Um einelti

Vinatta_BlarrSamkvæmt þeirri hugmyndafræði sem Vinátta byggist á er einelti félagslegt, menningarlegt  og samskiptalegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Einelti er slæmt mynstur eða samskipti sem þróast í aðstæðum og umhverfi  þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum og viðmið um hvað sé „rétt“ eða „rangt“ eru ósveigjanleg.  Einelti þrífst ekki síst í umhverfi sem börn hafa ekkert val um að vera í og komast ekki burt úr, svo sem skóla eða bekkjardeild. 

Einelti eða samskiptamynstur sem getur leitt til eineltis eða útilokunar má rekja allt niður í leikskóla. Því er mikilvægt að strax í leikskóla sé byggt upp umhverfi og andrúmsloft þar sem einelti fær ekki að þróast.

Það sem einkennir barnahópa þar sem einelti nær ekki að þrífast er hár þröskuldur umburðarlyndis. Þar er samkennd, börnin njóta virðingar og viðurkenningar. Þau finna sér sinn eðlilega sess í hópnum, sama hver þau eru, hvernig þau líta út, hvaða hlutverki þau gegna og hvers þau eru megnug. Gildi margbreytileikans er virt og umburðarlyndi fyrir því að hópurinn er samsettur úr mismunandi einstaklingum með mismunandi einkenni og mismunandi styrkleika. Ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar breyti einkennum sínum eða útliti til að falla í hópinn. Þar er jákvæður og góður skólabragur.

Í Vináttu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, samkennd, umhyggju, vináttu og vellíðan og efnið er því forvarnarverkefni gegn einelti. Vinátta nýtist þannig í því hlutverki skóla að stuðla að almennri menntun barna með áherslu á félags- og tilfinningaþroska og hæfni þeirra til að takast á við áskoranir daglegs lífs.

Birtingarmyndir eineltis

Einelti hefur ýmsar birtingarmyndir sem fela allar í sér einhvers konar niðurlægingu fyrir þann sem fyrir því verður:

  • Niðurlægjandi athugasemdir, t.d. hvað varðar útlit, klæðnað eða athafnir, uppnefni, fliss eða augngotur.
  • Útskúfun og afskiptaleysi. Barn má ekki vera með í leik eða er ekki boðið með á atburði, svo sem í afmæli. Það er ekki látið vita þegar eitthvað stendur til. Ekki er tekið tillit til skoðana og tillagna barns og þær virtar að vettugi.
  • Eigum er stolið, þær vanvirtar eða eyðilagðar.
  • Einstaklingur er þvingaður til að gera eitthvað sem brýtur niður sjálfsvirðingu hans og stríðir gegn réttlætiskennd.
  • Líkamlegt ofbeldi.
  • Sögusagnir og lygi eru bornar út um einstakling eða fjölskyldu hans.

Einelti getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem fyrir því verður en einnig fyrir geranda og hópinn í heild. Rannsóknir á einelti sýna að þar sem einelti hefur fengið að þrífast í barnahópi hverfur samhygðin sé ekkert að gert til að stöðva eineltið. Bæði fullorðnir og börn segja óhikað að sá sem varð fyrir einelti beri ábyrgðina. „Siðferðishrun“ verður þegar hópur skrúfar fyrir samhygðina, lokar augunum fyrir eineltinu eða telur það eðlilegt og jafnvel stuðlar að því að það er endurtekið aftur og aftur (Helle Rabøl Hansen, 2005).

Tekist á við samskiptavanda eða einelti

Þegar tekist er á við samskiptavanda eða ágreining er mikilvægt að allir komi út úr aðstæðum með reisn, en börnin séu ekki dregin í dilka sem gerendur eða þolendur. Þannig er vandinn ekki leystur þegar til langs tíma er litið. Skoða þarf hvernig hægt er að breyta aðstæðum barnanna og beita aðferðum eða setja reglur eða viðmið sem koma í veg fyrir árekstra eða útilokun einstaklinga. Því ætti ávallt að skoða hópinn sem heild en ekki einblína á að einhver sé slæmur og annar góður, ekki á geranda og þolanda.

Dæmi: Samskiptavandi kemur upp þegar fara á í gönguferð og börnin eiga að para sig saman tvö og tvö. Einhver verður út undan. Lausn til að koma í veg fyrir vandann: Börnin draga samstæðuspjöld áður en haldið er í göngu og þau sem fá samstæður ganga saman. Sams konar aðferðir er hægt að nota við hvers konar hópaskipti.

Hugtakið einelti merkir ekki alltaf það sama í hugum allra. Einelti er flókið fyrirbæri en mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk skóla hafi sameiginlegan skilning á hugtakinu. Í Vináttu-verkefni Barnaheilla er gengið út frá því því að:

–     Einelti sé hópfyrirbæri.
–     Einelti sé oftast kefisbundið og markvisst.
–     Einelti geti verið beint eða óbeint í formi útilokunar.
–     Einelti eigi sér stað í félagslegu umhverfi sem barnið hefur ekkert val um að vera í.
                                                                                                                                                                                  (Rabøl Hansen og Henningsen, 2010).

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að neikvæð samskipti eigi sér stað í barnahópi er ekki endilega um einelti að ræða. Einstaka árekstrar á milli barna, stríðni og önnur neikvæð hegðun er að sjálfsögðu ekki af hinu góða og vinna þarf með að bæta samskiptin og koma í veg fyrir að þessi samskipti verði ekki að einelti.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum íslenskum lögum eiga öll börn rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Einelti er ofbeldi og því brot gegn mannréttindum barna. Þó að mikilvægast sé að fyrirbyggja einelti er jafnframt mikilvægt að allir sem lenda í einelti fái aðstoð og stuðning.