Lög – yfirlit

Yfirlit yfir lög sem varða brot gegn börnum á neti – lagaákvæði birt nær óbreytt. Skýringar fylgja í sumum tilvikum. Lagagreinar sem taldar eru upp eru úr almennum hegningarlögum nema annað komi fram.

Vernd gegn ofbeldi á neti

Um kynferðisofbeldi á neti

210. gr. a 
Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt. Sama gildir um ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna einstaklinga 18 ára og eldri á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, enda séu þeir í hlutverki barns, eða ef líkt er eftir barni í slíku efni þó að það sé ekki raunverulegt, svo sem í teiknimyndum eða öðrum sýndarmyndum.

Hver sem skoðar myndir, myndskeið eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni skal sæta sömu refsingu og greinir í 1. mgr.

210. gr. b
Hver sem ræður barn til að taka þátt í nektar- eða klámsýningu, skipuleggur eða veldur því með öðrum hætti eða hefur ávinning af því að barn tekur þátt í slíkri sýningu skal sæta fangelsi allt að 2 árum, en allt að 6 árum ef brot er stórfellt.

Sá sem sækir nektar- eða klámsýningu þar sem börn eru þátttakendur skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

210. gr.
Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum …  eða fangelsi allt að 6 mánuðum. 

Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.
Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.

Um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni gegn börnum almennt, en getur einnig átt við brot gegn barni á netinu. Ákvæði þessi geta komið til skoðunar við rannsókn máls ef þeir sem brotin varða eru á Íslandi þegar brot á sér stað eða ef um er að ræða Íslendinga sem brjóta gegn börnum erlendis

194. gr.
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann (á við börn líka) án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

200. gr.
Kynferðisofbeldi gegn eigin barni eða öðrum niðja: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barnið á aldrinum 15, 16 eða 17 ára.

Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja en sú er greinir í 1. mgr. varðar allt að 4 ára fangelsi, enda sé barnið 15 ára eða eldra.

Sifjaspell: Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina varða fangelsi allt að 4 árum. Hafi annað systkina eða bæði ekki náð 18 ára aldri þegar verknaður átti sér stað má ákveða að refsing falli niður að því er þau varðar.

201. gr.
Kynferðisofbeldi gegn barni tengdu fjölskylduböndum öðrum en eigið barn: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn á aldrinum 15, 16 eða 17 ára sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða barn sem er tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg, eða barn sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.

Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 4 árum.

202. gr.
Kynferðisofbeldi (engin sérstök tengsl): Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.

Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 6 árum.

Tæling: Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Tæling: Hver sem með samskiptum á netinu, annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni eða með öðrum hætti mælir sér mót við barn yngra en 15 ára í því skyni að hafa við barnið samræði eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega á annan hátt skal sæta fangelsi allt að 2 árum.

209. gr.
Blygðunarsemisbrot: Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum) eða sektum ef brot er smávægilegt.

Um annað líkamlegt ofbeldi

217. gr.
Hver, sem gerist sekur um líkamsárás, enda sé hún ekki svo mikil sem í 218. gr. segir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum, en fangelsi allt að 1 ári, ef háttsemin er sérstaklega vítaverð.

218. gr.
Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru.

Um brot sem setja börn í hættu

222. gr.
Hver, sem vísvitandi eða af gáleysi fær barni, yngra en 15 ára, geðveikum manni, einstaklingi með þroskahömlun eða ölvuðum manni hættulega muni eða efni í hendur, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Um mansal

227. gr. a
Hverjum þeim sem gerist sekur um eftirtalda verknaði, einn eða fleiri, í þeim tilgangi að misnota mann kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans skal refsa fyrir mansal með allt að 12 ára fangelsi:

1. Að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi og við það er beitt eða hefur verið beitt ólögmætri nauðung skv. 225. gr., eða frelsissviptingu skv. 1. mgr. 226. gr., eða hótun skv. 233. gr., eða ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður eða með því að hagnýta sér bága stöðu viðkomandi.
2. Að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi yngri en 18 ára.
3. Að láta af hendi greiðslu eða annan ávinning til að afla samþykkis til misnotkunarinnar hjá manni sem ræður gerðum annars manns.
Sömu refsingu skal sá sæta sem tekur við greiðslu eða öðrum ávinningi skv. 3. tölul. 1. mgr.
Beinist brot skv. 1. mgr. gegn barni skal taka það til greina til þyngingar refsingunni.
Sömu refsingu skal hver sá sæta sem gerist sekur um eftirtalda verknaði, einn eða fleiri, í því skyni að greiða fyrir mansali:
1. Að falsa ferða- eða persónuskilríki.
2. Að annast milligöngu um slík skilríki eða útvega þau.
3. Að halda eftir, fjarlægja, skemma eða eyðileggja ferða- eða persónuskilríki annars einstaklings.

Um brot íslenskra ríkisborgara gegn börnum í útlöndum

3. gr. 5. gr. [Í þeim tilvikum sem greinir í 2. tölul. 1. mgr. skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot manns, sem var íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi á verknaðarstundu, er fellur undir 194. gr., 2.–4. mgr. 206. gr., 1. mgr. 210. gr. b, 2. mgr. 216. gr., 218. gr. a, 2. mgr. 225. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a og framið er erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn teljist ekki refsiverður eftir lögum þess ríkis. Sama gildir um brot manns gegn barni yngra en 15 ára er fellur undir 197.–198. gr. og 1. mgr. 202. gr., svo og brot manns er fellur undir 1. mgr. 210. gr. a, enda sé um að ræða framleiðslu efnis sem þar greinir.]

Um vændi

206. gr.
Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. 

Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis