Framhaldsskólar – verkefni

Verkefni – framhaldsskóliSamkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum íslenskum lögum teljast einstaklingar börn þar til þeir ná 18 ára aldri. Hluti af nemendum framhaldsskóla teljast því vera börn samkvæmt lögum. Börn eiga samkvæmt Barnasáttmálanum rétt á sérstakri vernd og stuðningi. Með auknum aldri og þroska barna eykst réttur þeirra til ákvarðana um eigið líf og þar með ábyrgð þeirra.

Það er tilvalið fyrir framhaldsskólann að vinna sérstaklega með mannréttindi í tilefni af Degi mannréttinda barna. Skólar eru hvattir til að brjóta upp skólastarf og vinna þvert á námsgreinar, jafnvel í einhverja daga og nýta svo 20. nóvember til kynningar á verkefnum og uppkskeru.

Kjörið er að virkja nemendur við skipulagningu vinnunnar og að úrvinnsla sé sem fjölbreyttust og byggð á þeirra hugmyndum. Enda er slíkt í takti við áherslur Barnasáttmálans.

Á vefnum barnasattmáli.is er fjöldi verkefna sem henta unglingastigi grunnskóla og geta einnig nýst fyrir framhaldsskóla, óbreytt eða útfærð.

Hér eru að auki verkefni sem henta framhaldsskóla:

1. Að verða 18 ára

Nemendur kynna sér hvað breytist við að verða 18 ára; lög og reglur, breytingar á aðgangseyri og fargjöldum og svo framvegis. (Lífsleikni, samfélagsfræði, stærðfræði.)

Hvaða réttindi hvenær? Nemendur kynni sér hvaða réttindi þau hafa öðlast fyrir 18 ára aldur og hvenær.

Framhaldsskólinn minn. Er munur á réttindum, ábyrgð, skyldum eða reglum fyrir nemendur yngri en 18 ára og eldri en 18 ára í skólanum?

2. Er farið eftir Barnasáttmálanum?

Með innleiðingu Barnasáttmálans er átt við að ákvæði sáttmálans séu komin til framkvæmda, svo sem hjá sveitarfélögum eða skólum, þ.e. að ákvæði sáttmálans endurspeglist í raunverulegri vinnu með börn og/eða þar sem unnið er að málefnum þeirra.

 • Nemendur kanni í sínu sveitarfélagi hvort  einhver vinna sé í gangi við innleiðingu Barnasáttmálans hjá sveitarfélaginu og stofnunum þess. Skoða vefsíðu bæjar- eða sveitarfélags, tala við starfsmenn.
 • Nemendur skoði vefsíðu skólans og þær áætlanir sem þar eru með tilliti til hvort þær séu í samræmi við Barnasáttmálann. Þeir skoði einnig hvort orðið Barnasáttmáli komi einhvers staðar fyrir þar.
 • Nemendur velji sér ákveðnar greinar Barnasáttmálans og skoði hvort þeim sé framfylgt í skólanum eða sveitarfélaginu. Dæmi um greinar til að skoða: 2, 3, 8, 12, 13, 15, 17, 24, 27, 32, 33, 34.
 • Nemendur skoði greinar 2–40 og merki við hverjir eiga að sjá til þess að þeim sé framfylgt; foreldrar, skóli, sveitarfélag, ríki, allir þessir aðilar, aðrir og þá hverjir.

3. Bækur, bíó og bann við mismunun

Hvað hefur áunnist hvað varðar bann við mismunun í samfélaginu eða skólakerfinu frá árinu 1989? Hér er hægt að skoða námsbækur, unglingabækur eða aðrar skáldsögur sem skrifaðar voru fyrir tilkomu Barnasáttmálans, kvikmyndir, ljósmyndir eða annað efni og bera saman við íslenskan veruleika nú á dögum, með tilliti til jafnréttis kynja, hlutverka kynjanna og staðalímynda, fatlaðra og ófatlaðra, kynvitundar, kynhneigðar eða annarrar stöðu barna og unglinga.

