Hér eru ýmsum spurningum svarað

Hvað er kynferðisofbeldi?

Hvers kyns kynferðisleg athöfn milli fullorðins einstaklings og ólögráða einstaklings þar sem annar aðilinn hefur vald yfir hinum eða tveggja ólögráða einstaklinga þar sem annar aðilinn hefur vald yfir hinum

Hvað á að gera þegar barn segir frá?

Það er aldrei auðvelt fyrir barn að greina frá kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi. Oft hefur barnið þurft að telja í sig kjark í langan tíma og stundum segir barnið frá slíku án þess að ætla sér það.

Ef barnið tekur það skref að segja frá slíkri reynslu er mikilvægt að bregðast rétt við:

 • Trúðu barninu.
 • Tilkynntu málið til Barnaverndarnefndar.
 • Láttu barnið vita að það var rétt að segja frá.
 • Fullvissaðu barnið um að ofbeldið sé ekki því að kenna.
 • Hlustaðu á barnið en ekki yfirheyra það.
 • Segðu barninu að þú heyrir það sem það er að segja.
 • Mundu að þín viðbrögð skipta máli fyrir horfur barnsins og hvernig það tekst á við afleiðingar ofbeldisins.

Hvert get ég leitað?

Ef þú heldur að brotið hafi verið á barni og því misboðið á einhvern hátt skalt þú tilkynna til Barnaverndarnefndar þar sem barnið býr. Leyfðu barninu að njóta vafans og láttu fagfólk meta þörf á aðgerðum. Einnig getur þú leitað til Neyðarlínunnar 112 og þeir geta svarað spurningum um hvað sé best að gera næst.

Mig grunar að verið sé að brjóta á barni, hvað á ég að gera?

Vandaðu viðbrögðin. Haltu ró þinni og varastu að sýna heiftarleg viðbrögð. Þú sendir barninu mikilvæg skilaboð með skilningi þínum og viðbrögðum. Þú veist hvernig þú bregst við ef barn dettur af hjóli. Þú ert búinn að fara yfir það í huganum, heldur því ró þinni og ferð með barnið til læknis.

Hver eru einkennin?

Börn sem eru of hrædd til að tala um kynferðisofbeldi geta haft líkamleg eða andleg einkenni. Hér að neðan eru nokkur atriði sem eru mjög mikilvæg.

 • Líkamleg einkenni eru ekki algeng en ber að athuga ef eitthvað er ekki eins og það á að vera, svo sem rispur, bólgur eða blóð í kringum kynfæri.
 • Vandamál sem tengjast kvíða eins og maga- og/eða höfuðverkur getur gert vart við sig.
 • Breyting á hegðun eins og feimni, hræðsla og grátköst geta verið merki um að eitthvað alvarlegt sé að.
 • Óvenjulegur áhugi og vitund um kynferðislegt athæfi eða óviðeigandi framkoma eða atlot miðað við aldur.
 • Hræðsla við einhverja manneskju eða hræðsla við að vera skilin eftir á ákveðnum stað.
 • Breyting á hegðun eins og feimni, hræðslu mótþróa eða grát, án þess að nokkuð hafi gerst.
 • Engin matarlyst eða ofát.
 • Hræðsla við myrkur, martraðir eða svefnleysi. Stundum getur fullkomnunarárátta verið merki um að barnið sé að fela eitthvað.
 • Mundu að stundum eru engin sjáanleg merki!

Hvernig get ég fyrirbyggt að barnið mitt lendi í kynferðisofbeldi?

 • HLUSTAÐU og talaðu við börnin þín á hverjum degi.
 • Kenndu barninu að það má segja nei við hvern þann sem reynir að snerta það.
 • Segðu barninu að fólk sem það þekkir, treystir og elskar gæti reynt að snerta það á óviðeigandi hátt.
 • Leggðu áherslu á að flestir fullorðnir myndu aldrei gera þetta og vilja börnum allt það besta.
 • Útskýrðu að sumir fullorðnir hóta börnum með því að segja að foreldrar þeirra munu verða fyrir einhverju ef þau segja frá. Taktu sérstaklega fram að þeir sem segja það, hafi rangt fyrir sér.
 • Umfram allt hvettu barnið til að þekkja og treysta eigin innsæi – og þú hlustar á þitt innsæi. Ef aðstæður eða manneskja vekur hjá þér grunsemd, fylgdu því eftir því þú hefur líklega rétt fyrir þér.

Góð samskipti milli þín og barna þinna er besta leiðin til að vernda þau gegn kynferðisofbeldi. Traust og gott samband býr til þægilegt andrúmsloft þar sem börn eru ekki hrædd við að leita til foreldra sinna. Nútímaþjóðfélag einkennist af hraða og stressi. Foreldrum sem vinna langan vinnudag, getur reynst erfitt að finna tíma til að slaka á með börnum sínum og ræða við þau, en það er mjög mikilvægt að gefa sér tíma til þess. Talaðu við börnin þín á hverjum degi, og taktu tíma til þess að hlusta og fylgjast með. Lærðu eins mikið og þú getur um hvað barnið þitt er að gera og líðan þess. Hvettu það til að ræða hvað veldur þeim áhyggjum.