Einelti

Einelti er ofbeldi og á aldrei að líðast. Þegar einstaklingur eða hópur ræðst að annarri manneskju oft og yfir ákveðið tímabil, er um einelti að ræða.

Einelti getur verið andlegt eða líkamlegt. Andlegt einelti á sér stað þegar talað er niður til einstaklings, hann kallaður ljótum nöfnum og endurtekið gert lítið úr honum. Það er líka andlegt einelti þegar einstaklingur er skilinn útundan og fær ekki að vera með hópnum.

Líkamlegt einelti felst í síendurteknum barsmíðum.

Hvernig getur einelti lýst sér?

 • Uppnefningar og baktal
 • Sögur gerðar til að koma öðrum í vandræði
 • Telja fólk frá því að spjalla eða vingast við ákveðna einstaklinga
 • Þegar gert er grín að öðrum, s.s. vegna útlits
 • Hæðst af menningu, trú eða húðlit einstaklings
 • Hæðst að fötlun eða heilsuleysi
 • Þegar ákveðnir einstaklingar fá ekki að vera með í leikjum
 • Gert grín ítrekað að einstaklingi sem tekur því nærri sér
 • Illkvittin sms eða skilaboð á samfélagsmiðlum
 • Þegar neitað er að vinna með ákveðnum einstaklingum í skólanum
 • Eigur annarra eyðilagðar
 • Líkamsmeiðingar, sparkað, slegið, einstaklingur felldur eða hrækt á hann.

Sá sem verður fyrir einelti ber ALDREI ábyrgð á eineltinu. Sá sem hefur orðið fyrir einelti finnur fyrir mikilli vanlíðan. Einelti getur brotið einstaklinginn niður, honum finnst hann vera lítils virði og einangrar sig. Einelti á aldrei að líðast.

Ef þú hefur orðið fyrir einelti þá skaltu biðja um hjálp. Þú getur leitað til námsráðgjafans í skólanum þínum, skólafélagsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Sumum finnst oft gott að byrja að leita til kennarans. Mundu að einelti er aldrei þér að kenna. Ef þú sérð einhvern vera að leggja annan í einelti þá skaltu láta vita. Einelti á aldrei að líðast.