4. Dagblöð, vefmiðlar og samfélagsmiðlar

Hvernig er birtingarmynd barna og unglinga í þessum miðlum? Er hún samkvæmt þeim réttindum sem börn eiga samkvæmt Barnasáttmálanum? Hver er réttur barna til að aðrir fjalli ekki um þau í þessum miðlum, svo sem foreldrar þeirra?

5. Sjónvarpsþættir og kvikmyndir um börn og unglinga

Hver er birtingarmynd barna og unglinga og njóta sögupersónur þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum? Valin er ein kvikmynd eða þáttaröð til að fjalla um eða nemendahópnum er skipt í minni hópa, þar sem hver og einn hópur velur sér viðfangsefni. Er munur eftir uppruna myndanna?

6. Bærinn minn og bann við mismunun

Ein grundvallargrein Barnasáttmálans er 2. grein þar sem kveðið er á um að öll börn skuli njóta réttinda sáttmálans og ekki megi mismuna þeim eftir stöðu þeirra eða foreldra þeirra.

 • Nemendur lesi greinina og kanni hvernig samfélagið, sveitarfélagið þeirra eða skólinn uppfyllir þessa grein og hverju er ábótarvant. Sem dæmi má nefna að öll börn eru í grunnskóla og skal grunnskólinn vera gjaldfrjáls og þannig er börnum ekki mismunað. Annað gildir um framhaldsskóla og tómstundir. Sum þjónusta er gjaldfrjáls og geta því öll börn nýtt hana án tillits til efnahags foreldra, en annað kostar.
 • Hvernig er þessari grein framfylgt í skólanum? Nemendur skoði til dæmis aðgengi fatlaðra og hvað er gjaldfrjálst og hvað ekki sem tengist skólanum.
 • Nemendur taki saman kostnað við að vera í framhaldsskóla og beri saman kostnað í mismunandi skólum.

7. Jákvæð mismunun

Sumir einstaklingar þurfa á einhverri aðstoð eða tækjum að halda til að standa jafnfætis öðrum. Dæmi um slíkt getur verið blindrahundur, hljóðbækur eða aðstoð við nám. Sumir einstaklingar geta þurft aukinn stuðning á einu sviði en hafa mikinn styrkleika á öðrum sviðum. Mikilvægt er að leggja áherslu á það að allir hafa einhverja styrkleika og á gildi margbreytileikans. Nemendur geta skoðað verkefni fyrir eldri nemendur á barnasattmali.is, sem tengjast jákvæðri mismunun, farið á vefmiðla, í bækur eða blöð og fundið dæmi um jákvæða mismunun eða þegar ekki hefur verið beitt jákvæðri mismunun þegar slíkt hefði verið við hæfi.

8. Samanburður milli þjóða

Flest allar þjóðir heims hafa undirritað barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar með skuldbundið sig til að uppfylla ákvæði hans. Hvernig er stuðningi við börn háttað erlendis? Ýmsar upplýsingar og verkefni er að finna á barnasattmali.is og globalis.is.

9. Réttur barna til að tjá sig og hafa áhrif

12. og 13. grein Barnasáttmálans fjallar um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum er þau varða og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Hvernig er þessu framfylgt í skólanum og samfélaginu?

 • Nemendur skrá niður að hvaða leyti þeir hafa áhrif á skólastarf, hverju væri hægt að breyta og hverju ekki? Hér gætu þeir skoðað nemendaráð og önnur ráð nemenda í skólanum og verksvið þeirra.
 • Skoðanadagur: Einum degi eða dagparti er sérstaklega varið í að nemendur láti skoðanir sínar í ljós. Mikilvægt er að brýna fyrir þeim að vera málefnaleg og að ekki eigi að láta skoðanir í ljós um ákveðna einstaklinga heldur málefni.
 • Skólaþing: Nemendur haldi þing þar sem þeir fjalla um einhver sérvalin málefni. Tilvalið er að velja málefni sem tengjast mannréttindum barna. Þingið gæti verið þannig að einhverjir nemendur eigi að vera meðmælendur málefnisins, aðrir mæla á móti og svo þarf að koma með niðurstöðu.

