Hlustum.is - Landsátak um bætta líðan barna

Hlustum.is er landsátak um bætta líðan barna. Aðstandendur verkefnisins eru SAMFOK, Heimili og skóli, Barnaheill, Samfés, Bergið, Heilsugæslan og Rannsóknir og greining.

Verkefnið er að koma á vitundarvakningu um vernd barna gegn ofbeldi og forvarnir innan fjölskyldna, með því að gera auglýsingar til að hvetja foreldra og aðra fullorðna til að hlusta á börn og skapa aðstæður í lífi barna svo þau megi og geti alltaf treyst foreldrum eða öðrum nákomnum, geti talað við þá um hvaðeina, gleði og sorgir, tilhlökkun og áhyggjur.

Hópurinn hefur sammælst um að mikilvægasta forvörnin fyrir börn er að geta átt einhvern til að leita til með áhyggjur sínar og kvíða ef eitthvað kemur fyrir það eða það verður fyrir óþægilegri reynslu. Til þess að barn geti og sé líklegra til að leita til foreldris eða annars nákomins fullorðins, þarf barnið að hafa öðlast færni og lært að það sé gott, óhætt og viðeigandi að leita til viðkomandi og mikilvægt er að traust hafi verið skapað á milli einstaklinganna. Þannig þarf að skapa samtalshefð innan fjölskyldna, það þarf að skapa hefð fyrir stundir í nánd og hlustun, þar sem foreldrið er hlustandinn. Þá er mikilvægt að foreldrið hlusti í raun, gefi sér góðan tíma og sé andlega til staðar.

Mikilvægt að leiðbeina foreldrum um viðbrögð við því ef barn segir frá slæmri reynslu, ofbeldi eða áreiti á neti, svo sem að bregðast ekki við með reiði eða annars konar óttaviðbrögðum. Ekki refsa börnum fyrir að segja frá t.d. með því að banna þeim að hafa símann sinn eða loka fyrir aðgang þeirra að netinu/samfélagsmiðlum. Slíkar aðferðir leiða til félagslegrar útilokunar barnsins og láta barninu líða sem það beri ábyrgð á því að einhver annar beiti það ofbeldi. Betra að taka styðjandi við upplýsingum sem barnið gefur um óeðlileg samskipti á neti og bjóða því aðstoð við að leysa úr vandanum eða finna leiðir út úr honum.

Samstarfshópurinn vill þannig koma á vitundarvakningu um hlustun foreldra og/eða forsjárfólks á börn. Koma má í veg fyrir margan vanda, m.a. ofbeldi, ef barn veit að það á alltaf skjól og áheyrn hjá einhverjum nákomnum, foreldri, fullorðnu systkini, afa eða ömmu, eða öðrum. Barnið er þannig líklegra til að geta sagt frá ef erfiðleikar að því steðja.

Inn á Hlustum.is er hægt að lesa nánar um verkefnið.