DMB samstarfsverkefni logo

 

 

 

Dagur mannréttinda barnaÞann 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðadagur barna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um framkvæmd dagsins.

Í þingsályktunartillögu félags- og barnamálaráðherravorið 2021 um Barnvænt Ísland – framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að dagurinn skuli efldur frá og með árinu 2021. Vinna skuli að því að gera 20. nóvember hærra undir höfði og nýta daginn enn frekar við fræðslu og vitundarvakningu um réttindi barna. Auk Barnaheilla er nú stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna framkvæmdaraðili Dags mannréttinda barna.

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi SÞ þennan dag árið 1989. Hann var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.

Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar eiga jafnframt að tryggja börnum þessi réttindi og vera samhljóma Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar.

Hér neðar á síðunni má finna hugmyndir að verkefnum og viðfangsefnum sem sérstaklega tengjast Degi um mannréttindi barna og afmæli Barnasáttmálans og einnig myndskeið þar sem krakkar tala um mannréttindi barna.

Að þekkja réttindi sín

Mikilvægt er að börn og fullorðnir þekki réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum og menntun barna í mannréttindum þarf að vera samofin öllu skólastarfi. Þó er gott að velja einn dag eða nokkra daga skólaársins sérstaklega til að vinna með og vekja athygli á mannréttindum barna. Afmælisdagur Barnasáttmálans er tilvalinn til þess.

Leik-, grunn- og framhaldsskólar, svo og aðrir aðilar sem vinna með börnum, eru hvattir til að helga 20. nóvember fræðslu um mannréttindi barna. Daginn er hægt að nýta til vinnu eða til að kynna afrakstur vinnu sem hefur átt sér stað dagana á undan, eins konar uppskeruhátíð.

Skólar eru hvattir til að hafa útfærslu verkefna sem fjölbreyttasta og til að virkja börnin til þátttöku í skipulagningu, hvetja þau til sköpunar og tjáningar. Mikilvægt er að hver skóli taki þátt á eigin forsendum og útfæri vinnuna að aðstæðum á hverjum stað. Þar sem aðstæður eru, gætu jafnvel heilu sveitarfélögin tekið sig saman, unnið saman verkefni og verið með sameiginlega viðburði í tilefni dagsins.

barnasattmali.is

Sérstaklega skal bent á vefinn barnasattmali.is. Þar er ýmis fróðleikur og gagnvirk verkefni fyrir nemendur auk  ýmissa upplýsinga fyrir kennara og foreldra um Barnasáttmálann og mannréttindi barna. Í kennsluhugmyndum er bent á ýmis verkefni sem hægt er að vinna sem ítarefni við verkefnin á barnasattmali.is.

Vefurinn er einkum ætlaður grunnskólum, en fróðleikur sem þar er að finna og hluti verkefnanna hentar einnig fyrir önnur skólastig.

Verkefni

 Leikskólar     Yngsta stig grunnskóla     Miðstig grunnskóla     FjársjóðskistanUnglingastig grunnskóla     Framhaldsskólar

 

Hér má finna hlekk á Dag mannréttinda barna 2020

Hér má finna hlekk á Dag mannréttinda barna 2021

Hér má finna hlekk á Dag mannréttinda barna 2022