Grunnskólar – verkefni – miðstig

Verkefni – miðstigLög um grunnskóla, aðalnámskrá og grunnþættir menntunar eiga að tryggja börnum þau réttindi sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og jafnframt að tryggja að þau fái menntun í mannréttindum.

Námsvefurinn barnasattmali.is og veggspjöld um Barnasáttmálann eru sérstaklega ætluð fyrir grunnskóla. Veggspjöldin og bækling má nálgast á námsvefnum. Grunnskólum og frístundaheimilum tengd grunnskólum er því sérstaklega bent á að vinna með það efni sem þar er að finna í tilefni af Degi mannréttinda barna. Á vefnum er ýmis fróðleikur og gagnvirk verkefni fyrir nemendur auk ýmissa upplýsinga fyrir kennara og foreldra um Barnasáttmálann og mannréttindi barna, ásamt kennsluhugmyndum. Gagnvirku verkefnin fyrir yngri börnin nefnast: Réttindi og forréttindi – Um Barnasáttmálann og aðrar skuldbindingar – Allir eru einstakir – Fjölskyldur – Skólinn. Fyrir eldri börnin eru gagnvirku verkefnin: Réttindi allra barna – Heilsa, menntun, þroski – Öryggi og vernd – Fjölskyldan

Í kennsluhugmyndum er bent á ýmis verkefni sem hægt er að vinna sem ítarefni við gagnvirku verkefnin á vefnum.

Í tilefni af Degi mannréttinda barna er kjörið að vinna þvert á árganga og stig og hafa afmælis- eða uppskeruhátíð í lokin með kynningu á verkefnum eða réttindagöngu þar sem áréttað er hvað er vel gert og hvað þarf að bæta og hvað þarf að gera til að uppfylla þau réttindi sem börn hafa samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvað hefur áunnist frá því sáttmálinn var samþykktur og hvar er enn verk að vinna?

Þar sem því er komið við gætu allir grunnskólar sveitarfélagsins og jafnvel leik- og framhaldsskólar sameinast í réttindagöngu.

Grunnþættir mannréttinda barna

Grunnþættirnir eins og þeir birtast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru vernd, umönnun og þátttaka:

Vernd: Í Barnasáttmálanum er kveðið á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem til lífs og þroska. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, gegn vanrækslu og einelti. Einelti getur átt rætur sínar að rekja allt niður í leikskóla með þvi að barn er útilokað frá leik eða sett er út á útlit eða athafnir þess. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkt.

Umönnun: Öllum börnum á að tryggja velferð á sviði menntunar, heilbrigðis og félagsmála. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna en allir þeir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra bera einnig ábyrgð – og það gera stjórnvöld líka.

Þátttaka: Öll börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða og taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Jafnframt er mikilvægt að börnum sé leiðbeint við að setja sig í spor annarra, taka tillit og hlusta á aðra.

Við vinnu verkefnanna er gott að hafa þessa grunnþætti að leiðarljósi.

Hér eru að auki hugmyndir að viðfangsefnum sem hægt er að vinna sérstaklega í tengslum við Dag mannréttinda barna:

Verkefni miðstigs geta tengst flestum námsgreinum og eru kjörin til samþættingar ýmissa greina. Jafnframt er tilvalið að vinna þvert á árganga og stig, hafa vinnubrögð sem fjölbreyttust, fá nemendur til að skipuleggja vinnuna og velja viðfangsefni. Hafa svo uppskeruhátíð í lokin, með kynningu á verkefnum eða réttindagöngu, þar sem áréttað er hvað er vel gert og hvað þarf að bæta. Til að vinna með Barnasáttmálann getur skólinn útvegað sér bæklinga sem sjá má hér.

1.  Er farið eftir barnasáttmálanum?

Með innleiðingu Barnasáttmálans er átt við að ákvæði sáttmálans séu komin til framkvæmda, svo sem hjá sveitarfélögum eða skólum, þ.e. að ákvæði sáttmálans endurspeglist í raunverulegri vinnu með börn og/eða þar sem unnið er að málefnum þeirra.

  • Kanna hvort skólinn sé með fræðslu um Barnasáttmálann. Hvaða árgangar fá fræðslu og um hvað? Hvernig vilja nemendur læra um réttindi sín? Hvaða efni væri best að nota? Hvaða efni er til? Nemendur meta og gera tillögur til úrbóta ef þeir telja þörf á.
  • Nemendur skoði greinar 2–40 í Barnasáttmálanum og merki við hverjir eiga að sjá til þess að þeim sé framfylgt; foreldrar, skóli eða aðrir og þá hverjir.

2. Bækur og barnasáttmálinn

Nemendur skoði barnabækur, námsbækur eða aðrar bækur með tilliti til Barnasáttmálans. Hvernig eru samskipti foreldra og barna? Hvernig eru agamál? Hvernig er komið fram við börn? Hvernig koma börn fram hvert við annað? Eru réttindi sögupersónanna tryggð og ef ekki, hvað þarf til? Gaman er að skoða bækur frá mismunandi tíma og bera saman. Var staða barnanna í bókum frá því fyrir 20–30 árum önnur en hún er í nýrri bókum. Hvað hefur breyst?

3. Dagblöð og vefmiðlar

Nemendur skoði dagblöð og vefmiðla með tilliti til umfjöllunar um börn. Nemendur velji greinar og fréttir. Er umfjöllunin jákvæð? Er verið að tala um börnin eða við þau? Eru foreldrar að ræða um börn sín? Hver er réttur barna til að ekki sé fjallað um um þau, málefni þeirra og erfiðleika í fjölmiðlum? Ekki er hér verið að tala um samfélagsmiðla, þar sem aldurstakmark á þeim miðlum er 13 ár.

4. Öll börn eiga sama rétt

Ein grundvallargrein Barnasáttmálans er 2. grein þar sem kveðið er á um að öll börn skuli njóta réttinda sáttmálans og ekki megi mismuna þeim eftir stöðu þeirra eða foreldra þeirra.

Sem dæmi má nefna að öll börn eru í skóla og þannig er þeim ekki mismunað. Annað gildir um tómstundir. Sum þjónusta er gjaldfrjáls og geta því öll börn nýtt hana án tillits til efnahags foreldra, en annað kostar.

Hvað er mismunun? Hvað er átt við og hvernig er hægt að tryggja að börnum sé ekki mismunað? Telja þau að einhverjum börnum eða hópum barna sé mismunað á Íslandi? Hvað með erlendis? Hvernig er aðgengi fatlaðra í skólanum og á öðrum stöðum sem börnin sækja?

Nemendur finni dæmi um hvað vel er gert og hvað megi bæta. Sendi bréf og áskoranir ef með þarf.

5. Mismunandi fjölskyldur, mismunandi uppruni

Sérstaklega er verðugt að vinna með mismunandi uppruna barnanna og mismunandi fjölskyldugerðir út frá þeirri grundvallarhugsun að margbreytileikinn sé styrkleiki, auðgi hópinn og samfélagið. Viðfangsefni sem þetta býður upp á fjölbreytta úrvinnslu; landakort, tungumál, línu- og stöplarit, þjóðbúninga, matargerð, hefðir og fleira.

6. Jákvæð mismunun

Sumir einstaklingar þurfa á einhverri aðstoð eða tækjum að halda til að standa jafnfætis öðrum. Dæmi um slíkt getur verið blindrahundur, hljóðbækur eða aðstoð við nám. Sumir einstaklingar geta þurft aukinn stuðning á einu sviði en hafa mikinn styrkleika á öðrum sviðum. Mikilvægt er að leggja áherslu á að allir hafa einhverja styrkleika og á gildi margbreytileikans. Nemendur geta skoðað verkefni á barnasattmali.is sem tengjast jákvæðri mismunun, skoða vefmiðla, bækur eða tímarit og finna dæmi um jákvæða mismunun eða þegar ekki hefur verið beitt jákvæðri mismunun þar sem slíkt hefði verið við hæfi, búa til sögur, leikrit eða myndir um jákvæða mismunun.

7. Verum vinir, alls konar og mismunandi

Einn af grunnþáttum í þroska og velferð barna er að þeim líði vel í skólanum og eigi félaga og vini. Það er á ábyrgð skólans að tryggja börnum umhverfi þar sem ríkir samkennd, virðing fyrir margbreytileikanum og góður skólabragur, umhverfi þar sem öll börnin eiga félaga og ekki er jarðvegur fyrir einelti. Einelti er oft mest áberandi á miðstigi grunnskóla, en hefur þá jafnvel fengið að þrífast árum saman í bekknum eða skólanum. Samkvæmt nýjustu rannsóknum á einelti þrífst einelti helst þar sem er skortur á góðum félagsanda í hópnum og hópurinn á sér ekkert sameiginlegt. Þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum og mjög ósveigjanleg viðmið eru um það hvað sé „rétt“ eða „rangt“. Einelti verður því sem límið í hópnum.

Til þess að búa börnum umhverfi þar sem er ekki jarðvegur fyrir einelti er mikilvægt að líta á margbreytileikann í hópnum sem styrkleika og ekki gera ráð fyrir að börn breyti klæðnaði sínum eða öðru til að falla í hópinn. Til þess að stuðla að samkennd og góðum skólabrag er hægt að vinna ýmis verkefni. Áður en verkefnavinna er hafin er mikilvægt að gæta að því hvernig er valið í hópa og koma þannig í veg fyrir að einhverjir nemendur upplifi að þeir séu ekki vinsælir sem vinnufélagar.

Dæmi um viðfangsefni: Hrósum, nefnum styrkleika bekkjarfélaganna og hvað sameinar hópinn. Hvað getur hópurinn gert allur saman?

8.  Réttur barna til að tjá sig og hafa áhrif

12. og 13. grein Barnasáttmálans fjallar um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum er þau varða og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Hvernig er þessu framfylgt í skólanum og samfélaginu?

  • Nemendur skrá niður að hvaða leyti þeir hafa áhrif á skólastarf, hverju væri hægt að breyta og hverju ekki? Hér gætu þeir skoðað nemendaráð og önnur ráð barna í skólanum og verksvið þeirra.
  • Skoðanadagur: Einum degi eða dagparti er sérstaklega varið í að nemendur láti skoðanir sínar í ljós. Mikilvægt er að brýna fyrir þeim að vera málefnaleg og að ekki eigi að láta skoðanir í ljós um ákveðna einstaklinga heldur málefni.
  • Skólaþing: Nemendur haldi þing þar sem þeir fjalla um sérvalin málefni. Tilvalið er að velja málefni sem tengjast mannréttindum barna. Þingið gæti verið þannig að einhverjir nemendur eigi að vera meðmælendur málefnisins, aðrir mæla á móti og svo þarf að koma með niðurstöðu.

9. Réttindaganga – afmælisveisla – uppskeruhátíð

Kjörið er að halda uppskeruhátið þar sem afrakstur verkefna er kynntur og haldið er upp á afmæli Barnasáttmálans. Einnig er hægt að fara í réttindagöngu þar sem nemendur benda á hvar pottur er brotinn hvað varðar mannréttindi barna.