem stuðla meðal annars að því að vernda börn sem búa á átaka- og hamfarasvæðum fyrir því að verða fyrir líkamlegum skaða og sálrænum áföllum. Einnig er markmiðið að aðstoða börn við áframhaldandi nám og þroska, á meðan og strax á eftir að hættuástand hefur skapast.

Á Barnvænum svæðum er unnið að því að draga úr þeim afleiðingum sem börn orðið fyrir vegna hættuástands. Einnig er lögð áhersla á að vitsmunalegur þroski barna haldi áfram að þróast og þau fái tækifæri til þess að læra á mismunandi stigum. Í mörgum tilvikum geta Barnvæn svæði hjálpað til við að lágmarka skaðann af því sem truflun á hefðbundinni skólagöngu getur valdið. Með Barnvænum svæðum er lögð áhersla á að börn séu efld til þess að taka eigin ákvarðanir sem eru heilbrigðar og jákvæðar og ekki eigi að leggja óraunhæfa ábyrgð á þeirra herðar. Á Barnvænum svæðum geta börn fengið aðstoð við að upplifa öryggi og byggja upp sjálfstraust sitt.

Barnvæn svæði er umhverfi sem er undir eftirliti starfsfólks Barnaheilla sem hefur fengið þjálfun í að vinna með börnum og geta foreldrar og forráðamenn skilið börn sín þar eftir á meðan þau sækja vatn og fæði, endurbyggja heimili eða leita að nýjum leiðum til að afla tekna. Einnig fá foreldrar og forráðamenn tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í starfssemi Barnvænna svæða, deila upplýsingum, fá ráð og leiðbeiningar og aðstoð við að byggja upp sjálfstraust og hæfni til þess að vernda börn sín og veita þeim viðeigandi umönnun.