Einelti

Öll börn eiga rétt á að vera hluti af hópnum sem þau eru í, að fá að taka þátt í því sem hópurinn er að gera, að aðrir hlusti og taki mark á því sem þau segja. Öll börn eiga rétt á því að komið sé vel fram við þau og öll börn ættu að koma vel fram við aðra.

Þegar ekki er jafnrétti innan hópsins getur einelti orðið til.

Einelti er ofbeldi og er aldrei í lagi. Það er mikilvægt að koma í veg fyrir að einelti eigi sér stað en hvernig gerum við það? Til dæmis með því að búa til gott umhverfi fyrir alla, líta á það sem kost að við erum ekki öll eins, að í hópnum okkar er alls konar fólk og allir fá að taka þátt í því sem verið er að gera. Mikilvægt er að hlusta á alla með jákvæðum huga.

Margir skólar eru með verkefnið Vinátta þar sem bangsinn Blær hjálpar börnum og fullorðnum að eiga góð samskipti og líða vel. Börnin læra að vera umburðarlynd, sýna hvert öðru umhyggju og virðingu og að vera hugrökk. Með hugrekki læra börn að setja sér mörk, segja stopp við óréttlæti og ofbeldi og styðja félaga sína og verja. Er Vinátta í þínum skóla?

Einelti getur verið alls konar.

Dæmi:

 • Uppnefningar og baktal
 • Svipbrigði og hvísl
 • Sögur gerðar til að koma öðrum í vandræði
 • Telja fólk frá því að spjalla eða vingast við ákveðna einstaklinga
 • Sett út á eitthvað í útliti hjá öðrum, klæðnað eða annað.
 • Hæðst af menningu, trú eða húðlit einstaklings
 • Hæðst að fötlun eða heilsuleysi
 • Þegar ákveðnir einstaklingar fá ekki að vera með í leikjum
 • Endurtekin stríðni
 • Illkvittin skilaboð til dæmis á samfélagsmiðlum
 • Þegar neitað er að vinna með ákveðnum einstaklingum í skólanum
 • Þegar einstaklingi er ekki boðið með á viðburði, svo sem í afmæli
 • Eigur annarra eyðilagðar
 • Líkamsmeiðingar, sparkað, slegið, einstaklingur felldur eða hrækt á hann.
 •  

Einelti getur líka verið vegna öfundar eða afbrýðisemi. Þá er gert lítið úr eigum eða hæfileikum annarra.

Þau sem verða fyrir einelti bera ALDREI ábyrgð á eineltinu. Þau sem verða fyrir einelti líður mjög illa. Þau sem beita einelti og þau sem horfa á einelti án þess að bregðast við líður heldur ekki vel.

Einelti getur brotið einstaklinginn niður, honum finnst hann vera lítils virði og einangrar sig. Einelti á aldrei að eiga sér stað.

Ef þú hefur orðið fyrir einelti þá skaltu biðja um hjálp. Þú getur leitað til einhvers fullorðins sem þú treystir, til dæmis námsráðgjafans í skólanum þínum, skólafélagsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Sumum finnst oft gott að byrja á að leita til kennarans. Mundu að einelti er aldrei þér að kenna. Ef þú sérð einhvern vera að leggja annan í einelti þá skaltu láta vita. Ef þér líður illa og finnst þú beita aðra ofbeldi, skaltu líka leita þér aðstoðar.