Dagur mannréttinda barna 2021

Áskorun til skólastjórnenda og kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum

Barnaheill skora á skólastjórnendur og kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum til að stuðla að fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Degi mannréttinda barna sem haldinn er þann 20. nóvember ár hvert. Samtökin mælast að þessu sinni  til þess að notast við þrenns konar verkefni sem kennarar geta valið úr og útfært fyrir nemendur í kringum daginn sem ber nú upp á laugardegi. Fyrsta verkefnið snýr að framtíðarsýn nemenda, annað að upplifun og lærdómi af Covid-19 og hið þriðja að nemendaþingi í skólanum. 

 

  Bréf til allra skóla 2021          Nemendaþing í skólum 2021

 

1. „Ég eftir 20 ár“ – Smásögur og myndsköpun

Í síbreytilegu samfélagi er oft erfitt að átta sig á hvernig foreldrar og kennarar geti búið börn sem best undir lífið. Störfin sem börn dagsins í dag munu gegna seinna meir er jafnvel ekki búið að finna upp ennþá og hver iðnbyltingin á fætur annarri ríður yfir. Samhliða þeim miklu vangaveltum sem eru ríkjandi um vægi hinna ýmsu námsgreina í skólanum og sífellt hærri raddir um að „skólinn eigi að kenna hitt og þetta“ er fróðlegt að spyrja börnin hvernig þau sjálf sjá framtíðina fyrir sér. Með þessu verkefni eru börnin hvött til að skrifa smásögu, útbúa myndband, teikna mynd eða tjá sig á einhvern annan máta sem er lýsandi fyrir líf þeirra eftir 20 ár. Hvar verða þau? Hvað verða þau að gera? Hvernig líður þeim? Hvað þurftu þau að gera til að vera á þeim stað sem þau eru á eftir 20 ár? Þið megið svo gjarnan senda okkur afraksturinn á netfangið barnaheill@barnaheill.is og við munum gera frásagnir þeirra sýnilegar á vefsíðu Barnaheilla.

2. Hvað hef ég lært af Covid?

Á dögum Covid-19 höfum við öll fundið fyrir þeirri röskun sem okkar daglega líf hefur orðið fyrir. Þið sem skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk hafið með starfi ykkar unnið mikið þrekvirki að sjá til þess að líf barnanna hefur náð að halda eins miklum stöðugleika og kostur er á. Í ljósi þessara aðstæðna teljum við mikilvægt að fá innsýn í upplifun barna og ungmenna af þessum óvenjulegum tímum, líðan þeirra og hvaða áhrif þessar aðstæður hafa haft á líf þeirra. En ekki síður að hvetja nemendur til þess að líta á hvaða breytingar hafa orðið á þeirra lífi, er eitthvað nýtt sem þau hafa lært eða er kannski eitthvað sem þau eru hætt eða gera eða gera jafnvel öðruvísi nú en áður? Því hvetjum við ykkur til að biðja nemendur um að skrifa niður setningar, orð og/eða ummæli sem eru lýsandi fyrir hvað þau hafa lært af Covid-19. Þessum setningum viljum við biðja ykkur um að safna saman og senda okkur á netfangið barnaheill@barnaheill.is Allar setningarnar munu birtast á vefsíðu samtakanna nafnlaust og verður mjög fróðlegt að sjá afraksturinn.

3. Nemendaþing í skólum

Ein af mörgum leiðum til að stuðla að mannréttindum barna er að setja á fót svokölluð nemendaþing. Með þeim gefst börnum og ungmennum kostur á að koma hugmyndum sínum og tillögum á framfæri og hlusta á hvað aðrir hafa að segja, það er nefnilega líka mikilvægt að kunna að hlusta! Kennarar geta nýtt sér slík þing sem lið í að vinna með grunnþáttinn lýðræði- og mannréttindi. Við hvetjum ykkur því til að hafa nemendaþing í skólanum sem öll börn taka þátt í. Þið getið valið afmarkað þema eins og til dæmis jólin, símanotkun í skólum eða loftslagsbreytingar. Þið getið líka kallað eftir hugmyndum frá nemendunum sjálfum. Hér eru hugmyndir um nemendaþing sem þið getið notað til hliðsjónar við skipulagningu nemendaþings og að sjálfsögðu takið þið mið af þeim aðstæðum sem eru í ykkar skóla.

Segið okkur frá

Endilega segið okkur frá hvernig tekst til með nemendaþingið og sendið okkur fréttir af því á netfangið barnaheill@barnaheill.is Við söfnum öllum gögnum saman og munum koma niðurstöðunum á framfæri auk þess verða þær sýnilegar á vefsíðu Barnaheilla.

Fræðsla um Barnasáttmálann í skólum

Síðastliðin ár hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi sent bréf til allra skólastjórnenda og hvatt þá til að stuðla að fræðslu fyrir öll börn um Barnasáttmálann á þessum degi. Samtökin hvetja kennara barna á öllum aldursstigum að framfylgja því og festa þennan dag í sessi.