Dagur mannréttinda barna 2023

Þema Dags mannréttinda barna 2023: Umburðarlyndi

Á almanaki alþjóðlegra daga er Dagur umburðarlyndis þann 16. nóvember ár hvert. Deginum hefur verið fagnað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna síðan árið 1996 að frumkvæði Menningarmálastofnunar UNESCO.

Nóvembermánuður er annasamur tími í íslenskum skólum og margir halda upp á Dag gegn einelti 8. nóvember og Dag íslenskrar tungu sem líkt og Dagur umburðarlyndis er þann 16. nóvember. Við hjá Barnaheillum gerum okkur grein fyrir því að kennarar og annað starfsfólk skóla hefur fjölmörgum öðrum verkefnum að sinna dags daglega og því hvetjum við ykkur til að samþætta Dag umburðarlyndis við Dag mannréttinda barna.

 

Hugtakið Umburðarlyndi

Sameinuðu þjóðirnar hafa í meira en 70 ár lagt áherslu á mikilvægi umburðarlyndis. Í dag, öllum þessum árum síðar, hefur þörfin fyrir umburðarlyndi ekki minnkað, síður en svo. Margt hefur breyst í samfélaginu og gríðarlega margt áunnist ef litið er til baka. En þrátt fyrir miklar breytingar er ekki þar með sagt að umburðarlyndi hafi sjálfkrafa aukist á meðal fólks.

 

Hugmynd af nemendaþingi í skólum með Umburðarlyndi sem þema

Ein af mörgum leiðum til að stuðla að mannréttindum barna með umburðarlyndi að leiðarljósi er að setja á fót nemendaþing með áherslu á hugtakið. Með nemendaþingi gefast tækifæri til umræðna og koma á framfæri hugmyndum tillögum auk þess að hlusta á hvað aðrir hafa að segja. Kennarar geta nýtt sér slík þing sem lið í að vinna með grunnþáttinn lýðræði- og mannréttindi. Við hvetjum ykkur því til að hafa nemendaþing í skólanum sem öll börn taka þátt í. 

Bréf til allra skóla 2023

Nemendaþing með umburðarlyndi sem þema