 10. Einelti

Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga öll börn rétt á vernd gegn öllu ofbeldi og vanrækslu. Einelti er ein tegund ofbeldis. Í einelti felst síendurtekin stríðni, niðurlæging, útilokun eða líkamleg misbeiting. Samkvæmt nýjustu rannsóknum á einelti, þá þrífst það í umhverfi þar sem lítið umburðalyndi er fyrir því að einstaklingar séu mismunandi, gjarnan í umhverfi sem barn hefur ekkert val um að vera í eða ekki, svo sem í skóla eða ákveðnum bekk. Horfið er frá því að skoða einelti út frá ákveðnum „gerendum og þolendum“ þar sem sami einstaklingur getur verið í mismunandi hlutverki við mismunandi aðstæður, í að skoða samskipti og skólabrag. Mikilvægt er að skólar leggi áherslu á gildi margbreytileikans og styrkleika hvers og eins og stuðli að vináttu og samkennd til að koma í veg fyrir einelti. Jafnframt að hvetja börn til að setja sér mörk, vera góður félagi allra og bregðast við ef þeir sjá aðra beitta órétti.

Verkefni:

 • Hvernig vinnur skólinn að því að koma í veg fyrir einelti? Er eineltisáætlun í skólanum? Nemendur skoði áætlunina og meti. Telja þeir að einhverju þurfi að breyta? Er áætlunin eingöngu til að bregðast við einelti eða er reynt að koma í veg fyrir að einelti eigi sér stað.
 • Hrósdagur: Á þessum degi tala allir jákvætt um aðra nemendur, starfsfólk skóla, skólann eða annað. Hrósa hverju öðru og benda á það sem er gott í fari samnemenda og starfsfólks, einnig að hrósa sjálfum sér. Mikilvægt er að starfsfólk taki að fullu þátt í hrósdeginum. Margs konar útfærslur geta verið á svona hrósdegi eða dögum, en mikilvægt er að útbúa einhvers konar skipulag og undirbúa vel, þannig að ALLIR fái hrós, því ALLIR hafa einhverja styrkleika.

11. Skólareglur

Í öllum skólum eru skólareglur. Nemendur skoði reglurnar og meti hvort þær séu í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hægt er að velja einstakar greinar. Sérstaklega mætti skoða reglurnar út frá 2. grein, 3. grein, 12. grein, 13. grein og 28. grein.

Verkefni:

 • „Agi í skólum skal samrýmast mannlegri reisn barnsins og vera í samræmi við sáttmála þennan“ stendur í 28. grein Barnasáttmálans sem fjallar um menntun. Hvað er átt við með þessu. Endurspegla skólareglurnar þetta?
 • Eiga að vera viðurlög við brotum á skólareglum? Umræður um mikilvægi þess að viðurlög séu uppbyggileg og til að breyta hegðun en ekki til að brjóta einstaklinginn niður.

12. Menntun og markmið menntunar

28. og 29. grein Barnasáttmálans fjalla meðal annars um rétt barna til grunnmenntunar án endurgjalds og að menntun eigi að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum.

Verkefni.

 • Nemendur vinni með 28. og 29. grein. Finni upplýsingar um skólastarf frá því fyrir tíma Barnasáttmálans, eða frá árinu 1989 og beri saman við skólakerfið eins og það er í dag. Hvað hefur breyst? Þau gætu borið saman námskrár úr eigin skóla, skólareglur eða annað úr skólanum sínum. Á bókasöfnum sveitarfélaga má gjarnan finna upplýsingar um skólasögu sveitarfélagsins eða Íslands. Dæmi: Almenningsfræðsla á Íslandi 1880- 2007 (ritstjóri Loftur Guttormsson).

Menntun á heimsvísu: Nemendur finna upplýsingar og vinna verkefni á barnasattmali.is og globalis.is um skólagöngu barna í heiminum og hvað hefur breyst á undanförnum árum. Sérstaklega er vert að skoða skólagöngu stúlkna.